151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:15]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Já, kannski heyrir hv. þingmaður einmitt óm af jafnaðarstefnu í orðum mínum en það er einungis vegna þess að jafnaðarstefnan er ekki með einokunarrétt á sanngirni. Ég sé þetta alveg eins líka innan anarkismans og valddreifingarinnar sem slíkrar, það eru alveg sömu markmið með kannski aðeins öðruvísi nálgun. Þegar horft er á það mjög hrátt þá er markaðurinn og jöfn samkeppni þar sem fólk fær einmitt ekki að nýta sér ákveðna aðstöðu í einokun og þess háttar til þess að ná forskoti líka ákveðin kerfisvæðing á sanngirni, allir hafa jafnan aðgang. Sanngirnin, og jöfnuðurinn sem slíkur inn í sanngirninni, er ekki endilega eitthvað sem jafnaðarstefnan á skuldlaust. Það er ekki svo að enginn annar geti sagst vera líka að reyna að ná þessum markmiðum en bara kannski frá aðeins öðruvísi sjónarhorni, eins og ég nefndi áðan með skilyrðislausa grunnframfærslu, þar sem við hættum að hugsa í skerðingunum og einbeitum okkur frekar að því að vinna upp frá rótum hvaðan fólk kemur og hvaða tækifæri fólk fær. Þetta eru nákvæmlega sömu orð og jafnaðarstefnan getur notað en aðferðafræði sem jafnaðarstefnan hefur ekki tekið upp, alla vega hingað til, er t.d. skilyrðislaus framfærsla. Það er kannski þar sem ég þá breytist yfir í að vera ekki jafnaðarmaður heldur kannski frekar anarkisti sem vill dreifa valdinu til fleiri aðila, til í rauninni allra í gegnum beint lýðræði og þess háttar og þátttökufjárlög og því um líkt, sem jafnaðarstefnan hefur, sögulega séð alla vega, ekki verið rosalega hlynnt. En kannski getur hún lært og breyst til framtíðar og ég velti fyrir mér hvaða skoðun hv. þingmaður hefur á því.