152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[19:31]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég aðhyllist allt aðra pólitík en þessi stjórnarmeirihluti. Ég ætlast ekki til þess að stefna Samfylkingarinnar ráði för þegar núverandi ríkisstjórn smíðar fjárlög. Hins vegar hlýtur maður að gera þá kröfu að áætlun ríkisstjórnar um skatta og gjöld næsta árs, tekjur og gjöld næsta árs, endurspegli með einhverjum hætti niðurstöður kosninga, kosningaáherslur og stjórnarsáttmála þeirra flokka sem ákváðu að mynda ríkisstjórn. Plaggið hérna er ekki svoleiðis plagg. Það er óravegu frá því að rísa undir þeirri orðræðu sem við heyrðum um síðustu helgi, öllu talinu um græna byltingu, nýsköpun og áskoranir 21. aldar. Hér er engin alvörusókn á þessum málefnasviðum, í þeim málaflokkum sem öll okkar framtíð veltur á. Tölum um umhverfis- og loftslagsmál sem átti að vera stærsta áherslumál stjórnarinnar. Það er alla vega loksins verið að setja alvöruloftslagsmarkmið, markmið um 55% samdrátt í losun. Ísland hefur þá níu ár, níu fjárlög, til að ná þessu markmiði. Hvernig endurspeglast markmiðið í þessum fjárlögum? Aukningin til loftslagsmála, miðað við þá fjármálaáætlun sem ríkisstjórnin lagði fram fyrr á árinu, er nær engin, sýnist mér. Samkvæmt þeim útgjaldarömmum sem unnið er eftir þá eiga framlög til loftslagsmála að dragast hratt saman næstu árin. Útgjöld vegna aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum eru reyndar hvergi aðgreind sérstaklega í greinargerð þessa frumvarps sem er eitthvað sem mér finnst að þurfi að bæta úr í fjárlagavinnunni á næstu árum. En það er eðlilegt að við, löggjafinn, við sem förum með fjárveitingavaldið, höfum mjög nákvæma yfirsýn yfir þetta allt saman.

Framlög til umhverfismála almennt dragast saman í þessum fjárlögum miðað við það sem gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun. Þau aukast vissulega um 350 millj. kr. frá fjárlögum þessa árs sem nú er að ljúka, sem er nú bara tittlingaskítur í stóra samhenginu, 0,01% af vergri landsframleiðslu. Eins og bent hefur verið á verður meiri fjármunum varið til nautgripaframleiðslu og sauðfjárræktar á næsta ári heldur en til loftslagsmála og grænnar uppbyggingar. Þetta er engin græn bylting, svo ég vitni í orðalag sem hæstv. umhverfis- og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, notaði í viðtali við Fréttablaðið á dögunum. Þetta er svo langt frá því að vera einhver græn bylting. Og eftir COP og allar vendingarnar á alþjóðavettvangi þá hlýtur maður að spyrja sig: Ef rík þjóð eins og Íslendingar sem losa mjög mikið miðað við höfðatölu, ef rík þjóð eins og við treystir sér ekki til að taka alvöruskref í loftslagsmálum, hvers vegna ættu þá fátækustu þjóðir heimsins að gera það? Þetta eru alveg ofboðslega vond skilaboð sem við erum að senda með svona stefnu.

Nú hef ég verið að tala aðeins um útgjöldin en við sjáum heldur enga græna byltingu á tekjuhliðinni þegar kemur að grænum sköttum og gjöldum. Þar er bara sama lognmollan og ekkert sem bendir til þess að ríkisstjórnin sé með einhverja skýra áætlun um það hvernig sé hægt að beita kerfunum okkar til að hraða orkuskiptum. Við höfum níu ár til að ná 55% markmiðinu og þessi ríkisstjórn hefur fern fjárlög til að gera sitt, vonandi færri ef þessi fjárlög eru vísbending um það sem koma skal.

Tölum um menntamálin. Það er ekki nóg með að núverandi ríkisstjórn hafi ákveðið að tæta í sundur menntamálin við skiptingu ráðuneyta, dreifa þeim einhvern veginn út um hvippinn og hvappinn án þess að það liggi fyrir nein skiljanleg eða skynsamleg lógík á bak við það. Núna ætla þau líka að draga úr framlögum til menntamála í stað þess að sækja fram. Heildarútgjöld til framhaldsskólastigsins dragast saman um 2,2 milljarða á milli ára og boðuð er „umtalsverð lækkun á rekstrarframlögum og fjárfestingarframlögum til háskóla- og rannsóknastarfsemi milli ára“. Þetta stendur orðrétt í greinargerð fjárlagafrumvarpsins. Hvað með verkefni ríkisins sem varða leikskóla- og grunnskólastigið? Þessi framlög lækka líka. Framlög til framhaldsfræðslu og símenntunar, sem er ofboðslega mikilvæg á þessum tímum örra breytinga á vinnumarkaði, lækka líka. Hvar er eiginlega sóknarhugurinn hér? Hvers konar framtíðarsýn er þetta eiginlega? Náskyld menntamálunum eru auðvitað listir, menning, íþrótta- og æskulýðsmál og ríkisstjórnin ætlar líka að draga úr framlögum ríkisins til þessara málefnasviða, um 656 milljónir milli ára. Framlög til nýsköpunar og rannsókna aukast svolítið á næsta ári en svo er bara gert ráð fyrir að þau dragist hressilega saman á næstu árum.

Munið þið eftir frístundastyrkjunum til barna sem Framsóknarflokkurinn talaði um í kosningabaráttunni? Þeir eru hvergi í þessu frumvarpi, ekki einu sinni útfærðir eða nefndir sérstaklega í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar. Hvað með t.d. hækkun fæðingarstyrks fyrir námsmenn? Það er eitthvað sem meira að segja Sjálfstæðismenn voru sammála okkur í Samfylkingunni um að þyrfti að gera. Ekkert svoleiðis í þessum fjárlögum, ekki frekar en t.d. aðgerðir til að verja afkomuöryggi námsmanna, hækka t.d. grunnframfærsluna hjá Menntasjóði námsmanna eða hækka frítekjumark fólks í námi. Það vantar allt saman. Það er svo sem bara í fullkomnu samræmi við þá staðreynd að orðið námsmenn eða kjör námsmanna koma hvergi fram í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar.

Alþýðusamband Íslands hefur lýst því yfir að stuðningur stjórnvalda við húsnæðisöryggi og tilfærslukerfin muni ráða úrslitum í kröfum verkalýðshreyfingarinnar í aðdraganda kjarasamninga 2022 og 2023. Þetta skiptir máli. En þegar kemur að félagslegri húsnæðisuppbyggingu sjáum við algera stöðnun í þessu fjárlagafrumvarpi. Stofnframlög til almenna íbúðakerfisins standa í stað þegar við ættum einmitt að vera að gefa í, stórauka framboð af hagkvæmu íbúðarhúsnæði og verja þannig húsnæðisöryggið, tempra íbúðamarkaðinn og í leiðinni að halda aftur af verðbólgunni sem bitnar alltaf verst á lífskjörum þeirra sem lakast standa fyrir. Og barnabætur — engin innspýting heldur.

Nú er ég búinn að tala um og kalla eftir aðgerðum sem kosta peninga, kosta heilmikla peninga. Og það er alveg rétt, sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og fleiri hafa staglast á, að nú þegar framleiðsluslakinn er smám saman að hverfa, nú þegar ríkisstjórnin virðist vera að missa tökin á verðbólgunni þurfum við að vera á varðbergi gagnvart áhrifum opinberra fjármála á verðlag og vaxtastig. Það er mjög mikilvægt. En höfum það alveg á hreinu, virðulegi forseti, að við hér inni, við löggjafinn, við fjárveitingavaldið, höfum svigrúm til þess að auka útgjöld án þess að auka skuldasöfnun og án þess að ýta undir verðbólgu og raska efnahagslegum stöðugleika. Við gerum það með því að afla tekna um leið og við aukum útgjöldin. En til þess þarf pólitískar ákvarðanir, pólitískar ákvarðanir um einhverja pólitíska forgangsröðun, nokkuð sem sitjandi ríkisstjórn, sem er mynduð á svo ægilega breiðum og þverpólitískum og merkilegum grunni, forðast eins og heitan eld.

Grípum aðeins niður í greinargerð fjárlagafrumvarpsins á bls. 103, með leyfi forseta:

„Við undirbúning frumvarpsins hefur hins vegar verið gengið út frá því meginviðmiði að ekki verði efnt til annarra teljandi nýrra eða aukinna útgjalda en þeirra sem tengjast aðstæðum af völdum kórónuveirufaraldursins. Ekki er heldur um að ræða miklar hreyfingar á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins í tengslum við áform um breytingar á skattkerfinu, fyrir utan tímabundnar ráðstafanir vegna faraldursins sem ganga til baka, enda hefur verið ráðist í fjölmargar umbætur á því á síðustu árum.“

Segir þetta ekki allt sem segja þarf? Ríkisstjórnin hefur það sem meginviðmið að efna ekki til nýrra útgjalda og afla nýrra tekna nema kannski með því að selja banka. Á það að vera meginviðmið fjárlaga, algerlega burtséð frá stöðu hagkerfisins og algerlega óháð þeim risavöxnu sameiginlegu verkefnum og áskorunum sem við stöndum frammi fyrir? Hvílík ríkisfjármálastefna, hvílík pólitík sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð og Framsóknarflokkurinn standa hérna fyrir, flokkar sem gáfu sig út fyrir það í kosningabaráttunni að vilja fjárfesta í fólki, auka jöfnuð, bjarga börnunum o.s.frv. Og annar þeirra með „vinstri“ í nafninu sínu, jafn mikill vinstri flokkur og Miðflokkurinn er miðjuflokkur. En jú, það er kyrrstaðan sem þau vilja verja.

Hvernig er tekju- og eignaskiptingin á Íslandi sem þessir flokkar vilja alls ekki hrófla við? Förum yfir nokkrar staðreyndir. 30% af nýjum auð sem varð til í fyrra runnu til ríkasta 1% á Íslandi, alls 37,3 milljarðar kr. Þetta ríkasta 1% Íslendinga á 902 milljarða í eigin fé. Þar af eiga 240 heimili, ríkasta 0,1% á Íslandi, 293 milljarða, 293.000 millj. kr. deilast niður á 240 heimili. Og reyndar eru þessar eignir miklu meiri að umfangi en ég er að vísa hérna í skattframtalsgögn ríkisskattstjóra þar sem hlutabréf eru talin á nafnvirði, fasteignir á fasteignamatsverði. En þetta gefur okkur einhverja mynd af stöðu þeirra allra fjársterkustu sem sumir hverjir eiga svo auðvitað miklu meira til viðbótar á einhverjum aflandseyjum.

Við getum ekki talað um eignastéttina á Íslandi án þess að minnast á fiskinn í sjónum. Margt af þessu fólki hefur náttúrlega auðgast á fénýtingu auðlinda sem við eigum öll saman, auðlinda sem við hér á Alþingi ráðum hvernig er ráðstafað, hvernig nýtingarréttinum er ráðstafað. Í fyrra náðu arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja sögulegu hámarki. Eigendur útgerðarfyrirtækja fengu meira en 21 milljarð í arð, 888 millj. kr. til eins manns, stærsta eiganda Brims. 715 milljónir til stærsta eiganda Ísfélagsins í Vestmannaeyjum. Þannig er heimilisbókhaldið á þeim bæjum. En hinum megin á kúrfunni er fólkið sem á ekki neitt, fólkið sem lifir á sultarlaunum, þær þúsundir manna sem búa í óleyfishúsnæði vegna fátæktar og ófremdarástands á húsnæðismarkaði, óvinnufært fólk, öryrkjar sem þurfa að draga fram lífið á langt undir 300.000 kr. á mánuði. Þetta er fólkið sem hefur setið eftir ár eftir ár, kjörtímabil eftir kjörtímabil, fjárlög eftir fjárlög. Það eru sem sagt tvö samfélög á Íslandi, tveir heimar og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur virðist ekki ætla að lyfta litla fingri til að draga úr þessum ójöfnuði.

Í fjárlagafrumvarpinu birtist heldur engin viðleitni til að auka hlutdeild íslensks almennings í arðinum af fiskveiðiauðlindinni. Hér skulum við hafa í huga nokkrar staðreyndir. Í fyrra fengu eigendur útgerðarfyrirtækja fjórum sinnum meiri arð af nýtingu sjávarauðlindarinnar heldur en skilaði sér til almennings í formi veiðigjalda. Ég ætla að segja það aftur af því það skiptir máli: Arðgreiðslur úr sjávarútvegi í fyrra voru fjórum sinnum meiri heldur en veiðigjaldið. Og hvernig verður þróunin á veiðigjöldum milli fjárlaga, núna þegar birtir til og það er loðnuvertíð fram undan? Jú, veiðigjöld dragast saman milli ára, þau verða lægri á næsta ári en þau voru í ár. Af stjórnarsáttmála og þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar má ráða að engin sérstök áform séu uppi um að hækka veiðigjöld eða þrepaskipta þeim einhvern veginn, hvað þá fara í útboð á aflaheimildum. Ekkert slíkt stendur til, ekkert. Ofurarðurinn í sjávarútvegi á áfram að renna til hinna fáu og fjársterku en ekki til hins raunverulega eiganda sem er þjóðin. Og nú mun það gerast á vakt Vinstri grænna í sjávarútvegsráðuneytinu.

Virðulegi forseti. Við þurfum að tala um almannatryggingar. Ég var sammála mörgu af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar hér áðan. Þetta fjárlagafrumvarp er ávísun á áframhaldandi kjaragliðnun milli launa og lífeyris og þá sérstaklega milli grunnbóta og lægstu launa. Þetta er fjárlagafrumvarp þar sem enn einu sinni er tekin pólitísk ákvörðun um að láta fólk sem reiðir sig á lífeyri sitja eftir, bíða eftir réttlæti. Ríkisstjórnin ætlar að tvöfalda frítekjumark atvinnutekna hjá eldra fólki. Gott og vel. Það kostar ríkissjóð ekki mikið í stóra samhenginu enda snertir þessi aðgerð ekki nema brotabrot af eldra fólki. Samkvæmt mælaborði Tryggingastofnunar eru aðeins 4.000 sem taka ellilífeyri sem hafa yfir höfuð einhverjar atvinnutekjur. 60% þeirra eru með tekjur undir núverandi frítekjumarki og hafa þannig ekkert gagn af þessari hækkun. Það eru ekki nema 1.500 manns eða svo sem hafa gagn af hækkuninni og það er ekki sá hópur eldra fólks sem hefur það verst, alls ekki. En það sem kannski æpir á mann er ósamræmið sem birtist í því að nú er frítekjumarkið vegna atvinnutekna orðið átta sinnum hærra en frítekjumarkið vegna lífeyristekna. Almenna frítekjumarkið stendur enn þá pikkfast í 25.000 kr. á mánuði og það þótt lífeyristekjur séu auðvitað ekkert annað en atvinnutekjur fólks sem hefur greitt samviskusamlega í lífeyrissjóð af sínum launum. Hver eru eiginlega rökin fyrir þessu misræmi? Ég veit það ekki. En á hverjum bitnar þetta misræmi mest? Það er alveg ljóst. Þetta misræmi bitnar á fólki sem hefur unnið erfiðisvinnu allt sitt líf og getur ekki haldið áfram að vinna á gamals aldri. Þetta bitnar á sjómanninum, sjúkraliðanum, smiðnum, kennaranum, fólkinu sem vinnur slítandi störf alla ævi og verður að setjast í helgan stein heilsu sinnar vegna. Þetta fólk þarf að sætta sig við frítekjumark lífeyristekna upp á 25.000 kr. á mánuði og svo byrja bara skerðingarnar strax að bíta. Hér er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að fara í þveröfuga átt við þróunina á hinum Norðurlöndunum, t.d. í Danmörku þar sem ríkisstjórn jafnaðarmanna er að innleiða breytingar til að ívilna fólki sem hefur unnið slítandi erfiðisvinnu alla sína starfsævi. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur vill frekar halda áfram að refsa þessu fólki, reka skattpíningar- og skerðingarstefnu þar sem tekjulágt eldra fólk þarf að greiða allt of háan jaðarskatt og er refsað fyrir að hafa safnað í lífeyrissjóð.

Virðulegi forseti. Það sem er þó mest sláandi af öllu er hið algera fálæti stjórnarmeirihlutans gagnvart fólki með skerta starfsgetu, óvinnufæru fólki og fólki á örorku. Hvar er réttlætið í því eiginlega að hækka aðeins frítekjumark atvinnutekna hjá eldra fólki en ekki hjá öryrkjum þar sem frítekjumarkið hefur staðið í stað í 109.000 kr. á mánuði í meira en tíu ár? Og hvernig samrýmist þetta eiginlega öllum yfirlýsingum stjórnarliða um að það þurfi að hvetja fólk með skerta starfsgetu til virkni? Á þá bara að hvetja fólk með því að nota refsivöndinn? Þetta er í áttunda skipti sem hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson leggur fram fjárlög þar sem frítekjumark atvinnutekna öryrkja stendur í stað. Nú er svo komið að þetta frítekjumark verður hátt í helmingi lægra en frítekjumark atvinnutekna hjá eldri borgurum. Hvar er eiginlega réttlætið í þessari refsistefnu gagnvart öryrkjum? Hvar er sanngirnin í því að hátekjufólk, eins og við hér í þessum sal, greiðum 46% skatta af hverri viðbótarkrónu sem við vinnum okkur inn en að öryrki sem fer út á vinnumarkaðinn þurfi að greiða jaðarskatt upp á kannski 70–80%? Hvers vegna í ósköpunum vill ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafa þetta svona áfram?

Virðulegi forseti. Við munum auðvitað ræða meira um þessi fjárlög. Vonandi lagast þau og bandormurinn eitthvað milli umræðna. Í þeirri umræðu og vinnu allri vil ég minna á að það hvernig fólk hefur það, það hversu breitt bilið er á milli þeirra sem lakast standa og þeirra sem hafa það best, er allt saman bara pólitísk ákvörðun. Pólitísk ákvörðun um það hvernig við skiptum gæðunum í samfélaginu. Við höfum nákvæmlega enga afsökun fyrir öðru en að sækja fram af miklu meiri krafti heldur en birtist í þessu fjárlagafrumvarpi. Beita ríkisvaldinu af festu til að jafna kjörin, skapa betra og grænna samfélag þar sem allir en ekki bara sumir hafa það gott.