151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[15:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það er mjög mikilvægt að við nýtum alla þá tekjustofna sem við getum í aðstæðum sem þessum. Hér er minnisblað frá efnahags- og fjármálaráðuneyti vegna fjáraukans sem við erum að ræða hér. Það er yfirlit á bls. 6 sem er athyglisvert. Þar kemur fram þar sem rætt er um tekjur að lækkun bankaskattsins var flýtt. Þetta er tekjumissir fyrir ríkissjóð upp á 5,7 milljarða kr. á þessu ári. Mig langar að heyra aðeins frá hæstv. ráðherra: Hvaða efnahagslega ávinningi fyrir þjóðarbúið telur hann að þessi lækkun hafi skilað í raun og veru, og fyrir almenning í landinu? Hafa þjónustugjöld bankanna lækkað? Hefur hæstv. ráðherra tekið eftir því hver afkoma bankanna er? Nú skilaði einn banki rúmlega 12 milljarða kr. hagnaði en á sama tíma sagði hann upp 20 manns: Telur hæstv. ráðherra að þetta hafi verið farsæl niðurstaða og að hún hafi skilað því sem menn héldu að hún myndi skila eða vonuðust til að hún myndi skila, þeir sem voru fylgjandi þessu?