151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[16:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég tek heils hugar undir með henni að ríkið á náttúrlega ekki að ganga á undan með vondu fordæmi. Ég minnist þess að ekki er mjög langt síðan að skúringakonum var sagt upp í Stjórnarráðinu og átti það að leysa mikinn launavanda, kostnaðarvanda ríkissjóðs, sem ég er ekki viss um að hafi gerst. Ég tek því heils hugar undir með hv. þingmanni hvað þetta varðar. Auðvitað á ríkið ekki að setja fyrirtækjum og fólki reglur og fara svo á svig við þær sjálft. Það er náttúrlega fyrir neðan allar hellur. En ég saknaði þess að fá ekki að heyra aðeins af þeirri mismunun sem ég tel vera í þessu frumvarpi og einnig, svo að ég bæti nú aðeins í, að það væri bætt við þetta því sem ég talaði um undir lok ræðu minnar áðan, um einyrkja. Þá er ég sérstaklega að tala um einyrkja sem eru í listrænum störfum; tónlist, ljósmyndun o.s.frv. Það virðist vera að einyrkjar hafi bara allan þennan faraldur átt í megnustu erfiðleikum með að fá sinn hlut réttan. Hvað segir hv. þingmaður um það?