152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[19:14]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, nú get ég ekki verið sammála hv. þingmanni. Ég þakka fyrir svarið vegna þess að ég veit pínulítið betur. Þessi starfsemi er ekki leyfisskyld heldur byggir hún á einhverri reglugerð sem felur í sér að þetta er flokkað undir starfsemi og rannsóknir í vísindaskyni. Þannig að þetta er ekki tengt við hrein og klár lög um dýravelferð. Það hefur komið fram og er skýrt að þrátt fyrir þá mynd sem við sáum — og hv. þm. Ásmundur Friðriksson nefndi nú áðan að þessum fulltrúum dýraverndarsamtakanna hefði verið boðið að taka myndir þar sem þetta færi öðruvísi fram, en það hefur því miður ekki verið gert. Ég var einmitt að fá sendingu frá dýravelferðarsamtökum um að það væri ósatt, þeir hefðu aldrei fengið slíkt boð. Því miður er það svo.

Það breytir ekki þeirri staðreynd að núna er verið að gera þetta og við skulum gefa okkur að þetta væri gert eins fallega og hugsast getur, sem ég veit ekki alveg hvernig er mögulegt, en það þarf engu að síður að þvinga hryssuna. Hún er ótamin, það þarf að binda upp á henni í hausinn, það þarf að ná í þessa bláæð og það þarf að dæla úr henni fimm lítrum af blóði og það er gert einu sinni í viku, átta vikur í senn. Og það er líka vitað að verið er að ná í vaxtarhormón folaldsins þannig að það liggur í hlutarins eðli að það getur ekki heldur verið gott fyrir folaldið.

En svona fyrir utan þetta allt þá ætla ég að segja við hv. þingmann, af því að hann hefur gjarnan talað um beikon, að það er sko algerlega satt að í morgun fór ég í Krónuna og ég hélt á beikonbréfi frá Ali og ég verð að viðurkenna að ég setti það aftur í hilluna og hugsaði með mér: Ég skal aldrei aftur kaupa beikon. En það er svo önnur saga, hv. þingmaður.