152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

um fundarstjórn.

[10:58]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég hef náttúrlega ekki verið lengi á þingi eins og menn vita, en ég veit þó það mikið að það gilda mjög stífar formreglur og lagareglur um það hvernig hlutum á að vera háttað. Ég tók eftir því að hv. formaður fjárlaganefndar vísaði í hefð. Ég hefði haldið, í ljósi umræðunnar síðustu vikur og mánuði, að það að vera alltaf með hefð í huga, frekar en form, lög og reglur, væri ekki gott veganesti inn í það sem við erum að reyna að áorka í þinginu. Við sáum þetta gerast í Norðvesturkjördæmi, þá er vísað í hefðir frekar en form og mikilvægar lagareglur og það leiddi okkur öll í miklar ógöngur og ég hefði haldið að hér á Alþingi ættu menn að vera svolítið meðvitaðir um það.

Hins vegar vil ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir að koma hingað upp og vera einlæg í því að hún gerði mistök og vona að þau orð séu fyrirheit um að það verði betri bragur á þessu í framtíðinni. (Forseti hringir.) En vöndum okkur, form skiptir máli, reglur og lög skipta máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)