152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:29]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa verið aðeins of sein að bregðast við. Mig langaði að benda hv. þm. Sigmari Guðmundssyni á að stjórnarmeirihlutinn er langt frá því að vera einhver stimpilpúði á stjórnarfrumvörp. Ef þau frumvörp eru skoðuð sem fóru til hv. efnahags- og viðskiptanefndar á síðasta kjörtímabili sést alveg skýrt að efnahags- og viðskiptanefnd kom með fjöldann allan af breytingartillögum um mál sem þar voru til umfjöllunar. Það er auðvitað rosalega vinsælt í pólitísku upphlaupi að tala um að stjórnarmeirihlutinn sé einhver stimpilpúði og að fólk mæti ekki til vinnu þó að það sitji ekki í þingsal og fari ekki í andsvör um ræður stjórnarandstæðinga sem eru í raun að halda sömu ræður og þeir buðu upp á í kosningabaráttunni.

Í 1. umr. fjárlaga var bara rosalega lítið nýtt sem kom fram. En ég hlakka til að taka umræðuna í nefndunum og ekki síður í 2. umr. hér í þingsal. Ég tek svo sannarlega undir það að þessi salur á að vera málstofa. Hér á að eiga sér stað dínamísk og skemmtileg umræða og ég er tilbúin að taka þátt í því.