151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[20:01]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og félögum hans í Miðflokknum fyrir að hafa verið á svipuðum nótum að benda á hvað það er skrýtið að íþróttafélög og æskulýðsfélög sitji ekki við sama borð gagnvart þessum lögum. Þetta er mjög sambærileg starfsemi. Af því að hv. þingmaður nefndi reynslu sína af fyrri störfum innan ýmissa hreyfinga þá langar mig að velta því upp með þingmanninum hvort þetta sé angi af þeirri togstreitu sem skýtur sér stundum upp á milli íþróttahreyfingar, æskulýðshreyfingar og ungmennahreyfingar. Einhvern veginn virðast þessi félög, sem eru öll samstofna, á köflum vera hvert á sínum staðnum þó að í Stjórnarráðinu heyri þau reyndar undir sama ráðuneyti, þau heyra öll undir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Ég veit ekki hvort ástæðan fyrir því að þetta frumvarp tekur ekki með sama hætti á öllum þessum félögum er sú að það er félagsmálaráðherra sem leggur frumvarpið fram, hvort það lýsir einhverju skilningsleysi innan félagsmálaráðuneytis, einfaldlega vegna þess að hóparnir sem um er að ræða heyra ekki undir það ráðuneyti. Í því sambandi er nærtækt að nefna líka námsfólk, stúdentana sem heyra undir menntamálaráðuneytið sem hafa ekki hlotið neina áheyrn í þessum frumvörpum félagsmálaráðherra til þessa.