152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[22:28]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Nú verður örugglega einhver metingur milli ráðherra um hvar er mesti glundroðinn, það má ætla að svo verði, en ég er ekki endilega viss um að það sé í menntamálaráðuneytinu þó að verið sé að taka málefni þess ráðuneytis og dreifa menntamálunum á þrjú ráðuneyti og svo er verið að dreifa menningarmálunum yfir á enn eitt ráðuneyti, sýnist mér. Svona fljótt á litið, þegar ég horfi á þessa þingsályktunartillögu og ég er búin að setja svona gula yfirstrikun, þá sýnist mér menningar- og viðskiptaráðuneytið vera það ráðuneyti sem hefur svona mesta blöndu. Við erum að tala um að málefni frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti er tilgreint hérna en þó er annars staðar tilgreint að það sé eiginlega engin breyting í fjármála- og efnahagsráðuneyti. En það er engu að síður tilgreint hér að menningar- og viðskiptaráðuneytið sé að taka við málum þaðan. Mér sýnist það vera vinningshafinn.