151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

póstþjónusta og Byggðastofnun.

534. mál
[15:44]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um póstþjónustu og lögum um Byggðastofnun sem gengur í stuttu máli út á að verkefni póstmála verði flutt frá Póst- og fjarskiptastofnun yfir til Byggðastofnunar, bara sisvona í heilu lagi. Hér á þinginu er enn til umræðu frumvarp til laga um Fjarskiptastofu sem á að taka á þeim hluta stofnunarinnar sem eftir stendur þegar póstmálin hafa flust yfir í Byggðastofnun. Það er frumvarpið í stóra samhenginu á venjulegu mannamáli. Jafnframt eru gerðar nokkrar lagfæringar á ákvæðunum og þau treyst.

Nefndin var einhuga um þessar breytingar þrátt fyrir að einhverjir umsagnaraðilar og gestir sem komu til nefndarinnar hafi haft efasemdir um þennan flutning. Aðallega held ég að það hafi komið fram í því að menn hefðu áhyggjur af því að reynslan og sérþekkingin sem byggst hefur upp í kringum þennan málaflokk innan núverandi stofnunar skili sér ekki yfir við flutninginn. Það er auðvitað mjög mikilvægt, herra forseti, að svo verði ekki. Við þurfum að nýta reynsluna sem fyrir er og passa upp á að sérþekkingin verði áfram til staðar í þessum málaflokki. Það er útfærslu- og framkvæmdaratriði sem heyrir undir viðkomandi ráðherra. Hlutverk Byggðastofnunar verður það sama og hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar áður að þessu leytinu til.

Ég vil einnig árétta það, herra forseti, að fjármagn fylgi þessu, ekki bara mannauðurinn heldur einnig fjármagn til að Byggðastofnun geti sinnt þessum málaflokki. Verkefni Byggðastofnunar á þessu sviði eru í grunninn tvö í stóra samhenginu, þ.e. eftirlit með málaflokknum og eftirlit með að framkvæmd þessara mála sé með þeim hætti sem lögin fyrirskipa, og síðan auðvitað að póstþjónusta um allt land verði tryggð. Þá erum við kannski komin að því sem er erfiði hlutinn í þessu máli vegna þess að sitt sýnist nú hverjum. Þar lendum við á ýmsum hornum; við þurfum að tryggja samkeppni og tryggja að allir íbúar landsins fái þjónustuna. Þar er verið að tala um pakka og um bréf, tala um daga, hvenær eigi að afhenda, hversu oft í viku, tala um afhendingartíma, hvað megi líða langur tími o.s.frv.

Þarna er úr vöndu að ráða og nefndin tók það til bragðs, líka vegna fenginnar reynslu, að skipa starfshóp til að fara yfir þetta heildstætt. Það var vel gert og vonandi mun starfshópurinn sinna þessum verkefnum. Honum var falið það verkefni að greina tækifæri til að lækka kostnað ríkissjóðs af póstþjónustu. Þetta er auðvitað erfitt verkefni en kannski hjálpa tæknibreytingar okkur. Breytingar í samfélaginu hjálpa okkur kannski við þetta líka vegna þess að eins og menn vita þá hefur t.d. bréfasendingum fækkað gífurlega ört á örfáum árum. Það er ekki svipur hjá sjón frá því sem var fyrir fimm árum eða tíu þannig að það er kannski ekki þörf á að dreifa bréfum eins mikið og áður. Í staðinn hafa orðið aðrar breytingar. Nú vilja menn panta sér tæki og tól og fatnað og ýmis leikföng utan úr heimi og fá send heim að dyrum. Það er breytingin. Þarna kemur ný þörf fyrir þjónustu og þá er spurning hvort allir landsmenn sitji við sama borð. Það er kannski ekki hægt að segja það, en ég legg mikla áherslu á það, herra forseti, að við tryggjum öllum landsmönnum, sama hvar þeir búa, svipaða þjónustu að þessu leytinu til, þ.e. að til þeirra verði dreift sendingum, hvort sem það eru bréf eða pakkar eða annað, á skikkanlegu verði og það taki ekki mjög langan tíma, þ.e. að menn fái sendingarnar ekki of seint. Þar stendur hnífurinn í kúnni.

Svo koma samkeppnissjónarmiðin. Þar sem eitthvað er upp úr þessu að hafa vilja menn keppa um það og reyna að þjónusta fólk og telja sig jafnvel geta gert það betur en ríkið. Þar er auðvitað við EES-reglur að etja, ríkið er auðvitað bundið þeim reglum að suma hluti má ekki styrkja nema upp að vissu marki samkvæmt reglunum. Við erum bundin þar. Það er þröngur vegur að feta að fara samkeppnisleiðina, veita samkeppni, gefa mönnum tækifæri til að etja kappi um hlutina, þjónusta fólkið, fara eftir reglum EES og að ríkið styrki þar sem styrkja má, ekki bara það sem þarf að styrkja heldur líka það sem styrkja má, eftir reglum EES. Ég er að draga það fram að þetta er ekki einfalt mál. Þó að við séum að breyta yfirbragðinu þá hefur þessi starfshópur það hlutverk að fara yfir þetta í stóra samhenginu og útfæra tillögu til að tryggja að allir landsmenn fái notið þjónustunnar, sem er mest um vert, tryggja heilbrigða samkeppni, greina og bregðast við mögulegri skörun milli laga um póstþjónustu og laga um farþegaflutninga og farmflutninga. Þetta er stórt mál.

Þarna er talað um að kannski megi skoða þann möguleika að samnýta ferðir og verið að tala um ferðir verktaka í póstþjónustu og annarri akstursþjónustu. Auðvitað eru margir á ferð um dreifðar byggðir í ýmiss konar tilgangi. Það eru skólaakstur, mjólkurflutningar og alls kyns flutningar sem eiga sér stað um landið. Auðvitað er sjálfsagt að skoða hvort þetta gæti að einhverju leyti farið saman og sparað þannig kostnað ríkisins þegar ríkið er að niðurgreiða ýmiss konar þjónustu, eins og t.d. póstþjónustu. Þetta þarf að kostnaðarmeta. Hvað mun þetta kosta þegar öllum þessum sjónarmiðum er mætt, þ.e. að landsmenn fái notið sömu þjónustu um allt land? Hvað kostar það? Þann kostnað þarf að greina og koma svo með tillögur um hvernig við förum að þessu og hvaða leiðir við veljum.

Ég ætlaði að tala um örlítið meira. Ég ætlaði að tala um að það var mér mikið áfall þegar frímerkjaútgáfu Póstsins var hætt fyrir réttu ári. Ég hef safnað frímerkjum frá því ég var mjög ungur. Ég held að kunnátta mín á ýmsum hlutum hafi fyrst orðið til við það að skoða frímerki. Auðvitað er þetta einhvers konar fortíðarþrá, þetta er ekki svona í dag. Fólk flettir því bara upp á netinu ef það vill vita eitthvað. Það eru samt góðar minningar að hafa lært að þekkja fjöll, þótt ég hafi aldrei komið á staðinn, af því að skoða myndir af frímerkjum, sem voru svo falleg. Ég mun auðvitað sakna þess. Þetta er kannski liðinn tími, ég veit það ekki. En ég hefði haldið, herra forseti, að það væri hægt að halda frímerkjaútgáfu áfram úti vegna þess að ég held að enn séu til margir kaupendur að fallegum íslenskum frímerkjum sem sýna menningu, landslag og sögu landsins. Útgáfan á þeim getur varla verið svo dýr að það geti ekki svarað kostnaði að gefa út örfá merki á ári. Ég sakna þessa, en kannski er þetta liðin tíð og ég beygi mig þá undir það eins og aðrir. Það er eftirsjá að þessu en kannski er þetta bara tímanna tákn og ekkert við því að segja. En ég vildi nú minnast á þetta líka í þessari ræðu af því að ég á góðar minningar af þessari söfnun sem krakki.