152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

um fundarstjórn.

[10:48]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Lögin eru mjög skýr: Svona á ekki að gera hlutina. Það er fyrst eftir að nefnd hefur fengið mál til umfjöllunar sem þessi ákvörðun er tekin. Og nefnd fær mál til umfjöllunar þegar það hefur verið rætt hér á þingi. Gárungarnir segja að nú leiti spunameistarar logandi ljósi að heiti á þessa nýju ríkisstjórn. Ég er ekkert viss um að þeir séu hrifnir af því heiti sem virðist vera að festast, og það er ríkisstjórn hinna ýmsu annmarka á framkvæmd á lögum. En hér hefur hv. formaður fjárlaganefndar komið upp, lýst yfir vanþekkingu sinni á meðferð mála, sem mér þykir reyndar býsna sérkennilegt í ljósi starfsaldurs. En gott og vel, sú afsökunarbeiðni er tekin til greina, samþykkt, sannarlega, að sjálfsögðu. En vonandi verður hér lát á því sem ekki er hægt að lýsa öðruvísi en sem valdníðslu af hálfu hinnar nýju ríkisstjórnar, sem seint verður sagt að fari vel af stað.