151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

kosningalög.

339. mál
[15:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég styð að sjálfsögðu þessar greinar en af því að þær eiga hér undir sem breytingartillögur voru fluttar við áðan tel ég rétt að fram komi, og taldi reyndar að hv. alþingismönnum ætti að vera kunnugt um, hvað varðar það metnaðarfulla starf sem Alþingi hafði forystu um að hrinda af stað 2018, heildarendurskoðun á öllum kosningalagaákvæðum í landinu, að það stóð aldrei til að það yrði annað en lagalega og kosningatæknilega afmarkað. Þar var aldrei undir … (LE: Réttlæti.) — Vill hv. formaður Samfylkingarinnar draga þessi ummæli til baka eða a.m.k. gefa mér hljóð á meðan ég tala. Það stóð aldrei til að taka pólitískt umdeild mál, eins og kjördæmaskipan í landinu, ákvæði stjórnarskrár eða laga um þá hluti, inn í þá vinnu, enda var hún faglega undirbyggð með þátttöku þeirra sem hlut eiga að máli, landskjörstjórn, sveitarfélögunum, Alþingi og fleirum. Ég óska stjórnmálaflokkunum í landinu góðs gengis í því að taka það fyrir að endurskoða kosningalög, kjördæmaskipan og stjórnarskrá. (Forseti hringir.) En miðað við það hvernig ýmislegt hefur gengið í þeim efnum kann nú eitthvað vatn að renna til sjávar áður en því starfi lýkur.