152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[14:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get svarað því þannig að við höfum ekki verið að undirbúa framlengingu á ívilnandi ákvæðum varðandi t.d. tengiltvinnbílana. Ég tek hins vegar eftir því að framleiðendur ná sífellt betri árangri við að draga úr losun slíkra bíla og er í raun stórmerkilegt að sjá hversu mikil breyting hefur orðið á skömmum tíma, jafnvel nokkuð stórir og þungir bílar eru farnir að losa þriðjunginn af því sem þeir gerðu áður, og hér er ég að bera saman tengiltvinnbíla í báðum tilvikum. En stóra verkefnið sem bíður okkar á þessu sviði er að hafa aftur tekjur af umferð í landinu og langtímaþróunin bendir til þess að ef við gerum ekkert í málinu muni tekjur ríkissjóðs skreppa saman um hátt í 1% af landsframleiðslu sem væri á verðlagi dagsins í dag kannski í kringum 30 milljarðar á ári, sem eru þá ekki fyrir hendi til að fjármagna samgöngukerfið. Þessu verðum við að bregðast við.