151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[14:36]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði ekki sérstaklega um fjárheimildir heldur var að vísa í þær sem ástæðu fyrir því að uppi væri vandi vegna þessara mála sem hefði verið kallað eftir fjármagni í til þess að vinna betur á. Það á alltaf að fjalla um mat á áhrifum í frumvarpinu en það er ekkert sérstakt kostnaðarmat sem fylgir þessu, allt í lagi. Ég var að spyrja því að við viljum fá að vita hver staðan er í málaflokknum þegar verið er að gera lagabreytingar, hvort það hafi áhrif á fjárheimildir, og ef ekki hvort þetta geri hlutina skilvirkari á einhvern hátt. Það hefur kannski jákvæð áhrif á fjárheimildir og þess háttar.

Það sem ég er að spyrja hv. þingmann um hérna eru ekki krónutölur heldur staðan á eftirliti með vinnumansali, hvort það hafi breyst þannig að ekki sé þörf á þeim fjárheimildum sem ég var að fjalla um áðan, heldur lagi þessar lagabreytingar þetta þannig að það verði skilvirkara og kostnaðarminna eða eitthvað því um líkt. Það tæki þá á þeim áhyggjum sem voru hér áður um að ekki næðist að sinna eftirliti með vinnumansali nægilega vel hjá lögreglu og Vinnumálastofnun.