151. löggjafarþing — 108. fundur,  7. júní 2021.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:54]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Góðir landsmenn. Þegar öllu er á botninn hvolft snúast efnahagsmál um hið daglega líf fólks. Efnahagsmálin snúast um lífskjör í landinu og verkefni framtíðarinnar er að Ísland standist samkeppni við umheiminn um lífskjör. Mig langar í því samhengi að nefna Íslandsálagið, vextina á húsnæðislánum sem fólk glímir hér við á fasteignamarkaði. Ástæðan er, eins og við vitum, íslenska krónan.

Verðið á matarkörfunni er heldur ekki náttúrulögmál, en útgjöld heimilanna vegna matvöru eru töluvert hærri hér en í nágrannalöndum. Húsnæði og matvara eru mikið hagsmunamál fyrir heimilin í landinu. Það er almannahagsmunamál sem vel má leysa með því að hleypa að frjálslyndari öflum, sem segja ekki sjálfkrafa nei við öllum breytingum bara vegna þess að breytingar rugga stundum bátnum hjá sérhagsmunaöflunum.

En ein helsta arfleið ríkisstjórnarinnar er í heilbrigðismálunum þar sem stjórnin hefur innleitt 11. boðorðið um að heiðra skuli miðstýringu alla daga. Afleiðingin er Íslandsmet í biðlistum eftir heilbrigðisþjónustu. Yfir 1.000 börn bíða greiningar og þjónustu. Bið sem er allt upp í 36 mánuði. Þrjú ár í lífi barns er drjúgur hluti æskunnar.

Í dag ríkir ástand sem ógnar heilsu kvenna eftir skipulagsbreytingar á skimunum fyrir leghálskrabbameini. Talað hefur verið um aðför að heilsu kvenna en það hefur ekki dugað til að ríkisstjórnin bakki.

Hinir eldri bíða líka. Biðlistarnir lengjast eftir dvöl á hjúkrunarheimilum, liðskiptaaðgerðum og eftir þjónustu sjúkraþjálfara og sálfræðinga. Biðlistar eru sérstaklega langir á landsbyggðinni. Biðlistar eru ekki nýtt vandamál, en sú stefna að lengja þá er ný. Stjórnin er nefnilega markviss í stefnu sem hægir á kerfinu og eykur kostnað, t.d. með því flytja sjúklinga til Svíþjóðar í þrefalt dýrari aðgerðir. Og þessi útgjöld samþykkir hæstv. fjármálaráðherra.

Við erum öll sammála um að aðgengi að heilbrigðisþjónustu á skýlaust að vera jafnt fyrir alla, óháð efnahag og óháð búsetu. Aðgengi og þjónusta ætti að vera 11. boðorðið.

Þegar rætt er um biðlista barna eftir heilbrigðisþjónustu og stuðningi verður að nefna hæstv. barnamálaráðherra sem talar um að kerfin verði að tala saman. En allt sem þarf er að hæstv. barnamálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra tali saman. Að ríkisstjórnin tali saman.

Ég gæti líka rætt um þögn hæstv. barnamálaráðherra þegar senda á lítil börn til Grikklands. Við þurfum dómsmálaráðherra og við þurfum barnamálaráðherra sem standa með börnum á flótta.

Um hagsmuni barna og ungmenna vil ég líka nefna skólakerfið. Við viljum opnara og fjölbreyttara skólakerfi. Og mikið væri nú gott ef menntamálaráðherra verði tíma sínum í það verkefni í stað þess að reka dómsmál við konu sem gerði það eitt að leita réttar síns í kjölfar þess að á honum var brotið. Héraðsdómur hefur staðfest lögbrot ráðherrans, en ráðherra hefur kosið að fara með þetta mál í áfrýjun í þriðju umferð alla leið fyrir Landsrétt. Það sorglega er að þetta mál er ekki aðeins rekið á okkar kostnað, það er rekið í nafni íslenska ríkisins, í nafni okkar allra.

Góðir landsmenn. Ég gat þess í byrjun að þegar öllu er á botninn hvolft þá snúast efnahagsmálin um okkar daglega líf. Lykilspurningar kosningabaráttunnar eru hvernig við viljum sjá Ísland vaxa sem samfélag og um lífskjör fólks. Um hvernig auka á verðmætasköpun og framtíðarsýn fyrir Ísland.

Viðreisn vill samfélag þar sem fólk nýtur jafnra tækifæra, þar sem almannahagsmunir eru ofar sérhagsmunum, frjálslyndi og frelsi eru leiðarstefið og Ísland stendur jafnfætis öðrum fullvalda þjóðum í Evrópu. Þannig vegnar okkur best.