151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[12:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður talar um fjárhagslega yfirburði en ég held að það sé meira að segja meira en það. Lánastofnanir á Íslandi eru einfaldlega of góðu vanar. Þær geta alltaf haft belti og axlabönd og í rauninni sleppt því að taka áhættu sjálfar. Þær deila áhættunni ekki með lántaka heldur varpa henni allri á hann. Það er engin samvinna í því og ég held að það búi til þetta stöðuga vaxtakerfi, ofurvaxtakerfi, af því að það er einfaldlega hagur lánveitandans að vextir séu háir, að þeir hækki og hægt sé að mylja peninga úr lánunum. Maður veltir því fyrir sér hvort við þurfum meiri aga og neytendavernd í lánamál, svo að maður fari ekki út í smálánin, þau eru síðan kapítuli út af fyrir sig. Við glímum við stórkostleg vandamál í lánaumhverfi á Íslandi. Það hefur verið reynt að vinna eitthvað í því undanfarið með því að fara í lægri vaxtastefnu, sem er bara alþjóðleg þróun og kannski ekkert gríðarlega mikið hægt að hrósa okkur fyrir að fylgja þar á eftir, en hún er nauðsynlegt skref til þess að við komumst alla vega í agaðra umhverfi neytendaverndar í lánum.