152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þennan ágæta punkt, þennan mikilvæga punkt. Eins og ég lít á þetta er hv. þingmaður í rauninni að tala um mikilvægi þingsins, um virðingu þingsins, um að við sem kjörnir fulltrúar — þingmeirihlutinn er ekki eini handhafi þess að vera kallaður umbjóðandi. Við erum umbjóðendur þeirra sem hafa kosið okkur og við þurfum að eiga tækifæri og möguleika til að rýna til gagns leiðirnar. Ég var að tala hér í fjárlagaumræðunni um alla þessa útgjaldaaukningu. Við fáum aldrei og við í Viðreisn erum ítrekað búin að benda á það að við þurfum að fá umræðu um árangursmælikvarða, hvað við erum t.d. að fá fyrir fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu, í menntakerfinu, í innviðunum. Við þurfum að fá þessa árangursmælikvarða en við fáum ekki umræðuna. Við fáum ekki umræðuna eða tækifæri til að sýna eftirlit og aðhald meðan þing er ekki að störfum. (Forseti hringir.) Ég ætla að koma að því á eftir. Mér finnst það til vansa að við skulum ekki hugsa meira um hvenær kosningar til Alþingis fara fram því að við erum að upplifa það núna (Forseti hringir.) að við erum í spreng með fjárlagaumræðuna og það er engum til hagsbóta.