151. löggjafarþing — 108. fundur,  7. júní 2021.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:06]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Það er af mörgu að taka þegar litið er til baka á þessu viðburðaríka kjörtímabili. Ánægjulegt hefur verið að sjá hvernig ríkisstjórn Íslands hefur náð að leysa öll þau óvæntu og gríðarstóru verkefni sem hún hefur fengið, með storminn í fangið. Hún stóðst prófið með prýði og sannaði að með góðri samvinnu ólíkra flokka og einbeittum vilja er hægt að standast áföll og ná árangri.

Ríkisstjórnin hefur lagt fram mörg stefnumarkandi mál sem eiga eftir að skila árangri og koma þjóðinni til góða í framtíðinni. Það er okkar hlutverk sem stöndum hér í dag að skapa góða framtíð. Grunngildi Framsóknarflokksins eru að skapa tækifæri fyrir alla, óháð búsetu, kyni og aldri. Að skapa framtíð þar börnin okkar geta blómstrað. Framsóknarmenn hafa þess vegna barist fyrir fæðingarorlofi og feðraorlofi og haft forystu um að öllum börnum verði gefin tækifæri. Hin nýja kerfisbreyting með snemmtækri íhlutun spratt af mikilli vinnu af hálfu félags- og barnamálaráðherra. Þetta var vinna sem náði yfir kjörtímabilið með það að markmiði að bæta hag allra þeirra barna hér á landi sem þurfa á þjónustu að halda. Þetta eru tímamótabreytingar með hag barna að leiðarljósi, barnanna okkar, framtíðarinnar.

Heilbrigðiskerfið er mikið í umræðunni þessa dagana, enda eðlilegt eftir það sem á undan er gengið. Við sem þjóð getum verið stolt og glöð yfir því hvað við eigum góða heilbrigðisstarfsmenn. Það er ekki sjálfgefið og við þurfum að passa upp á þá. Heilbrigðisstefna til ársins 2030 var samþykkt á yfirstandi kjörtímabili. Hornsteininn að henni var lagður í þingsályktunartillögu Framsóknarmanna sem samþykkt var 2017 hér á Alþingi, en hann er heilbrigðisþjónusta fyrir alla landsmenn og jafnrétti til þjónustu. Svo það takist þarf nýja hugsun og nýja nálgun í heilbrigðisþjónustu, virðingu fyrir eldra fólki og að styðja við sjálfstæða búsetu og sjálfstæði eins lengi hægt er. Þetta ætti að vera leiðarljós inn í framtíðina. Þá þurfum við að vera tilbúin að taka ný skref í heilbrigðiskerfinu. Það er hægt að tryggja góða heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn með blönduðum rekstri ríkis og einkaaðila. Samhliða því þarf að tryggja nýsköpun og fjarheilbrigðisþjónustu. Þannig má halda uppi öflugri heilbrigðisþjónustu um allt land.

Virðulegi forseti. Fjórða iðnbyltingin hefur fengið vængi síðustu mánuði. Hún gefur okkur aukið frelsi til að velja okkur búsetu vítt og breitt um landið. Störf án staðsetningar, samvinnurými og ný atvinnutækifæri eru ekki lengur bundin við fjögurra veggja rými á höfuðborgarsvæðinu. Allt landið er nú undir. Við Framsóknarmenn vitum að samkeppnishæfni samfélaga snýr að tryggu fjarskiptasambandi. Eitt af aðaláherslumálum Framsóknarflokksins hefur verið gott fjarskiptanet um land allt. Flokkurinn hefur staðið fyrir öflugri byggðastefnu allt frá upphafi og íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið sem finna má í byggða-, fjarskipta- og samgönguáætlunum. Forsenda þess að landsbyggðin vaxi og dafni er að til staðar sé öflug byggðastefna ásamt góðum fjarskiptum og góðu vegakerfi. Það er lykilatriði.

Kæru landsmenn. Þegar ég mæti til vinnu við Austurvöll á morgnana nikka ég höfði til Jóns Sigurðssonar, býð góðan daginn, rétt eins og þegar tveir Vestfirðingar hittast hér á götu. Hann er frelsishetjan okkar og þess vegna var honum valinn staður á Austurvelli. En mér hefur fundist sem hann sé líka tákn landans í heimsfaraldrinum. Þarna hefur hann staðið og stendur enn. Sómi landsins, sverð og skjöldur. Hann horfir fram, tekur í jakkaboðungana og haggast ekki. Honum er ekki alltaf sýndur sómi, það er krotað á hann, klifrað upp á hann og hann fær yfir sig ræðurnar. En hann horfir fram og stendur þetta af sér. Og líkt og Íslendingurinn er hann heiðraður einu sinni á ári með blómsveig og fallegum orðum. Þjóðin hefur staðið þessa raun af sér og það sem meira er, hún horfir fram á við, bólusett og bjartsýn.

Virðulegi forseti. Við horfum fram á veg með bjartsýni og dug, það þarf krafta og þor til að halda áfram, byggja á þeim góða grunni sem lagður hefur verið á yfirstandandi kjörtímabili. Framsókn býður sína krafta okkar áfram með samvinnu og jafnrétti að leiðarljósi. — Gleðilegt sumar, kæru landsmenn.