151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[10:30]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir framsögu í þessu máli. Ég ætla aðeins að spyrja um orðalag í stjórnarsáttmála. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir:

„Stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar …“ — Svo eru þeir nefndir sem eiga að vera í því samráði. — „… og annarra hagsmunaaðila.“

Stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu. Var einhver fyrirvari gerður við það af hálfu samstarfsflokka Vinstri grænna á þessum tíma? Hverjir voru þeir fyrirvarar og hvar voru þeir skrásettir? Þá er ekki að finna í stjórnarsáttmála, ég hef ekki séð þá. Síðar kemur í ljós að menn hafa alls kyns fyrirvara, þingmenn samstarfsflokkanna voru óþreytandi við að telja upp fyrirvara sem þeir höfðu við málið á síðari stigum. Eftir áramót hafa menn sérstaklega verið að nefna alls kyns fyrirvara, koma þeim á framfæri.

Ég ætla því að spyrja hv. þingmann: Voru engir fyrirvarar settir í upphafi? Eru þetta allt síðar til komnir fyrirvarar og hvers virði er þá þetta ákvæði í stjórnarsáttmála sem segir að ríkisstjórnin ætli að stofna þjóðgarð á miðhálendinu? Hvernig var þessum vinnubrögðum háttað hjá ríkisstjórninni á sínum tíma? Tökum orðalag úr bankamáli: Litu Vinstri græn svo á að þarna hefðu þau undirritaðan og óútfylltan tékka frá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki? Litu þau svo á að þau hefðu hann í höndunum, að það væri í þeirra höndum að útfæra umgjörð þjóðgarðsins?