151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:07]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér af miklu kappi fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem er eiginlega bara til fimm ára að nafninu til því að hún er endurskoðuð einu sinni á ári, það er alla vega markmiðið. Ég ætla að tala um nefndarálitið sem er álit 4. minni hluta, sem sagt mitt álit við þessa fjármálaáætlun. Á liðnu kjörtímabili hefur reynt mjög á lög um opinber fjármál. Alþingi hefur frá síðustu kosningum samþykkt fjármálastefnu, tvær tillögur um breytingar á fjármálastefnu, þrjár fjármálaáætlanir, fern fjárlög, ein lokafjárlög og loks átta sinnum fjáraukalög. Strax á vormánuðum 2019 þurfti að endurskoða fjármálastefnu og framlagða fjármálaáætlun. Sú endurskoðun reyndist nauðsynleg enda hafði ríkisfjármálum verið of þröngur stakkur sniðinn í upphaflegri fjármálastefnu. Í kjölfarið var ákveðið að setja inn í fjármálastefnu svokallað óvissusvigrúm. Vonir stóðu til þess að með auknu svigrúmi fjármálastefnu þyrfti ekki að grípa til frekari endurskoðunar jafnvel þó að svartsýnni sviðsmyndir yrðu að veruleika. Covid-19 gerði út um þær vonir, eins og við vitum, og allt frá komu faraldursins hafa ríkisfjármálin verið í viðstöðulausri endurskoðun.

Það má velta því fyrir sér hvers vegna lög kveði á um árlega framlagningu fjármálaáætlunar í ljósi þess hversu oft hefur þurft að víkja frá gildandi áætlunum á liðnu kjörtímabili. Fjármálastefna leggur strax í upphafi kjörtímabils fram skilgreind viðmið í ríkisfjármálum og fjármálaáætlanir geta ekki hnikað þeim viðmiðum. Þá eru ráðherrar ekki bundnir af þeirri stefnumótun sem kemur fram í fjármálaáætlun um einstök málefnasvið. Enn fremur getur meiri hluti Alþingis vikið frá skilyrðum laga um opinber fjármál, t.d. um skuldahlutfall, eins og gert var í kjölfar Covid-19. Þrátt fyrir framangreint hefur regluleg framlagning fjármálaáætlana sannað gildi sitt að vissu leyti. Sú umfjöllun sem fjármálaáætlun fær á vormánuðum gerir það að verkum að ríkisfjármálin eru reglulega í umræðunni, sem hlýtur að vera afskaplega mikilvægt fyrir okkur öll, í stað þess að þau séu aðeins rædd í tengslum við fjárlög. Þá er gagnlegt að hafa yfirsýn yfir stefnumótun einstakra málefnasviða til lengri tíma. Gildandi fjármálaáætlun hverju sinni leggur auk þess þrýsting á sitjandi ríkisstjórn að uppfylla gefin loforð.

Eins og segir í greinargerð með fjármálaáætlun eru engar efnislegar breytingar frá gildandi fjármálaáætlun og helstu breytingar tilkomnar vegna uppfærðrar þjóðhagsspár. Þessi fjármálaáætlun er því haldin sömu göllum og sú fjármálaáætlun sem Alþingi samþykkti rétt fyrir síðustu jól. Ekki er búið að útfæra hvernig eigi að vinna niður biðlista í heilbrigðiskerfinu. Ekki er búið að fjármagna niðurgreiðslu sálfræðikostnaðar. Enn er gerð aðhaldskrafa á opinberar stofnanir á tíma áætlunarinnar og ekki áætlað að ráðast í úrbætur á almannatryggingakerfinu til að draga úr skerðingum og koma í veg fyrir frekari kjaragliðnun.

Næsta ríkisstjórn mun fá í hendurnar það verkefni að útfæra nánar afkomubætandi ráðstafanir á árunum 2023–2025, að umfangi 102 milljarðar kr. Þá skiptir miklu að læra af mistökum fortíðarinnar og standa vörð um heilbrigðiskerfið og almannatryggingar. Við megum ekki skera niður í opinberri þjónustu til þeirra sem mest þurfa á aðstoð að halda. Fyrir nokkrum dögum fjallaði fréttastofa RÚV um 80% fjölgun bráðainnlagna. Geðlæknir á BUGL sagði af því tilefni að sérfræðingar væru sammála um að við værum nú að fá yfir okkur afleiðingar bankakreppunnar. Við sjáum ekki enn fyrir endann á afleiðingum þess hve mikið var skorið niður í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Ég vona að við gerum ekki sömu mistökin aftur. Þegar við tölum um BUGL verðum við að átta okkur á því að um 80% af bráðainnlögnum eru vegna andlegrar vanlíðunar unga fólksins okkar. Það er þyngra en tárum taki að við skulum standa hér og vera í þessum sporum í dag, mér er algerlega fyrirmunað að skilja það. Hér eru kjörnir 63 fulltrúar, hér er ríkisstjórn starfandi með ráðherrum og fylgdarliði, og mér er það algjörlega óskiljanlegt að ekki skuli vera tekið utan um þennan vanda og það strax. Það er algerlega óafsakanlegt. Það skiptir engu máli þó að verið sé að setja 100 milljónir hér og þar þegar þörfin er kannski 100 milljarðar, eða hvað það er. Það skiptir ekki máli að setja 10.000 kr. hér og þar þegar þörfin er kannski 100 milljarðar. Við verðum að hugsa um það eitt að setja fólkið okkar í fyrsta sæti. Við verðum að koma til móts við fólkið okkar og hjálpa því ef það er hjálpar þurfi.

Fjórði minni hluti hefur lagt til nokkrar breytingartillögur við þessa fjármálaáætlun sem allar miða að því að draga úr biðlistum í heilbrigðiskerfinu og aðstoða þá sem mest þurfa á aðstoð að halda. Það merkilega við það er að þrátt fyrir að Flokkur fólksins leggi fram frumvörp þar sem mælt er fyrir um að við hjálpum þeim sem eru hjálparþurfi, hækkum lágmarkslaun, hættum að skattleggja fátækt, reynum að koma í veg fyrir að hér safnist upp biðlistar, þá er því ekki komið í lag af þeim sem stýra landinu og eiga að sjá til þess. Við skulum ekki gleyma því, virðulegi forseti, að allt það sem við erum að glíma við í dag, allur vandinn, er mannanna verk. Covid-vandinn gæti hugsanlega verið mannanna verk eins og hefur verið að koma fram upp á síðkastið, eins og ég las í Morgunblaðinu í morgun. Hvernig varð þessi veira til? Við vitum það ekki.

Það er óafsakanlegt, virðulegi forseti, að við skulum ekki gera betur fyrir þá sem mest þurfa á hjálp að halda. Ég þarf ekki að eyða tíma mínum í að tala um það sem þessir fjármálasnillingar sögðu á undan mér, töluðu um efnahagsástandið. Allir vita að 20.000 manns á atvinnuleysisskrá er skelfileg staða, það vita allir sem vita vilja. Það er frábært framtak að koma með 7.000 störf, en það er líka alveg stórundarlegt þegar atvinnurekendur skilja hvorki upp né niður í því að þeir eigi í vandræðum með að ráða til sín starfsfólk. Hvernig stendur á því? Hér hefur komið fram að formaður hótelrekstraraðila er í stórkostlegum vandræðum með að ráða til sín starfsfólk nú þegar farið er að hilla undir það að við förum að taka aftur á móti ferðamönnum. Ég næ þessu ekki. Ég næ ekki neinni tengingu við það hvernig á því stendur að við hrópum hér um þetta skelfilega atvinnuleysi á sama tíma og atvinnulaust fólk neitar sumt að fara í vinnu. Svoleiðis á það ekki að vera. Þessi 7.000 störf þurfa að verða að raunveruleika og komast út í kerfið. Eftir standa 13.000 atvinnulausir. Nú er verið að auglýsa, ég sé það í dag að starfsauglýsingar bætast við, möguleikar á því að fá störf. Það er eitthvað að í kerfinu þegar atvinnurekendur kvarta undan því að fólk hafni störfum og neiti vinnu, þegar atvinnurekendur eru í vandræðum með að ráða til sín fólk í vinnu. Það er eitthvað að í þessu kerfi því að það er ekki þannig að fólk vilji ekki vinna, ég trúi því aldrei. Það er eitthvað það ömurlegasta sem nokkur einstaklingur getur lent í, að missa svo gjörsamlega fótanna eins og þessi faraldur hefur gert að verkum og fjölskyldurnar eru í rosalegum vanda.

Hvað hefur ríkisstjórnin gert til að koma t.d. til móts við skuldsettar fjölskyldur sem sitja uppi með verðtryggð íbúðalán? Hvað hefur verið gert í verðbólgu sem er tæplega tvöfalt umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans? Ekkert. Haldið bara áfram að vera með ykkar verðtryggðu lán sem margfaldast. Skuldir heimilanna hafa vaxið á þessu tímabili, á örfáum mánuðum, um tugi milljarða. Flokkur fólksins hefur ítrekað rætt það, bæði hér í þessum ræðustóli, mikilvægasta og merkilegasta ræðustóli landsins, sem og á prenti, og höfum beint því til ráðamanna, gerðum það fyrst fyrir ríflega ári, hvort ekki sé ráð að tryggja fjölskyldurnar, setja á þær belti og axlabönd, sem búa við verðtryggðu lánin og afnema verðtryggingu á neytendalán. Alltaf og alls staðar var svarið: Engar áhyggjur, við erum ekki að fara að fá neitt verðbólguskot. Ég er alltaf svartsýna konan. En svo merkilegt sem það er þá var þetta rétt hjá svartsýnu konunni, en það þarf alltaf að bíða eftir því að skellurinn komi. Það þarf alltaf að láta einstaklingana, fólkið okkar og fjölskyldurnar, detta ofan í brunninn áður en við hjálpum þeim, áður en við byrgjum brunninn. Þetta var smáinnlegg í umræðu um skuldastöðu heimilanna, um verðbólguna og um það að ríkisstjórnin hefur akkúrat ekkert gert til þess að afnema verðtryggingu á neytendalán, ekki einu sinni nú í heimsfaraldri.

Eins og ég skrifaði í grein sem birtist í Morgunblaðinu fyrir ríflega viku vitum við líka öll að ef hökt eða smáhikst, við skulum segja smákvef, verður í bandaríska hagkerfinu þá hnerrar það íslenska. — Réttara sagt, ég sneri þessu algjörlega við, ef bandaríska hagkerfið hnerrar þá fáum við kvef. Ég veit ekki alveg, þegar verið að tala um að hafa hlutina fyrirséða og byggja á góðum grunni, hvað verið er að gera í því sambandi. Alls ekki. Ég get hins vegar séð að það á að selja frá okkur gulleggin. Ég sé að talað er um, og verið er að vinna í því, að selja Íslandsbanka sem skilaði metafkomu, methagnaði. Ég veit líka að það er verið að lækka bankaskattinn um einhverja milljarða til þess að auðvelda þá sölu og gera hana girnilegri. Spurningin er þá sérstaklega: Fyrir hverja? Af hverju fáum við ekki að njóta ávaxtanna? Einhvers staðar stendur: Fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá. Það er íslenskur almenningur sem borgar venjulega brúsann.

Flokkur fólksins, eða ég hér í 4. minni hluta, leggur til nokkrar breytingar eins og ég sagði áður. Ég legg til að framlög verði aukin á málefnasviði 24 til að fjármagna niðurgreiðslu sálfræðikostnaðar um heilan milljarð króna á hverju ári fjármálaáætlunar, hvorki meira né minna. Í því sambandi langar mig að vísa til fyrirspurnar sem minn góði þingflokksformaður og flokksbróðir, Guðmundur Ingi Kristinsson, kom með fyrir nokkru, í mars að mig minnir, þar sem hann benti á að a.m.k. 1.200 börn um allt land bíði eftir greiningu eða meðferð við geðrænum eða sálrænum vanda. Fjölmennasti biðlistinn er hjá Þroska- og hegðunarstöð þar sem 600 börn bíða greiningar. Virðulegi forseti, við erum í alvöru að tala um börn. Við látum börn með geðræn vandamál bíða, ekki bara mánuðum heldur jafnvel árum saman. Og aftur, virðulegi forseti: Við erum að tala um börn. Börn eiga aldrei að fara á biðlista eftir meðferð, hvorki við geðrænum sjúkdómum né nokkru öðru. Álag á börn og fjölskyldur þeirra er oft og tíðum svo alvarlegt að skaðinn verður óbætanlegur, bæði andlega, líkamlega og fjárhagslega.

Með því að útrýma ekki biðlistum barna og unglinga framleiðir ríkið öryrkja á færibandi og enn er ég að vísa í hv. þm. Guðmund Inga Kristinsson, minn góða flokksbróður. Áfram held ég: Það hefur komið í ljós að andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum hefur aukist, sem gerir þörf á góðri og skjótri heilbrigðisþjónustu fyrir börn lífsnauðsynlega, og eins varðandi ADHD, kvíða, einhverfuróf, hegðunar- og samskiptavanda og námserfiðleika barna. Það er því algerlega með ólíkindum og óskiljanlegt að ekki sé brugðist við biðlistavandanum. Bið eftir talþjálfun hjá talmeinafræðingum er á bilinu 17–36 mánuðir fyrir börn sem eiga erfitt með að ná valdi á tungumálinu. Bíddu bara í þrjú ár. Bíddu bara. Þetta eru skýr skilaboð. Lengst er þó biðin á landsbyggðinni; fjöldi barna, hátt í 900 börn, bíður eftir þessari þjónustu.

Virðulegi forseti. Við höfum verið að glíma við ýmislegt, bæði í fjárauka, í fjárlögum og nú í fjármálaáætlun sem er að vissu leyti stoðin undir fjárlögin. En að neita börnum um þjónustu þegar þau þurfa á henni að halda er algerlega óafsakanlegt. Að sjö ára barn fái ekki nauðsynlega þjónustu fyrr en það er kannski orðið tíu ára gamalt er algerlega óásættanlegt. Hvers lags samfélag er það sem við byggjum þegar við bjóðum upp á slíkt? En það var ekkert vandamál að setja 180 milljónir í minkafóður. Það var heldur ekki vandamál í gær að koma 400 milljónum í gegn í sambandi við stuðning við einkarekna fjölmiðla sem að stærstum hluta, þeir sem fá mest, eru í eigu auðmanna sem vita varla aura sinna tal. Það virðast vera til peningar í slíka hluti en að setja fólkið í fyrsta sæti virðist vera erfiðleikum háð og vefjast fyrir mörgum, eða a.m.k. þessum stjórnvöldum.

Ekkert barn á nokkurn tíma að þurfa að bíða á biðlista. 9% barnanna okkar, ungmenna, hafa hugsað um sjálfsvíg. Þessar tölur eru með ólíkindum, maður getur eiginlega ekki sett þær í samhengi við eitt né neitt nema vanhæfar ríkisstjórnir, ríkisstjórn eftir ríkisstjórn. Eins og kom fram hjá framkvæmdastjóra BUGL, yfirgeðlækni þar, tengja þeir þennan vanda og þessa miklu þörf fyrir innlögn barna inn á BUGL, bráðavanda, ekki síður við afleiðingarnar af efnahagshruninu 2008. Við erum að ganga í gegnum aðra holskeflu núna, gríðarlegt atvinnuleysi, gríðarlega örbirgð, með vaxandi fátækt. Hvernig er þá hægt að segja á sama tíma að verið sé að veita svo og svo marga milljarða í t.d. almannatryggingakerfið? Frábært. Það er satt. Búið er að veita milljarða inn í almannatryggingakerfið. En hvernig nýtist það almannatryggingaþegunum? Hvernig nýtist það þeim fjölda sem þar er? Hvernig nýtist það þeim þegar kjaragliðnunin verður alltaf meiri og þau fá aldrei neina kjarabót? Hvernig nýtist það þeim þegar í janúar ár hvert er bara gerð leiðrétting vísitölu á framfærslu þeirra frá almannatryggingakerfinu og sú leiðrétting fylgir ekki almennri launaþróun í landinu? Bilið á milli almannatryggingaþega og launþega hefur enda gliðnað, gliðnaði um 4,3% í janúar sl.

Virðulegi forseti. Kjaragliðnunin hjá öryrkjum og almannatryggingaþegum sem hafa ekkert annað að stóla á en berstrípaðar bætur almannatrygginga er farin að nálgast 40%, hvorki meira né minna. Það er í raun óafsakanlegt að tala um milljarða sem settir séu inn í kerfi sem samt sem áður heldur fólki í svo kirfilegri fátækt að það getur ekki reist hönd yfir höfuð sér. Er furða að geðvandi fari vaxandi í samfélaginu, að sálræn vanlíðan sé vaxandi í samfélaginu? Hvað ætli margir ráðherrar og alþingismenn hafi raunverulega búið við fátækt? Það er kannski þess vegna sem það virðist svo erfitt fyrir þá að setja sig í spor þeirra sem standa við hjálparstofnanir í hverjum einasta mánuði, svo hundruðum skiptir, með börnunum sínum til að biðja um mat. Svona stjórnvöld eru mannfjandsamleg. Við eigum að hugsa um fólkið fyrst, við eigum að hugsa um alla. Við eigum ekki að vera með sérhagsmuni hér, við eigum að hugsa um almannahag fyrst og fremst og við eigum alltaf að gera það. Til þess erum við kjörin. Það á aldrei að vera spurning um það, aldrei nokkurn tíma.

Þess vegna skilur maður ekki hvernig hægt er að rýra tekjur ríkissjóðs á sama tíma og verið er að horfa á vaxandi fátækt, rýra tekjur ríkissjóðs með því að lækka bankaskatta og veiðigjöld. Stórútgerðin skilar inn til okkar um 500 milljónum á ári á sama tíma og hún hefur á síðustu árum hirt um 600 milljarða, 600.000 milljónir, í arð. 2,5 milljarðar hafa farið til okkar, íslensku þjóðarinnar, sem á sjávarauðlindina, á síðustu fimm árum. Megnið af því sem við höfum fengið fyrir aðgang að sjávarauðlindinni fer í að reka þau batterí sem eru í kringum sjómennskuna og útgerðina, Hafró og Fiskistofu og allt þetta; rallið og svona, að finna fyrir þá fiskinn og svona. Við búum við kerfi sem er ótrúlega gallað á svo margan hátt. Á sama tíma er alltaf sami söngurinn hér, alltaf að vanda sig að skrifa fallegar ræður, sami söngurinn, með fullri virðingu fyrir okkur öllum. En að við stígum inn og brjótumst út úr þessum kassa, þessum ramma — nei, það er minna um það. Það er miklu minna um það.

Fjórði minni hluti leggur líka til að framlög á málefnasviði 25 verði aukin til að hægt sé að fjármagna hjúkrunarrými í réttu samræmi við kostnað. Rétt er það að næstu þrjú árin er verið að auka verulega í ný hjúkrunarrými. Ég veit ekki betur en að staða hjúkrunarrýma og þeirrar þjónustu sé gjörsamlega á vonarvöl. Ég veit ekki betur en að það vanti fleiri milljarða inn í þjónustuna og ég veit ekki betur en að rekstraraðilar þjónustunnar séu að segja að það sé farið að bitna á eldri borgurunum okkar, pabba og mömmu og afa og ömmu, sem þurfa að nýta þessa þjónustu. Það hlýtur að segja sig sjálft að þegar fjármagn vantar þá dregur úr þjónustunni. Það liggur í hlutarins eðli. Rekstrarhalli hjúkrunarheimila er viðvarandi vandamál og ljóst að auka þarf framlög strax til að tryggja áframhaldandi rekstur þeirra. Það verður að tryggja að heimilin fái það fjármagn sem þau þurfa til að mæta þeim kröfum sem felast t.d. í styttingu vinnuvikunnar.

Fjórði minni hluti leggur einnig til að framlög á málefnasviði 25 verði aukin svo að efla megi meðferðarúrræði og draga úr biðlistum. Fjárhæðirnar eru 3 milljarðar á ári vegna hjúkrunarheimila, 400 millj. kr. á ári vegna meðferðarúrræða. Lagt er til að framlög verði aukin á málefnasviði 27 og 28 svo að draga megi úr skerðingum almannatrygginga og tryggja árlega uppfærslu skv. 69. gr. laga um almannatryggingar. Ítrekað hefur verið gengið fram hjá skýru lagaákvæði sem kveður á um að fjárhæðir skuli hækka í samræmi við launaþróun. Þá hafa frítekjumörk staðið óbreytt árum saman, algerlega þvert á það sem hv. formaður fjárlaganefndar sagði í sinni ágætu ræðu hér í dag. Þegar hann kom hér inn og flutti okkur nefndarálit meiri hlutans sagði hann í raun að frítekjumarkið hefði verið hækkað í 100.000 kr. hjá þessari ríkisstjórn.

Við skulum aðeins tala um frítekjumörk. Allir vita að við erum sennilega með eitt öflugasta og hrikalegasta og ömurlegasta skerðingarkerfi í heiminum og þótt víðar væri leitað. Birst hefur ný skýrsla frá Stefáni Ólafssyni og Stefáni Má Stefánssyni sem segir allt sem segja þarf um skerðingarnar og þann hringlanda og fíflagang sem er í kringum þær. 69. gr. laga um almannatryggingar kveður á um að fjárhæðirnar skuli aldrei hækka minna en sem nemur neysluvísitölu. En það er það viðmið sem er náð þó svo að hún sé langtum lægri en launavísitalan, sem sannarlega kom í ljós í janúar sl. þegar kjaragliðnunin varð enn meiri en áður. En frítekjumarkið er þannig til komið að í kringum árið 2009, held ég hafi verið, var sett 109.000 kr. frítekjumark á launatekjur almannatryggingaþega. Þeir sem fóru að vinna, öryrkjar og líka aldraðir, og höfðu 109.000 kr. í tekjur voru þá ekki skertir hvað varðaði almannatryggingarnar, en framfærsluuppbót og annað slíkt hvarf að vísu. Ef viðkomandi var svo óheppinn að byrja að vinna um mitt ár og hafði fengið framfærsluuppbót í sex mánuði skuldaði hann þegar um 120.000 kr. og var látinn greiða það til baka, alveg sama hvað. Fyrir síðustu kosningar var ákveðið að afnema þetta.

Árið 2016, svo að ég fari nú yfir söguna, er sérstakt samkomulag gert um meðferð á öldruðum í almannatryggingakerfinu. Sú breyting varð til þess að gerð voru mistök. Þetta átti að einfalda kerfið, en mistökin fólust í því að fyrir janúar og febrúar 2017 féll niður heimild stjórnvalda til að skerða almannatryggingar vegna lífeyristekna. Flokkur fólksins fór í mál fyrir hönd aldraðra og þetta lögbrot kostaði ríkissjóð hátt í 7 milljarða kr. með vöxtum. Nú átti að afnema algerlega frítekjumark á aldraða og það átti að setja það fyrir síðustu kosningar í 0 kr., þannig að hver einasta króna sem eldri borgari ynni sér inni myndi skerða tryggingar hans á móti frá Tryggingastofnun. En það varð mikill urgur, eðli málsins samkvæmt, út af því, þannig að þetta var sett aftur í 100.000 kr., var jú 109.000 kr., þannig að raunveruleikinn er sá að frítekjumarkið lækkaði um 9.000 kr. frá því sem það var áður en þessi hringlandaháttur átti sér stað. Enn er þetta frítekjumark hjá öryrkjum 109.000 kr. og hefur verið það í tæp 12 ár. Hefði það fylgt þó ekki væri nema vísitölu neysluverðs væri það ríflega 230.000 kr. í dag.

Flokkur fólksins hefur ítrekað mælt fyrir frumvarpi sem felur það í sér að afnema skerðingar vegna atvinnutekna aldraðra og við höfum sýnt fram á það með skýrslum frá ágætum sérfræðingum að það myndi sennilega frekar auka við peningana okkar í ríkissjóði en hitt. Rétt áður en Capacent Gallup fór á hliðina í fyrravor lét hæstv. félags- og barnamálaráðherra gera úttekt á því hvort það væri tilfellið að ríkissjóður myndi hagnast á því að skerða ekki aldraða vegna atvinnutekna. Við höfum aldrei fengið að sjá forsendurnar sem lágu að baki því að talið var að sennilega myndi ríkissjóður verða af einhverjum krónum. En við tökum ekki mark á því, því að það þarf ekkert rosalega öflugan heila til að átta sig á því að það er ekki bara lýðheilsumál og grundvallarmál fyrir aldraðan einstakling, sem treystir sér til að vinna, að geta gert það áfram án þess að vera refsað fyrir það, hvað þá ef hann er í bágri fjárhagsstöðu og er haldið í fátæktargildrunni, að gefa honum tækifæri á því að reyna a.m.k. að bjarga sér eftir þörfum. Það er ekki talað um eitt eða neitt af þessu, hvorki í fjárlögunum eða nú í fjármálaáætlun, það er í rauninni dansað fram hjá þessu öllu saman, eins og sjóðandi heitum graut sem ekki má dýfa tungunni í.

Flokkur fólksins hefur líka mælt fyrir frumvarpi um að afnema allar skerðingar vegna launatekna öryrkja í a.m.k. tvö ár og gefa öryrkjum kost á því að fara út á vinnumarkaðinn. Það er alveg sama hvernig reynt er að stíga út fyrir þennan rammgirta, fasta kerfiskassa, því er öllu sópað út af borðinu. Samt sem áður er búið að leggja fram skýrslur og vitað að Svíar reyndu þetta vegna fjölgunar öryrkja og voru að spá í að byggja upp grunn að því hvernig við getum hugsanlega eflt öryrkjana okkar, þann mannauð sem við eigum í öryrkjunum okkar, og fengið þá til að taka meiri þátt í samfélaginu. Þeir glímdu við það sama og við erum að glíma við í dag, að mjög margir öryrkjar eru líkamlega hraustir en andlega niðurbrotnir. Þegar spurt var hvers vegna öryrkjum hefði fjölgað svona mikið, allt það umtal, eins og var fyrir tveimur til þremur árum, þá var ekkert sérstaklega litið til þess að við vorum búin að ganga í gegnum algjörar hörmungar, stór hluti þjóðarinnar, eftir efnahagshrunið 2008 og enn eru afleiðingarnar að koma fram, við sjáum það skýrt. Það er algjört grundvallaratriði nú á lokametrum þessarar ríkisstjórnar að hún sýni það í verki að hún ætli alveg örugglega ekki að brenna sig aftur á þeim eldi sem þjóðin var brennd á eftir efnahagshrunið 2008.

Fjórði minni hluti leggur til að framlög verði aukin á málefnasviði 32 svo að styrkja megi hjálparsamtök sem aðstoða fátækar fjölskyldur, enda hefur þeim sem leita aðstoðar fjölgað í kjölfar Covid-19. Ég spyr: Hvernig stendur á því? Hvernig stendur á því að við tímum ekki að setja fjármuni í fátækt fólk sem á ekki fyrir mat? Getur einhver ímyndað sér hvernig einstaklingi líður sem þarf að standa í röð og biðja um ölmusu af því að hann á ekki fyrir mat? En í stað þess að styrkja þessi hjálparsamtök snarlega er eins og verið sé að draga það út með töngum að fá 25 milljónir í fjárauka sem skipt er niður á níu hjálparsamtök.

Virðulegi forseti. Það er mér algjörlega óskiljanlegt vegna þess að í rauninni er hugsjón Flokks fólksins fyrir fólkið fyrst, hún er nákvæmlega það að við eigum að hjálpa fólki en ekki að láta því fjölga í fátækt og fjölga fyrir utan hjálparstofnanir sem eru að gefa því mat. Það hlýtur að vera ljóst að hjálparstofnanir þurfa aðstoð ríkisins til að sinna auknum verkefnum. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli. Við getum ekki verið að spara þessar krónur.

Það er skynsamlegt að gera strax ráð fyrir þessu fjármagni næstu árin. Það er skynsamlegt að gera ráð fyrir því núna í fimm ára fjármálaáætlun. Öll þessi hjálparsamtök þurfa að komast á föst fjárlög. Við verðum að geta sýnt þeim hvernig þau geti tekið utan um fólkið því að það er óeigingjörn vinna sem þessir einstaklingar vinna, og þvílík elja, allt meira og minna í sjálfboðavinnu, óeigingjarnri sjálfboðavinnu. Það má þakka fyrirtækjum landsins og velunnurum að stærstum hluta hvernig hjálparstofnanirnar okkar geta þó gefið af sér það sem þær gera. Ég vildi óska þess að ég gæti sagt að hægt væri að þakka stjórnvöldum fyrir það líka.

Flokkur fólksins hefur líka mælt fyrir 350.000 kr. lágmarksframfærslu, skatta- og skerðingarlaust. Hverjum þykir það of mikið? Þeim sem eru með yfir milljón á mánuði? Það er athyglisvert, og má segja það hér og nú, að við höfum gjarnan talað um framfærsluviðmið velferðarráðuneytisins sem lækkaði allt í einu um tugi þúsunda fyrir tveimur árum, sem enginn skildi. Inni í þessu framfærsluviðmiði fjölskyldunnar, einstaklinga sem fjölskyldna, er ekki tekið tillit til húsnæðiskostnaðar, sem er langdýrasti pósturinn hjá flestöllum fjölskyldum og nú er húsnæðismarkaðurinn eins og allir vita gersamlega stjórnlaus. Það er bilun í beinni á húsnæðismarkaðnum í dag. Húsnæðisverð hækkar upp úr öllum rjáfrum. Leiguverðið er orðið svo bilað að ekki nokkur einasti maður sem er með 250.000 kr. útborgaðar á mánuði getur látið sig dreyma um að eiga fyrir neinu nema rétt fyrir húsaleigu. Það vill svo einkennilega til, virðulegi forseti, að það eru grundvallarmannréttindi að hafa fæði, klæði og húsnæði, hvað þá í einu ríkasta ríki veraldar eins og oft hefur verið sagt um Ísland. Við erum rík þjóð en samt sem áður eru tvær þjóðir í landinu; fátækt fólk sem haldið hefur verið í fátækt í áraraðir og svo hinir. Það væri fallegt ef við sæjum byggða brú þar á milli. Það væri fallegt ef við réttum fram hendurnar til þess þjóðfélagshóps sem hefur verið jaðarsettur hér í áraraðir og sýndum það í verki að við vildum hjálpa honum. Hvernig væri það nú, þegar við setjum þessa fjármálaáætlun aftur til nefndar, að við hreinlega breyttum henni pínulítið? Það fer hver að verða síðastur í þessari ríkisstjórn að sýna úr hverju hann er gerður. Það er hver að verða síðastur að standa við stóru orðin sem sögð voru fyrir síðustu kosningar þegar allt átti að verða betra fyrir alla.

Það er líka skynsamlegt að setja meira fjármagn í forvarnir. Við verðum að taka niður biðlistana. Við verðum að fara að taka skynsamlega á því hvernig við eyðum peningunum okkar. Síðast í gær heyrði ég fréttir af því að læknar væru með allt að 700.000 kr. á dag. Það er íslenskur almenningur sem greiðir fyrir það. Það er engin afsökun að segja að þeir þurfi að borga af stofunni og borga mannahald. Það er enginn einn læknir sem sér um það, þeir eru nokkrir saman. Meðan við erum að berjast gegn fátækt horfum við upp á svona lagað, 12–15 milljónir á mánuði, 100 milljónir á ári. Það er þjóðarskömm þegar ríkissjóður virðist vera það ríkur að hann getur ausið þessum fjármunum þangað. Þegar hann er það ríkur að hann getur jafnvel látið gera liðskiptaaðgerðir erlendis á þreföldu verði frekar en að gera þær hér heima er óafsakanlegt að hér skuli fólk búa við fátækt. Það er algerlega óafsakanlegt og það er ekki spurning um hvað hugtakið merkir. Það er ekki verið að tala um neitt annað en fæði, klæði og húsnæði, ekki verið að tala um að þessir einstaklingar hafi ráð á því að fara í leikhús, í bíó eða sækja menningarviðburði, að fá að taka þátt í þotulífinu, það er enginn að tala um það. Það er bara verið að tala um að reyna að losa um áhyggjur, vanlíðan og sálarangist, verið að tala um að gefa öllum börnum tækifæri til að taka þátt í samfélaginu með jafnöldrum sínum. Það er verið að tala um að virkja allan mannauð í landinu og gefa öllum tækifæri, ekki bara sumum. Það er mannauður í öldruðum, það er mannauður í öryrkjum, það er mannauður í fátæku fólki og sannarlega er allur mannauðurinn í börnunum okkar.

Þá hef ég sagt það sem ég ætlaði mér að segja. Stundum segi ég kannski meira en ég ætlaði að segja, það er nú bara þannig. Ég vil að lokum þakka fyrir frábært samstarf í fjárlaganefnd. Ég hugsa að fjárlaganefnd hafi sjaldan þurft að funda meira. Ég vildi óska þess að ég hefði fengið að vera í meiri hluta og ráða öllu saman, eða a.m.k. einhverju. Þá get ég svarið að hlutirnir væru dálítið mikið öðruvísi. Eitt er víst: Flokkur fólksins setur fólkið alltaf í fyrsta sæti. Þó að einhver tali um að við séum ekki með stefnuskrá í þessu eða hinu ættu hinir sömu að kíkja inn á alþingisvefinn og sjá þau 36 mál sem Flokkur fólksins hefur mælt fyrir á þessu þingi. Það fer ekki á milli mála hver stefna Flokks fólksins er. Það hefur aldrei farið á milli mála. Við vorum stofnuð til að útrýma fátækt barna á Íslandi. Við vorum stofnuð utan um örbirgð. Við vorum stofnuð til þess að kalla fram meiri jöfnuð og meira réttlæti í þetta samfélag. Þess vegna er Flokkur fólksins til. En ég segi enn og aftur, virðulegi forseti: Mér finnst sorglegt að sjá hvernig fjármunum er forgangsraðað án þess að fólkið sé alltaf sett í fyrsta sæti, það er virkilega sorglegt.