151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:00]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Jú, ég get tekið undir það að hluta til, það er rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað skipta þessar aðgerðir máli og við í Miðflokknum höfum stutt þær. En innlegg mitt er að við fáum að sjá mælingar á því hver var hinn raunverulegi árangur. Til dæmis var verið að ákvarða upphæðir í tiltekin verkefni sem síðan gengu ekki eftir. Ég nefni ferðagjöfina sem dæmi. Ég held að enn sé u.þ.b. hálfur milljarður eftir af þeirri upphæð sem var áætluð í ferðagjöfina. En þegar kemur að þessum málum er það nú einu sinni þannig — og ég nefndi það í ræðu minni, hv. þingmaður — að síðan kemur í ljós að það er einkaneyslan sem hefur skipt verulegu máli í þeim aðstæðum sem við höfum verið í. Ég held að hún eigi stóran þátt í því að samdrátturinn var ekki 10% heldur 6%, eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á. En auðvitað skipta aðgerðirnar máli. Ég er kannski líka að horfa á þetta í svolítið víðara samhengi þegar kemur að árangursmælingum almennt, að við sem höfum fjárveitingavaldið eigum að geta fengið að sjá það, þegar við erum að ákveða að setja stórar upphæðir í ákveðna hluti, hvaða árangri þær aðgerðir voru að skila. Við sáum t.d. þegar kom að hlutabótaleiðinni að hún skipti að sjálfsögðu margar fjölskyldur miklu máli en við sáum líka að hún var misnotuð. Þá spyr maður sig: Var þetta kannski ekki alveg nógu vel undirbúið ef hægt var að gera það með þessum hætti? (Forseti hringir.) Svona heilt yfir held ég að við séum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að við þurfum að reyna að (Forseti hringir.) horfa meira í árangursmælingar almennt þegar kemur að fjárlagagerð.