151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

dagskrá næsta fundar.

[10:41]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Svo það sé á hreinu þá er þessi dagskrártillaga að öllu leyti til þess gerð að reyna að tryggja atvinnuöryggi þeirra 600 smábátasjómanna sem eru í tvísýnu með atvinnu sína í sumar vegna þess að ekki var búið að laga lögin í tæka tíð. Þetta snýst ekki um þinglokasamninga, en mig langar til að það sé alveg skýrt að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, sem er formaður atvinnuveganefndar, hafði allt þetta ár til að leggja fram tillögu um að laga ástandið þannig að þetta færi ekki í hnút núna. Hún leggur það þess í stað fram tveimur dögum eftir að starfsáætlun þingsins er tekin úr sambandi, tveimur mánuðum eftir að síðasta tækifæri gafst til að leggja fram ný mál svo þau komist á dagskrá. Það eru ekki góð vinnubrögð. Þetta er komið í hnút núna.

Píratar eru að leggja þessa tillögu fram núna, og sér í lagi hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, til að reyna að leysa vandamálið vegna þess að við þurfum að gæta að atvinnuöryggi þessara manna. Þetta er einföld tillaga og ég vona að hún verði samþykkt. (Forseti hringir.) En verði hún ekki samþykkt er áhugavert að sjá hverjir greiða atkvæði gegn henni.