151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

slysatryggingar almannatrygginga.

424. mál
[17:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og fagna því að þar komi fram af hálfu þingmannsins að þeir sjúkdómar þar sem viðurkenndar rannsóknir hafa farið fram og þær birtar í viðurkenndum tímaritum verði settir á þennan lista sem verður síðan settur fram í reglugerð. Þá nefni ég sérstaklega slökkviliðsmenn vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að starfsumhverfi þeirra sé mjög sérstakt miðað við margar aðrar starfsstéttir þegar kemur að atvinnusjúkdómum. Sýnt hefur verið fram á það að þeir eiga í raun og veru aldrei fullkominn möguleika á því að verja sig gagnvart krabbameinsvaldandi efnum sem eru í reyk sem myndast við bruna.

Ég hef þá skoðun að það sé ekkert óeðlilegt við það að löggjafinn mæli til um það að ákveðin starfsstétt, sem slökkviliðsmenn eru, sem er vissulega, myndi ég segja, mjög útsett miðað við aðrar starfsstéttir fyrir alvarlegum sjúkdómum og búið að sýna fram á það í rannsóknum og annað slíkt, verði sett undir þennan hatt sem atvinnusjúkdómar eru og á að tilgreina í reglugerð. Það er mín persónulega skoðun og ég mun fara nánar yfir það í ræðu á eftir og mæla fyrir breytingartillögu þess efnis.