152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[20:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég lagði fyrirspurnir fram á síðasta kjörtímabili um kostnað lögbundinna verkefna af því það er það sem við gerum hér á þingi. Við semjum lög um að veita eigi fólki ákveðna þjónustu eða gefa því ákveðin réttindi. Þegar fólk fær ákveðin réttindi leggjum við þá skyldu á framkvæmdarvaldið að það sinni þeirri þjónustu eða tryggi þau réttindi á einhvern hátt. Við getum nefnt dómstóla eða lögreglu, í raun einföldustu hlutina. Og þegar framkvæmdarvaldið getur ekki einu sinni sagt okkur hvað þau verkefni kosta sem við höfum ákveðið að framkvæmdarvaldið eigi að sinna þá erum við í mjög vondum málum. En við getum ekkert sagt um það hvort tekjuhliðin og gjaldahliðin sé útþanin eða ekki nægilega mikil eða hvað það er þegar við vitum ekki einu sinni hver kostnaðurinn er og varla hver réttindastaðan er miðað við það sem við höfum ákveðið hér í þessum þingsal. Mér þykir þetta dálítið merkilegt. Mér finnst að við ættum kannski að byrja þar því að það leiðir okkur mjög auðveldlega út í svarið, hvort við séum að borga of mikið, taka of mikið eða hvernig sem það er.