151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[21:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, maður veltir því fyrir sér hvort við séum að ganga of langt með þessu máli. Ég hallast að því, sérstaklega í ljósi þess sem við höfum verið að ræða hér. Það eru þegar heldur miklar hömlur á möguleikum fólks til að koma sér upp húsnæði. Það var lengi stefna Sjálfstæðisflokksins hér á Íslandi að gefa ætti öllum tækifæri til þess að eignast sitt eigið húsnæði og byggja upp eign. En nú hefur það hlutfall almennings sem á eigið húsnæði verið að minnka og það er kannski ekkert skrýtið þegar kerfið er orðið með þeim hætti að menn borga meira í leigu en þeir þurfa að greiða af lánum til að byggja upp eign. Þegar staðan er sú hver er þá þörfin fyrir inngrip af hálfu ríkisins til að hamla enn möguleikum, sérstaklega þeirra tekjulægri, á að kaupa sér fasteign og byggja upp eign? Ég ítreka bara það sem ég sagði áðan, ég held að við ættum frekar að innleiða hvetjandi lög, hvetjandi í þeim skilningi að allir Íslendingar hafi tækifæri til og möguleika á að byggja upp eign.