152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

stjórn fiskveiða.

86. mál
[16:21]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir þessar spurningar. Ég veit að hann hefur mikla innsýn inn í rekstur fyrirtækja, m.a. rekstur sjávarútvegsfyrirtækja, og talar hér af þekkingu. Mér finnast spurningarnar vera ákveðinn lykill í þessu máli.

Að seinni spurningunni. Ég vil bara draga fram strax að það er í stefnu Viðreisnar að fara markaðsleiðina, sem sumir nefna uppboðsleið. Þá er ákveðinn hlutur boðinn upp á hverju ári. Það er hægt að bjóða upp 3%, sem þýddi að við værum að gera tímabundna samninga til 33 ára, eða 4%, sem þýddi 25 ára samninga. En endurgjaldið á markaði á uppboði fyrir þessi 3, 4 eða 5% færi þá í auðlindasjóð eða Innviðasjóð. Við höfum ítrekað, bæði í kosningum og stefnu okkar, talað um uppbyggingu Innviðasjóðs, að tengja gjaldið uppbyggingu á þeim svæðum sem verið hafa í sjávarútvegi, fjárfesta í innviðum þar. Þess vegna höfum við nefnt Innviðasjóð og sagt: Tengjum þetta við þau svæði þar sem verið hefur sjávarútvegur. Það eru ekki allir sammála okkur og segja að þetta eigi allt að fara í ríkissjóð. Ég tel alla vega að þetta sé skynsamlegt m.a. til þess að það verði líka hluti af sáttinni að þetta fari í innviðauppbyggingu. Við sjáum þetta líka annars staðar, í fiskeldinu að hluta til, þar er tilbrigði við sama stef. En ég held að þetta yrði gott.

Varðandi það að samþjöppunin verði mest á óvissutímum þá veit ég ekki hvort hægt sé að tala um að mikil óvissa sé hjá útgerðarfyrirtækjum þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sjá um málin, miklu frekar tengist óvissan byggðaþróun, þ.e. hvernig byggðaþróunin, fólksfækkun á ákveðnum svæðum, leiðir til þess að það er þrýstingur ekki síst hjá minni útgerðarfyrirtækjum og minni vinnslum að sameinast. En ég held að það sé í sjálfu sér (Forseti hringir.) af hinu góða að fyrirtæki sameinist og reyni að ná fram hagræði í rekstri. Það hefur áhrif á aðra þætti, (Forseti hringir.) eins og það hvernig við nýtum auðlindina sem slíka, fáum sem mesta framleiðni. Ég kem að öðrum þáttum í seinna andsvari.