151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[18:56]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi spurningu sem til mín var beint: Nei, ég þekki ekki til þess hver ástæðan er fyrir því að milljarðurinn sem er á fjármálaáætlun fyrir næsta ár, sem á að endurspegla þann metnað sem tekur í orði kveðnu gildi þegar á þessu ári, er ekki á neinum fjárlögum þessa árs. Ég hef ekki spurt að þessu. Ég hef ekki fengið svör en ég ætla giska. Ég held að þarna hafi freistingin einfaldlega verið sú að gera minna frekar en meira, vegna þess að þá er hægt að tromma upp með næstu fjárlög og bæta við þessum milljarði, kannski einhverju meiru og þá hljóma prósenturnar betur í þeirri ríkisstjórn sem fólk vonast væntanlega til að geta haldið áfram að starfa fyrir að loknum kosningum. En við reynum að sjá til þess að svo verði ekki og metnaðurinn verði í alvöru meiri en ekki bara einhver sýndarmetnaður.

Svo vil ég taka heils hugar undir með hv. þingmanni varðandi mikilvægi þess að tengja saman aðgerðir í loftslagsmálum og nýsköpun af því að á næstu árum og áratugum verða loftslagsmál drifkraftur allra nýsköpunar. Þau fyrirtæki sem taka virkan þátt í grænni umbyltingu, þau ríki sem eru leiðandi, verða vaxtarbroddarnir á næstu áratugum. Þau fyrirtæki sem ekki taka þátt munu fara á hausinn. Það virkar bara þannig.

Vegna þess að þingmaðurinn situr í velferðarnefnd langar mig aðeins að víkja að einu litlu geðheilbrigðismáli sem við höfum verið með í umræðu undanfarna mánuði, sem er staða átröskunarteymis Landspítalans. Það kom nefnilega fram í svari ráðherra við fyrirspurn hér í ársbyrjun að átröskunarteymið væri fjórðungi minna en það var fyrir fimm árum, að fjöldi á biðlista hafi sjöfaldast á sama tíma og biðtími væri 18–20 mánuðir. Í ljósi þess að teymið fær ekki nema 55 milljónir á ári, væri ekki upplagt einmitt að nýta fjáraukalög til að bregðast við þessum útgjöldum sem ríkisstjórninni virðist ekki hafa verið ljóst að þyrfti að auka þegar við samþykktum fjárlög hér fyrir hálfu ári?