152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[18:33]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir hans góðu ræðu sem lýsir hans fallega hjarta. En það er eitt að hafa svona fallegt hjarta og vera dýravinur og annað að þurfa að horfa upp á nákvæmlega þessa meðferð gagnvart fylfullum merum.

Í fyrsta lagi vil ég benda á að það kemur hvergi nokkurs staðar fram í okkar greinargerð að þetta sé fortakslaust allra bænda, eins skelfilegt og kemur fram í þessari mynd, heldur stendur: „Í myndinni eru færð rök fyrir því að ætla megi að slíkt harðræði tíðkist almennt við blóðtökuna hér á landi.“ Það var sérstaklega verið að miða við það að hér er um algerlega ótamdar hryssur að ræða sem verður með einhverju móti að koma inn í þennan blóðtökubás og oftar en ekki hlýtur það að vera með illu því að sannarlega eru þær ekki einu sinni lokkaðar þarna inn með epli. Ég vil byrja á að spyrja hv. þingmann um þetta.

Hv. þingmaður talaði um hvernig bændur þurfi að starfa og verði að starfa. Við gerum okkur öll grein fyrir því sem borðum dýraafurðir og annað slíkt hvert dýrin okkar fara og hver tilgangurinn er með því þegar bóndinn ræktar þau. Það er svolítið mikið annað en að eiga val um að fara svona með skepnurnar eins og verið að gera til að vinna þetta hormón úr þeim í sambandi við hryssurnar.

Í annan stað langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki tekið eftir því að við viljum vernda akkúrat þessa bændur og frelsa þá undan þessari búgrein með því að greiða þeim og aðstoða þá við að fara í eitthvað annað sem væri kannski pínulítið dýravænna.