152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:10]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir greinargóða ræðu sem vakti margar áhugaverðar spurningar. Mig langar að spyrja margra spurninga en ætla að byrja á einni. Hv. þingmaður spurði eitthvað á þá leið í upphafi ræðu sinnar, ég held að einnig hafi verið minnst á það í gær, hvar pólitíkin væri í fjárlagafrumvarpinu, að það sé hreinlega ekkert að frétta þarna. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sjái áherslur vinstri flokks í fjárlagafrumvarpinu og þá á ég við félagslegar áherslur og baráttu gegn ójöfnuði.

Nú er hv. þingmaður formaður Samfylkingarinnar. Ég er svo gamall að ég man að í gamla daga voru tveir A-flokkar, það voru systurflokkar, Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn. Svo varð Samfylkingin til upp úr samruna ákveðinna vinstri flokka, sem og Vinstrihreyfingin – grænt framboð. Og það stendur vinstri flokkur að þessu fjárlagafrumvarpi, vinstri hreyfing. Ég tek fram að ég sé ekki þær áherslur. Mér finnst þetta klassískt B- og D-fjárlagafrumvarp, þ.e. fjárlagafrumvarp Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Ég segi ekki teknókratískt en það er voðalega lítil pólitík þarna, félagslegar áherslur eru ekki fyrir hendi. Mig langar að spyrja hvort hv. þingmaður sjái þær og hverjar þær eru þá.