152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[15:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil kannski byrja á því að segja nokkur orð um raunskattsskriðið sem við boðuðum að við vildum bregðast við. Lengst af var umræðan um að það væri ósanngjarnt að þrepamörkin milli þrepa í tekjuskattskerfinu fylgdu einni vísitölu, launavísitölunni, en persónuafslátturinn annarri, neysluvísitölunni, og það er alveg rétt að það hefur gerst yfir tíma að átt hefur sér stað raunskattsskrið á Íslandi. En það er ekki bara undanfarin ár heldur má segja að það hafi gerst alveg frá upphafi staðgreiðslukerfisins þar sem svo virðist sem við höfum kannski farið fullbratt af stað með háum frítekjumörkum sem yfir tíma voru unnin til baka. Við skulum segja að það hafi á næstum því 30 árum verið unnið til baka.

Þegar við förum yfir þetta tímabil og gerum það upp þá finnst mér sjálfsagt að ræða um skattbyrðina fyrir einstaka tekjuhópa á tímabilinu. En það eru önnur atriði sem skipta samt sem áður meira máli. Ráðstöfunartekjur fólks, kaupmáttur, skiptir miklu meira máli en skattbyrði. Hvernig gengur okkur að auka ráðstöfunartekjur fólks? Krónurnar sem fólk hefur úr að spila í lok mánaðar skipta á endanum alltaf miklu meira máli en tæknilega talan skattbyrði. Í þessu samhengi hefur okkur gengið frábærlega og okkur hefur gengið alveg einstaklega vel á undanförnum árum þar sem við höfum farið í gegnum kjarasamninga þar sem sérstök áhersla hefur verið lögð á hækkun neðri enda launastigans sem hefur viðhaldið þeirri yfirburðastöðu sem við höfum haft að launajöfnuður er hvað mestur á Íslandi, ekki bara á Norðurlöndunum heldur í heiminum öllum.

Þrátt fyrir allt tal um raunskattsskrið þá búum við í samfélagi þar sem ráðstöfunartekjur fólks hafa vaxið jafnt og þétt og þær hafa vaxið meira en annars staðar. Þessu er öllu hægt að fletta upp á tekjusagan.is, sem er vefur sem ég átti frumkvæði að að setja saman til þess einmitt að geta tekið umræðu af þessu tagi á grundvelli raunupplýsinga.