151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

raforkulög og stofnun Landsnets hf.

628. mál
[21:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við séum einmitt að vinna þetta mál með gríðarlega miklum sóma. Það er búið að leggja gríðarlega mikla vinnu í það. 38 einstaklingar hafa komið fyrir nefndina í tengslum við málið, 18 umsagnir. Við tókum málið fyrir á mörgum nefndarfundum. Það þýðir ekki að fresta alltaf öllu hér. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál: Við erum að tala um nýsköpun í landinu. Við erum að tala um raforkuöryggi í landinu. Það bíða fyrirtæki eftir að við hefjum þetta ferli. Og það sem snýr að beinum tengingum og glatvarma eru nýmæli, klárlega mikil nýmæli, og það er beðið eftir þessu. Við erum að styrkja atvinnulíf og atvinnurekstur í landinu, skapa nýjan iðnað. Við tölum þarna raunverulega inn í loftslagsmálin í stóru samhengi og þetta getur orðið stór hluti af aðkomu okkar Íslendinga að loftslagsmálum. Þarna eigum við gríðarleg tækifæri í að nýta vannýtta auðlindstrauma, sérstaklega í jarðvarmavirkjunum á Íslandi sem hafa verið vannýttir fram að þessu. Það er reyndar bara ótrúlegt að jarðvarmavirkjunum sem verið hafa í notkun á Íslandi mjög lengi margar, áratugum saman, hafi ekki verið sköpuð sú lagaumgjörð á Íslandi að hægt sé að nýta þá auðlindarstrauma sem eru vannýttir, sem geta skapað þessu samfélagi miklar tekjur og klárlega aukið samkeppnishæfni Íslands og íslensks atvinnulífs og aukið enn frekar á fjölbreytni í atvinnulífi þjóðarinnar. Á tímapunkti eins og við erum að upplifa núna — ég tel að á næstu 20–30 árum séu gríðarleg tækifæri og það er það sem við erum að skapa hér með þessari löggjöf; möguleika á að nýta þessa vannýttu auðlindarstrauma, geta skapað samfélaginu og okkur sem hér búum mikil verðmæti og byggt upp atvinnulíf og nýja tegund af atvinnurekstri.