152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

friðlýsing fráfarandi umhverfisráðherra.

[13:55]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það var ýmist verið að útdeila peningum í aðdraganda kosninga eða gefa loforð inn í framtíðina um útbýtingu fjármuna sem ekki hafa verið samþykktir hér af fjárveitingavaldinu. Það hafa verið skrifaðar um það margar greinar, hæstv. fjármálaráðherra, þar sem var verið að dreifa, ýmist einn eða fleiri ráðherrar, inn í sömu samtök, vissulega mörg brýn málefni. 150 milljónir í nemendagarða á Flateyri. Ég man ekki eftir því að Alþingi hafi samþykkt það. Kannski getur hæstv. fjármálaráðherra leiðrétt það. Það var auðvitað verið að úthluta skúffufé hér og þar. Húsnæði yfir þyrlur Landhelgisgæslunnar, ýmiss konar geðheilbrigðisþjónusta, samtök, félagasamtök, vegir og ýmislegt annað. Þetta getur hæstv. fjármálaráðherra fundið út með því að lesa fjölmiðla sem hafa verið að fjalla um þetta.