151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[17:14]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var nú að reyna að halda þræði í þessari ræðu. Hv. þm. Smári McCarthy fór um víðan völl. En af því að ég er að reyna að skilja allt sem þarna kom fram, hver hin raunverulega skoðun þingmannsins er og hvað hann var að reyna að segja, vil ég spyrja hann: Mátti skilja ræðuna svo að þingmaðurinn liti þannig á að það ætti að vera frjálst val hvers og eins hvort hann sækti vinnu eða ynni, væri á vinnumarkaði, það væri bara frjálst val, og sá sem myndi ekki velja það ætti þá rétt á framfærslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði? Þetta er lykilspurning. Við erum að tala um sjóð sem við skattgreiðendur greiðum öll í til að tryggja að allir, líka þeir sem missa vinnuna eða eru án vinnu, hafi einhverja framfærslu.

Spurningin er þessi: Lítur þingmaðurinn svo á, af því að ég heyrði ræðu annars þingmanns Pírata tala þannig hér fyrir einhverjum dögum, að það væri jafnvel verðmætasköpun í því að menn fengju bara að vera á bótunum og myndu þá gera eitthvað annað? Er þingmaðurinn sama sinnis? Er hann á því að það eigi bara að vera valkvætt hvort fólk sækir vinnu eða ekki og ef það ákveður að sækja ekki vinnu eða vera ekki á vinnumarkaði ætti það samt rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði?