151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

slysatryggingar almannatrygginga.

424. mál
[17:49]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum hér að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum um slysatryggingar almannatrygginga, atvinnusjúkdóma og miskabætur. Þetta er hið besta mál. Það er alltaf gott þegar verið er að endurskoða lög og samræma á allan hátt og ég hef kannski ekki mikið út á það að setja. En það sem var að ergja mig í þessu máli í upphafi þegar það kom til 1. umr. og það sem hefur stungið mig mest í þessum málum eru þessar furðulegu upphæðir sem eru settar inn í svona mál. Að vísu er núna búið að vísa í skaðabótalögin en 13. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga verður orðrétt, með leyfi forseta:

„Ef slys veldur dauða innan tveggja ára frá slysdegi skal greiða eftirlifandi maka eða sambúðarmaka þess látna dánarbætur að fjárhæð 4.900.000 kr.

Nú lætur hinn látni ekki eftir sig maka eða sambúðarmaka sem á rétt á bótum skv. 1. mgr. og skal þá bæta slysið með 896.827 kr. sem skiptast að jöfnu milli barna og/eða fósturbarna hins látna ef á lífi eru, en ella til dánarbús hans. Frá dánarbótum sem greiddar eru vandamönnum ber að draga þær miskabætur sem greiddar hafa verið í einu lagi skv. 12. gr. vegna sama slyss.“

Mér finnst þessi tala, 896.827 kr., alveg stórmerkileg. Ég spyr mig hvernig í ósköpunum hún hafi verið fundin út. Þetta er alveg með ólíkindum, þetta er undir milljón. Einhvern veginn hefur þessi útreikningur fengist og ég skil ekki hvernig. Ég hefði getað skilið, miðað við málsliðinn á undan þar sem stendur 4,9 milljónir, að þarna hefði staðið 1.000.000 eða 900.000 en ég get ekki skilið hvernig það getur staðið 896.827 kr. Það er auðvitað ótrúleg nákvæmni í mjög lágri upphæð.

Hvað segir þetta okkur? Það segir okkur að við þurfum að endurskoða þessar tölur og okkur ber eiginlega skylda til þess. Ef við setjum þetta bara í samhengi við meðallaun í landinu eru dánarbætur rétt rúmlega helmingurinn af þeim og þessar 896.827 kr. eru rétt yfir 10% af þeirri upphæð. Af því að vísað er í skaðabótalögin megum við ekki gleyma því að hámarksmiskabætur samkvæmt þeim eru 4 milljónir, það er að vísu uppreiknað að hluta til, og við 70 ára aldur er lágmarkið komið niður í 3 milljónir. Þetta eru mjög lágar tölur. Það varðar ekki þetta mál en þó samt að því leyti að það að lenda í slysum eða veikindum er eiginlega ávísun á fátækt. Þetta eru svo lágar bætur og það er ekki hægt að vísa í að maður lendi kannski á örorku og fái örorkubætur. Það langar engan að lenda á örorkubótum. Það getur ekki nokkur maður látið sig dreyma um að vera þar í einhverjum lúxus. Það að fólk sé í þeirri aðstöðu að fá litlar sem engan bætur og fari svo kannski líka á varanlegar örorkubætur ef það getur ekki unnið segir okkur að við eigum að endurskoða þetta allt þannig að það geti ekki valdið enn þá meira andlegu og líkamlegu álagi þegar maður hefur eiginlega lent í tvöföldu álagi, fyrst í slysi eða veikindum og síðan í fjárhagsáhyggjum vegna þeirrar stöðu sem maður lendir í eftir að uppgjörið hefur farið fram og maður áttar sig á því að þetta leiddi mann í þær ógöngur að maður á ekki möguleika á að sjá sér eða fjölskyldu sinni farborða.

Í framhaldi af þessu vona ég að þetta frumvarp bæti hlutina. Þarna er verið að sameina ákveðna flokka til að reyna að skerpa á og taka út gamla kerfið sem var hjá Sjúkratryggingum Íslands og var ekki gott. Vonandi er þetta betra. Ég veit að það stendur hér að á tveggja ára fresti eigi að endurskoða þetta allt og ég ætla að vona að fyrir þann tíma verði búið að endurskoða allt. Dómsmálaráðherra var eiginlega búin að segja að hún myndi fara í að endurskoða skaðabótalögin sem er löngu tímabært en því miður komst hún ekki í það. Þau hafa eiginlega ekkert verið uppfærð síðan 1993, þau voru aðeins uppfærð 1997. Það er löngu tímabært að taka þetta allt til gagngerrar endurskoðunar og gera það þannig að sómi sé að því. Það eru mannréttindi að lendi maður í veikindum eða slysum sé það ekki ávísun á að heilsan sé farin og fjárhagurinn og möguleikar til mannsæmandi lífs einnig farnir. Þá er betur heima setið en af stað farið. Allt er auðvitað betra í þessu en það verður samt að duga. Við verðum líka að átta okkur á því að þessir einstaklingar geta líka verið með börn á sínu framfæri og það er þá margfalt álag ef við gerum ekki vel. Ég vona hreinlega að eftir að þetta frumvarp verður samþykkt verði það einhvern tímann fljótlega á dagskrá að endurskoða skaðabótalögin.