151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

Barnvænt Ísland -- framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

762. mál
[22:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar til að fagna fullgildingu þriðju valfrjálsu bókunarinnar við Barnasáttmálann í lið 6.2. Ég hef einmitt lagt fram þingsályktunartillögu nokkur undanfarin þing sem hæstv. barnamálaráðherra hefur nú tekið undir og lagt fram með þessu frumvarpi. Ég velti fyrir mér af hverju sú þingsályktunartillaga kemst ekki út úr utanríkismálanefnd þar sem hún er heldur fer gegnum aðra nefnd. Þegar verið var að fjalla um þingsályktunartillögu um þriðju valfrjálsu bókunina á síðasta þingi lagðist ráðuneytið gegn bókuninni sem mér fannst mjög áhugavert. Mjög erfiðlega hefur gengið að koma því máli í gegnum þingið. Núna er það komið í mál frá ráðherra sem er bara mjög gott. Það er áhugaverður vinkill á hvernig mál komast í gegn frá sumum en ekki öðrum. Mig langaði til að fræðast hjá hv. þingmanni um það hvort komið hafi til tals að klára þau þingmál sem eru búin að vera hérna þó nokkuð lengi en ekkert gengið með þegar þau koma síðan fram í öðrum málum frá ráðherra.