151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

raforkulög og stofnun Landsnets hf.

628. mál
[21:48]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir framsögu hans í þessu máli. Þetta er viðamikið mál, eins og fram kom. Ég verð að segja að á stundum fannst mér eins og ég væri þarna að hlusta á framsögu minni hluta á álitinu vegna þess að það næst einhvern veginn ekki utan um alla þá þætti sem eru inni í þessu stóra máli. Þetta er í grunninn mjög gott mál. Það er viðamikið og kemur margt þarna fram sem þarf að taka á vegna þess að raforkumál á Íslandi eru ein af stærstu innviðamálum okkar Íslendinga. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Af hverju þurftum við að ljúka þessu máli núna á vorþingi? Af hverju var ekki hægt að strá yfir það salti og taka það aftur upp og vinna það betur á seinni stigum eða byrja með það fyrr, koma fyrr með það inn? Þá hefðum við getað klárað með það sóma og ég gæti trúað því að við í minni hlutanum hefðum verið algerlega kristaltært með á álitinu.