152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[14:39]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ráðherra talaði um, í sambandi við Allir vinna, að menn væru að klóra sér í hausnum yfir því hvort halda ætti því áfram. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra ætti að hætta því og láta þetta vera áfram. Þetta er frábært framtak og kemur heimilunum virkilega til góða. En það sem ég klóra mér í hausnum yfir og ég vil fá skýringar á er hvers vegna í ósköpunum talað er um það hér ár eftir ár að framlengja eigi bráðabirgðaákvæði vegna Framkvæmdasjóðs aldraðra, að framlengja bráðabirgðaákvæði vegna kostnaðar heimilanna, að framlengja bráðabirgðaákvæði vegna víxlverkandi örorkulífeyris, að framlengja bráðabirgðaákvæði vegna frítekjumarks örorkulífeyrisþega. Þetta er endalaust, það er endalaust talað um að framlengja einhver bráðabirgðaákvæði. Og hvaða afleiðingar hafði það á sínum tíma þegar það gleymdist að framlengja bráðabirgðaákvæði við skerðingu lífeyrissjóðs aldraðra? Það endaði sem dómsmál. Hvers vegna í ósköpunum er ekki séð til þess að leysa þetta í eitt skipti fyrir öll, og hætta að framlengja þessu ár eftir ár? Hver er ástæðan?