152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[20:41]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég hef óskað eftir því að hæstv. innanríkisráðherra og hæstv. ráðherra félagsmála og atvinnumarkaðsmála séu staddir í húsi. Mér skilst að þeir hafi orðið við þeirri beiðni minni og vil ég þakka þeim kærlega fyrir það. Það er áhugavert að skoða fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og þingmálaskrána sömuleiðis sem við höfum fengið í hendur. Margt af þessu er endurtekið efni enda erfitt að ætlast til þess að ríkisstjórn sem er þvílíkt miðjumoð hafi komið miklu í verk á liðnu kjörtímabili. Eitt vakti athygli mína, eitt sem ég hef gagnrýnt ansi lengi og held því áfram, en það eru þeir fjármunir sem varið er til útlendingamála. Þar hef ég staðið mig að því að vera sammála stjórnmálamönnum sem eru mér ósammála í grundvallaratriðum í pólitík um það að við séum að eyða allt of miklum peningum í meðferð umsókna um alþjóðlega vernd á Íslandi. Ég er hins vegar með aðrar hugmyndir um lausn á þessum vanda, hugmyndir sem ég fæ ekki séð að hugnist ríkisstjórninni eða svo sem neinum öðrum en mér og mínum flokki og kannski einhverjum öðrum sem hafa ekki nýlega fengið tækifæri til að gera einhverjar breytingar þar á. Ég tel nefnilega að það sé stefna ríkisstjórnarinnar sjálfrar sem veldur því hvað þetta kostar mikinn pening. Í stefnu ríkisstjórnarinnar, sem Vinstri græn, voru ekki sammála síðast þegar ég vissi, en þau hafa, eins og ég nefndi í ræðu minni um daginn, enn á ný afhent Sjálfstæðisflokknum lyklavöldin að því ráðuneyti sem fer með umsjón þeirra mála og stefnan því óbreytt. Við getum því kannski allt eins talað um stefnu Sjálfstæðisflokksins en það er stefna ríkisstjórnarinnar eins og staðan er. Hún gengur fyrst og fremst út á skilvirkni. Rökin fyrir því eru þau að það fari of miklir peningar í vinnslu þessara mála. Það er kostnaðarsamt fyrir bæði ríkið og fólkið sem um ræðir, í andlegum og veraldlegum kostnaði sem fylgir þeim þjáningum sem gríðarlega langur málsmeðferðartími veldur.

Vandinn er sá að það er sú hugmynd sem ríkisstjórnin hefur um skilvirkni sem veldur því hvað hlutirnir taka langan tíma vegna þess að eina leiðin til skilvirkni í þessum málaflokki sem ríkisstjórnin sér er að stoppa fleiri á landamærunum, vísa fleirum úr landi. Vandinn er sá að það er miklu dýrara. Það er miklu dýrara en að leyfa fólki að vera og koma sér upp lífi hér á landi. Ég mun fara betur yfir það í mínu máli hér eftir.

Ein af ástæðunum fyrir þessu er sú, eins og dómsmálaráðherra fyrri ríkisstjórnar varð tíðrætt um, að stórum hluta þeirra einstaklinga sem sækja um vernd hér á landi hefur þegar verið veitt alþjóðleg vernd í öðru ríki. Þessi hópur fer í rauninni stækkandi hlutfallslega. Þó að það megi svo sem velta vöngum yfir því hvers vegna það er, hvers vegna hópurinn fer stækkandi, er allt sem bendir til þess að það sé einfaldlega vegna versnandi aðstæðna, síversnandi aðstæðna í tilteknum Evrópuríkjum sem veita flestum vernd. Þar ber langhæst Grikkland, Ungverjaland og að einhverju leyti Ítalíu. Þannig er um stóran hluta þeirra einstaklinga sem koma hingað og óska eftir leyfi til að fá að vera hér á landi. Þau biðja ekki um neitt annað. Þau eiga rétt á ýmsu öðru vegna þess að við erum ekki það miklir fávitar, en þau vilja í rauninni ekkert annað en að fá að vera og skapa sér framtíð og líf eins og við öll.

Ríkisstjórnin hefur lagt sig í líma við að koma þessu fólki úr landi, synja því um leyfi til að fá að vera hér með þeim rökum að því hafi þegar verið veitt vernd og það sé ekki í raunverulegri neyð. Það þurfi að hjálpa fólki sem er í raunverulegri neyð. Fyrrverandi dómsmálaráðherra varð tíðrætt um þetta og notaði þetta orðalag mikið og það hefur alltaf hreyft mjög illa við mér. Fólk sem hefur fengið vernd í löndum á borð við Grikkland og Ungverjaland er sannarlega í mikilli neyð og hér er m.a. um að ræða börn, kornabörn og fólk í virkilega erfiðri stöðu. En jafnvel þótt við værum að tala um ungan og hraustan karlmann er hann samt í lífshættu í Grikklandi eða Ungverjalandi. Í Grikklandi vegna skelfilegra aðstæðna á brotajárns- og ruslahaugum þar sem fólk býr vegna þess að það hefur ekkert aðgengi að réttindum sem þeim ber á blaði, samkvæmt dvalarleyfinu sem þeim hefur verið veitt. Þau búa bara einhvers staðar á ruslahaug, hafa ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu, komast ekki inn á vinnumarkað, fá ekki húsnæði, geta ekkert gert, þiggja máltíð einu sinni á dag hjá kirkjunni, ef við tökum dæmi um unga hrausta karlmanninn sem á ekkert bágt. Það má greinilega vísa honum hvert sem er og líka reyndar konum og börnum. Í Ungverjalandi er staðan sú að fólk er einfaldlega að flýja ofbeldi af hálfu ríkisins sjálfs, af hálfu lögreglunnar og síðan gríðarlega mismunun, kerfisbundna mismunun og fordóma af hálfu ungverskra stjórnvalda. Áður en ég var kjörin á þetta þing þá starfaði ég sem talsmaður umsækjenda um alþjóðlega vernd og hef gert það í og með frá júní 2009 og í fullu starfi frá árinu 2014. Fleiri en einum og fleiri en tveimur af mínum skjólstæðingum sem koma frá Ungverjalandi hefur verið veitt alþjóðleg vernd í Ungverjalandi, eru með varanlegt líkamstjón, eru jafnvel með varanlega fötlun vegna lögregluofbeldis, vegna skaða sem ungverska ríkið veitti þeim beinlínis líkamlega. Þetta fólk er í neyð. Það leitar hingað vegna þess að það er í neyð. Það er ekki vegna þess að hér er bara svo næs og gott veður, sannarlega ekki.

Ég ætla að fara aðeins yfir það hvernig málin eru unnin og hvernig ég tel að þau ættu að vera unnin, öllum til hagsbóta, fólkinu til hagsbóta og ríkissjóði til hagsbóta.

Ég vil byrja á að nefna að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu og þeim gögnum sem við höfum fengið í hendur, án þess að ég hafi rýnt í tölur og texta í smáatriðum, þá sé ég ekki betur en að á árinu 2020 hafi 4,3 milljarðar farið í útlendingamál, þar af 3,4 milljarðar í það sem heitir, ég veit ekki hvað er þar undir, umsækjendur um alþjóðlega vernd, 3,4 milljarðar. Árið 2020 sóttu um vernd hér á landi 654 einstaklingar samkvæmt tölum á heimasíðu Útlendingastofnunar. Þetta gerir 6,5 milljónir á mann.

Það sem gerist þegar einstaklingur kemur hingað til lands og sækir um alþjóðlega vernd, mætir á Keflavíkurflugvöll og fer til lögreglunnar eða til öryggisvarðar og segir: Góðan daginn, ég er flóttamaður, getið þið hjálpað mér? Þar með, samkvæmt alþjóðalögum, hefur umsókn um alþjóðlega vernd verið lögð fram og hana þarf að afgreiða. Almennt á að afgreiða umsókn um alþjóðlega vernd þannig að tekið er viðtal við viðkomandi og málið rannsakað með tilliti til þess hvort viðkomandi sé flóttamaður frá sínu heimaríki. Hann er spurður út í aðstæður í heimaríki, persónulegar aðstæður og almennar aðstæður og það er farið í mikla gagnaleit og í mörgum tilvikum mjög faglega rannsókn á því hvernig aðstæður eru í heimaríki viðkomandi og hvernig það stemmir við söguna og annað. Það eru hins vegar heimildir, og ég endurtek heimildir, í lögum um útlendinga til að synja því að taka mál til efnismeðferðar. Það þýðir í rauninni það að málinu er vísað frá, umsókninni er vísað frá. Viðkomandi er aldrei spurður hvers vegna hann eða hún sé flóttamaður heldur er heilmiklum peningum og tíma og orku varið í það að finna út hvort það sé ekki hægt að senda hann eitthvert annað. Það eru helst tvær leiðir sem eru notaðir til þess og um þetta eru ákvæði í lögum um útlendinga.

Í a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, gefur að líta heimild til þess að vísa fólki þangað þar sem því hefur þegar verið veitt vernd, reyndar er talað þar um virka alþjóðlega vernd sem má sannarlega deila um í tilviki Grikklands og Ungverjalands. Þarna er heimild til að senda fólk til baka, þangað þar sem því hefur verið veitt vernd eða veitt dvalarleyfi sem flóttamaður.

Þessi mál eru í daglegu tali stundum kölluð „status“-mál. Þetta eru fyrst og fremst einstaklingar, eins og ég sagði áðan, sem koma frá Grikklandi og Ungverjalandi og hefur verið veitt þar alþjóðleg vernd en eru jafnvel í verri stöðu en þeir voru áður en þeir fengu verndina. Það er vegna þess að á meðan á umsóknarferlinu stendur lýkur aðstoð ýmissa hjálparstofnana sem taka mikla ábyrgð í þessum ríkjum, þar á meðal Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Rauði krossinn og önnur hjálparsamtök. Aðstoð þessari, bæði af hálfu ríkisins og margra hjálparsamtaka, lýkur þegar viðkomandi er kominn með dvalarskírteini í hendur vegna þess að samkvæmt bókinni ætti almenna félagslega kerfið í landinu að taka við sem í þessum ríkjum er bara hrunið, er hægt að segja.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. er önnur heimild til þess að vísa fólki til annars Evrópuríkis á grundvelli samstarfs sem kallað er Dyflinnarsamstarfið og Ísland á aðild að í tengslum við Schengen-fyrirkomulagið. Dyflinnarsamstarfið er sennilega eitt það arfavitlausasta sem Evrópusambandinu hefur nokkurn tíma dottið í hug og þá á ég ekki bara við út frá mannúðarsjónarmiði heldur líka bara kostnaðarlegu sjónarmiði. Það byrjaði með Dyflinnarsamningi sem varð síðan að Dyflinnarreglugerðinni svokölluðu. Reglugerðin kveður á um það hvaða ríki Evrópu beri ábyrgð á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Þetta er áður en fólki er veitt vernd, þetta er þegar einhver kemur til Evrópu, lifir af gúmmíbátsferðina frá Tyrklandi eftir að hafa flúið t.d. Sýrland, kemur á land á Ítalíu eða í Grikklandi og sækir um vernd. Þá eru tekin fingraför af viðkomandi og þá fellur fólk undir 13. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar sem kveður á um það að hafi einstaklingur komið með óreglulegum hætti inn fyrir landamæri lands skuli það ríki bera ábyrgð á meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd. Það er líka algengt að fólk sé sent til baka á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar vegna þess að því hefur verið veitt vegabréfsáritun inn á Schengen-svæðið af því ríki og það getur átt við um t.d. Þýskaland, Frakkland eða Spán, það er algengt, stundum Noreg, Svíþjóð. Loks er það þannig að ef einstaklingur hefur þegar sótt um vernd í öðru Evrópuríki — þetta er samt svona ruslakistuákvæði, þetta er ekki aðalreglan þótt margir haldi það — þá skal senda hann þangað til baka alveg sama hver niðurstaða þeirrar umsóknar var. Ef Noregur hefur synjað einstaklingi um vernd og hann heldur áfram og leitar til Íslands er heimilt að senda hann aftur til Noregs, alveg óháð því hvað verður um hann eftir það.

Þetta eru sem sagt þær heimildir sem Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála, stjórnvöld, hafa til að neita fólki um áheyrn í rauninni, neita því um að umsókn þess verði tekin til meðferðar. Þessir ferlar báðir taka gríðarlega langan tíma og þegar svona mál tekur langan tíma þá kostar það meiri pening. Það er af gríðarlega mörgum ástæðum. Það er ekki síst vegna þess að fólk hefur mannréttindi, ýmis grundvallarréttindi sem jafnvel eru tryggð í Dyflinnarreglugerðinni. Í Dyflinnarmálum, þegar eitthvert annað ríki í Evrópu ber ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd, eru ákveðnir tímafrestir sem gilda. Ef Útlendingastofnun kemst að þeirri niðurstöðu að Þýskaland beri ábyrgð á meðferð umsóknar vegna þess að viðkomandi fékk vegabréfsáritun, sendir Útlendingastofnun beiðni til Þýskalands um endurviðtöku. Þar er einhver bírókrati sem tekur við þeirri beiðni og hann hefur þrjá mánuði til að svara þessari beiðni. Í ríkjum á borð við Ítalíu og mörg önnur þar sem álagið er mikið hafa ríki tekið upp á því að svara ekki þessum beiðnum. Það þýðir að að þremur mánuðum liðnum telst hún vera samþykkt. Þetta þýðir það að í verstu málunum, þar sem eðlilegast væri einfaldlega að taka málið til efnismeðferðar og hætta þessari vitleysu, þá þarf útlendingur stundum að bíða í þrjá mánuði, bara bíða þangað til að þessi frestur er runninn út. Á meðan bíður fólk í herbergi einhvers staðar uppi á Keflavíkurflugvelli, starandi á hvíta veggi, býr jafnvel í herbergi með fólki af öðru þjóðerni sem er sömuleiðis trámatíserað eftir erfitt og langt ferðalag, fólk úr alls konar aðstæðum, með alls konar bakgrunn, hrúgað saman. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að ímynda sér hvaða vandamál geta komið upp við svoleiðis aðstæður, fyrir utan náttúrlega gríðarlega takmarkaða þjónustu og aðstoð og stuðning sem þessir einstaklingar fá og önnur vandamál sem ég ætla ekki að eyða dýrmætum tíma mínum í að fjölyrða um hér. Þetta kostar pening. Á meðan fólk bíður í þessa þrjá mánuði er það í húsnæði á vegum ríkisins. Það má ekki vinna fyrir sér sjálft þannig að það þarf að sjá því fyrir fæði og það fær fæðispeninga til þess. Það fær einhvern smotterísvasapening, ég held að það hafi verið 2.700 kr. á viku síðast þegar ég vissi, sem á að dekka allt, jafnvel rútuferð í bæinn sem ég held að kosti bara hreinlega meira en það ef þú ætlar að fara báðar leiðir. Þau fá ekki strætómiða til að fara t.d. til Reykjavíkur nema þau séu að fara í viðtal hjá Útlendingastofnun eða til læknis. En þetta er allt á kostnað ríkisins. Á meðan eru lögfræðingar hjá Útlendingastofnun að vinna í málinu, lögfræðingar hjá Rauða krossinum að gæta þess að Útlendingastofnun brjóti ekki eða brjóti minna á réttindum þessa fólks og það er sannarlega ekki vanþörf á að passa upp á það. Í ofanálag gera þessar erfiðu aðstæður það að verkum að fólk er illa á sig komið andlega. Það þarf á sálfræðiþjónustu að halda sem ríkið þarf að greiða að sjálfsögðu og jafnvel bráðaþjónustu, það fer jafnvel inn á spítala, jafnvel oftar en einu sinni á þessum tíma. Og þarna er ég bara að tala um einhvern lágmarkstíma, þrjá mánuði.

Það sem gerist þegar þessir þrír mánuðir eru liðnir er að þá tekur Útlendingastofnun viðtal við viðkomandi og segir: Heyrðu, Þýskaland ber ábyrgð á umsókninni þinni og við ætlum að senda þig til Þýskalands, hvernig líst þér á það? Viðkomandi útskýrir að hann hafi fengið synjun í Þýskalandi og vilji ekki fara þangað eða t.d. að hann hafi ákveðið að það væri betra fyrir hann að koma til Íslands vegna þess að hann er með sérmenntun í einhverjum fiskifræðum. Ég hef verið með einn slíkan skjólstæðing. En kerfinu er alveg sama um það, kerfinu er alveg sama hver þú ert, hvað þú vilt eða hvað þú ert fær um, hvaða tungumál þú talar, hvaða líkur eru á að þú getir aðlagast samfélaginu. Kerfið spyr ekki að því. Dyflinnarkerfið er bara samkomulag milli ríkjanna um að kasta fólki á milli eins og einhverjum bögglum. Þetta er ekki fólk þannig að það er ekkert verið að velta því fyrir sér. En viðkomandi segir: Nei, ég vil ekki fara aftur til Þýskalands eða Ítalíu eða Grikklands eða Ungverjalands ef þeim hefur verið veitt þar vernd. Þetta viðtal tekur þrjá klukkutíma. Þar er staddur fulltrúi Útlendingastofnunar sem er almennt lögfræðingur á fullum launum og það er lögfræðingur frá Rauða krossinum staddur þar, það er túlkur. Túlkaþjónustan, ég meira að segja gleymi að nefna hana, hún er mjög dýr. Það er dýr þjónusta og nauðsynleg í þessum málum. Allan þennan kostnað er lagt í, að mínu mati, að óþörfu.

Þegar búið er að taka þetta viðtal og búið að rannsaka málið þá tekur Útlendingastofnun ákvörðun og segir: Við ætlum að senda þig til Þýskalands, alveg sama hvað. Þarna eru liðnir kannski fjórir mánuðir, jafnvel meira. Viðkomandi vill þetta ekki og kærir til kærunefndar útlendingamála. Þá taka enn fleiri lögfræðingar við málinu. Lögfræðingurinn hjá Rauða krossinum heldur áfram sinni vinnu og viðkomandi er áfram á framfæri íslenska ríkisins með öllu tilheyrandi vegna þess að hann má ekki vinna, þannig eru líka lögin hér og reglurnar. Svo kemur úrskurður frá kærunefnd útlendingamála. Málsmeðferð hjá kærunefnd útlendingamála tekur sömuleiðis einhvern tíma, eðlilega. Það þarf að afla gagna. Fólk fær reyndar ekki viðtal í þessum málum en í öðrum málum getur verið að það fái viðtal hjá kærunefndinni. Það þarf að rannsaka málið til hlítar. Kærunefndin birtir síðan sinn úrskurð og gefum okkur að hann sé líka neikvæður. Þá eru kannski liðnir sjö, átta mánuðir. Fólk hefur mjög stuttan frest til þess að reyna að fara með málið fyrir dóm, það óskar eftir því að fá að vera á landinu á meðan dómsmálið er rekið og fær synjun um það undantekningarlaust í þessum málum. Lögmaður stefnir málinu fyrir dóm. Svo fer beiðni til lögreglu um að flytja viðkomandi úr landi og lögreglan fer að vinna í því, enn fleiri starfsmenn eyða peningum í þetta. Þá eru liðnir 12 mánuðir.

En nú erum við með ákvæði í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sem segir að ef sérstakar ástæður mæla með því — ég er ekki að lesa beint upp úr ákvæðinu en þar segir orðrétt að ef sérstakar ástæður mæla með því, það er nákvæmlega það sem ákvæðið segir — þá skulu — það er ekki heimild, það er skylda — stjórnvöld taka málið til efnismeðferðar. Það skal líka gert ef 12 mánuðir eru liðnir frá því að umsókn er lögð fram svo fremi að tafir á málinu séu ekki á ábyrgð umsækjandans sjálfs. Þarna er þetta náttúrlega ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs, það er á ábyrgð stjórnvalda vegna þess að þetta er bara vesen. Það er vesen að brjóta á réttindum fólks, það tekur tíma. Svo eru ýmsar aðrar ástæður fyrir því að mál taka langan tíma. Málið hefur tekið 12 mánuði, viðkomandi hefur verið að fullu á framfæri íslenska ríkisins allan þennan tíma. Það er búið að stefna málinu fyrir dóm og tímafresturinn er liðinn. Útlendingastofnun mótmælir og segir: Nei, hann bar sjálfur ábyrgð á því, hann var ekki fluttur úr landi því hann svaraði ekki símanum þegar löggan hringdi í hann. Þá fer það líka í kæruferli og eitthvað.

Segjum sem svo að málið fari nú vel fyrir viðkomandi og málið er endurupptekið vegna þess að fresturinn er liðinn, það fer aftur til Útlendingastofnunar til efnismeðferðar. Hversu miklum peningum erum við búin að eyða á þessum 12 mánuðum í það að reyna að koma viðkomandi úr landi? Þegar við erum með einstaklinga sem koma frá Grikklandi, Ungverjalandi þá sendir Ísland ekki til Grikklands eða Ungverjalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, takið eftir því, bara einstaklinga sem hafa fengið mál sitt afgreitt í þessum löndum, hafa fengið vernd þar í landi. Fólk sem er enn þá í umsóknarferli sem heyrir undir Dyflinnarreglugerðina er í rauninni í betri aðstæðum heldur en þetta fólk. Það segir sitt að að einhverju leyti viðurkennir íslenska ríkið að aðstæður í þessum ríkjum séu algjörlega óásættanlegar. Það er búið að spyrja fólk sem kemur frá þessum ríkjum út í heimaríki. Það er búið að afgreiða umsóknina. Það er búið að komast að þeirri niðurstöðu að viðkomandi sé flóttamaður, viðkomandi er kominn jafnvel með skilríki sem segir: Ég er flóttamaður, heyri undir flóttamannasamninginn. Það þarf ekkert að spyrja um þetta meir.

Við erum meira að segja með ákvæði í íslenskum lögum um útlendinga í 47. gr., og ég ætla bara að lesa það upp orðrétt, með leyfi forseta, vegna þess að mér hefur alltaf þótt það svo áhugavert að stjórnvöld neiti að beita þessu ákvæði. Ég hef látið reyna á það í einhverjum tilvikum en var þó ekki í sjálfstæðri lögmennsku nógu lengi til að fá dóm um það þar sem ég var kjörin á þing áður en ég náði því. Kannski nær því einhver annar. En ákvæðið er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„47. gr. Gildi erlendra ákvarðana um stöðu flóttamanns.

Útlendingur, sem veitt hefur verið alþjóðleg vernd eða ferðaskírteini fyrir flóttamenn í öðru ríki en Íslandi, skal talinn flóttamaður með fasta búsetu í því ríki. Sama á við um einstakling sem staðfest hefur verið að sé ríkisfangslaus. Fyrri ákvörðun um stöðu hans sem flóttamanns eða ríkisfangslauss einstaklings skal ekki vefengd nema sú ákvörðun sé röng eða aðrar ástæður liggi til þess.“

Þetta ákvæði myndi heimila Útlendingastofnun einfaldlega að afgreiða þessi mál á 48 tímum eða minna, veita fólki dvalarleyfi. Þegar fólk er komið hingað með fullt af von og fullt af bjartsýni er það oft bara „reddí“: Nú ætla ég að byrja mitt líf. En það er búið að taka 12 mánuði, brjóta fólk niður, gera það gjörsamlega óvinnufært. Þetta er algjört, afsakið slettuna, „lose-lose“-kerfi sem við erum með. Hvað myndi sparast við þetta? Ég á eftir að óska eftir upplýsingum um það með formlegum hætti.

Þetta er ekki bara ómannúðleg stefna og lögfræðilega vafasöm í besta falli heldur líka gríðarlega kostnaðarsöm, gríðarlega dýr á móti því að umsækjandi sem kemur hingað frá Sýrlandi, fer beint í efnismeðferð og fær stöðu viðurkennda, getur farið út á vinnumarkað og bara hafið sitt líf og orðið hluti af samfélaginu og hagkerfinu eins og við hin, getur farið að versla, orðið þátttakandi í þessu samfélagi.

Það sem er líka áhugavert varðandi þessi mál er að í 2. mgr. 36. gr. er líka talað um sérstakar ástæður sem mæla með því og í athugasemdum við lagafrumvarpið er talað um að mál einstaklings í sérstaklega viðkvæmri stöðu skuli tekið til efnismeðferðar og að þetta hafi verið ítrekað nokkrum sinnum á þingi. Það er sem sagt vilji löggjafans að gera þetta, að fólk sem er í sérstaklega viðkvæmri stöðu fái hér að vera. Við erum með fjölskyldu með kornabarn sem er fætt á Íslandi. Það er fjögurra mánaða gamalt þegar stjórnvöld klára þá ákvörðun að það eigi að senda fjölskylduna aftur til Grikklands á brotajárnshaugana. Það sem gleymist svolítið þegar talað er um að senda fólk aftur í þessar aðstæður er að við tölum um að þau hafi ekki aðgang að húsnæði, hafi ekki aðgang að vinnumarkaði og annað en það sem er svo hættulegt við að hafa ekki aðgang að húsnæði, sem við skiljum illa hérna á Íslandi í okkar forréttindafirringu, er að þegar þú átt hvergi heima þá býrðu ekki við öryggi. Þú býrð ekki við öryggi frá ofbeldi, frá því að hlutirnir séu teknir frá þér. Það eru engir öryggisskápar á ruslahaugunum. Lítið kornabarn, hjón með pínulítið kornabarn. Hvernig í ósköpunum eiga þau að fara að því að vernda þetta kornabarn gagnvart lögbrotum, gagnvart ofbeldi og öðru sem viðgengst á þessum svæðum? Lögreglan í þessum ríkjum hefur annars vegar ekki neina burði til þess að halda uppi lögum og reglum á þessum svæðum, fyrir utan að það er oft ekki einu sinni vilji til þess í Grikklandi. Einn umbjóðandi minn sagði mér einu sinni að hann hefði kallað á lögreglu vegna hnífaslagsmála og lögreglan sagði við þá: Ekki skemma hjólhýsið. Stingið hvorn annan, bara ekki skemma hjólhýsið. Sendum kornabarn í þessar aðstæður. Sendum konur sem hafa búið við kynferðisofbeldi allt sitt líf og bera varanlegan skaða af aftur í þessar aðstæður með vísun í einhver lög í Grikklandi sem segja: Jú, hún á nú rétt á því að búa einhvers staðar. Það hefur enginn tök á eða peninga til þess að tryggja það eða annað, fyrir utan það að hún talar ekki tungumálið og veit ekkert hvert hún á að leita. Er þetta ekki einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu? Við erum komin með enn aðra ástæðu, fyrir utan bara aðstæður í þessum ríkjum til að taka þessi mál til efnismeðferðar.

Spurningarnar sem mig langar til þess að beina til ráðherra eru: Hefur ráðherrann einhverjar hugmyndir um leiðir til að ná sparnaði í þessum málaflokki? Ná niður þessum 3,4 milljörðum í fjárlagafrumvarpinu sem við erum með í höndum? Þar er ekki að sjá að það standi neitt til að skera þetta mikið niður enda er það ekki hægt. Það er ekki hægt að stjórna þeim fjölda sem hingað leitar, það er bara hægt að stjórna því hvernig við afgreiðum þau mál. Við höfum ákveðið að gera það með þessum hætti og það er bara mjög dýrt fyrir allt og alla.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa núna í þrígang lagt fram frumvarp, og ég fæ ekki betur séð en að þau ætli að gera það aftur, sem gengur út á það að afnema skylduna til að taka mál til efnismeðferðar í sérstökum tilvikum, ef sérstakar ástæður mæla með því, í þeim tilvikum þar sem fólki hefur verið veitt vernd í öðrum ríkjum. Þetta var mjög skýrt og skorinort í fyrstu útgáfu þess frumvarps. Nú hefur verið gerð einhver málamiðlun, mögulega af því að Vinstri græn hafa áhyggjur af því að kannski sé þetta bara svolítið hræðilegt sem er verið að reyna að gera, vegna þess að það er það. En málamiðlunin segir að það verði tekið algerlega fyrir það að hægt sé að taka þessi mál til efnismeðferðar og veita þessu fólki stöðu flóttamanns hér á landi og fjögurra ára dvalarleyfi og allt það. Hins vegar á að skoða hvort það sé tilefni til að veita þeim mannúðarleyfi, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sem hljómar rosalega vel ef fólk er í þessum aðstæðum. En dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða gildir í eitt ár. Því fylgir ekki atvinnuleyfi og það tekur ekkert minni tíma að afgreiða slík umsókn heldur en að skoða það hvort viðkomandi sé í það slæmum aðstæðum eða ástæður séu það sérstakar að það eigi að taka málið til efnismeðferðar. (Forseti hringir.)

Þannig að mínar spurningar til ráðherra eru þessar: (Forseti hringir.) Stendur til að skoða það að hætta að eyða almannafé Íslendinga í að auka á vítiskvalir fólks sem hefur búið við ofbeldi og óöryggi og vosbúð allt sitt líf?