152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

upphæð barnabóta.

[14:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í nýjum gögnum frá OECD um barnabætur kemur fram að hjón og sambúðarfólk með tvö börn á sama aldri og hafa tekjur mitt á milli meðallauna og fátæktarmarka fá lökustu barnabætur hér á landi af öllum aðildarríkjunum sem á annað borð greiða barnabætur til hjónafólks. Einungis þjóðir sem búa við afar slök velferðarkerfi standa verr en við. Þetta er sannarlega afleit útkoma fyrir Ísland sem segist vilja vera með norrænt velferðarkerfi og lífskjör sem séu samkeppnishæf við hinar norrænu þjóðirnar. Efling stéttarfélag fjallaði um þetta á dögunum í fréttabréfi sínu. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra brást við fréttum RÚV af málinu með því að segja að Ísland sé með há útgjöld til annarra þátta fjölskyldumála, einkum í rekstri leikskóla og í fæðingarorlof, og því séu barnabæturnar ásættanlegar. Þau rök halda auðvitað engu vatni enda er það svo að hinar norrænu þjóðirnar eru með góða leikskóla og löng og vel fjármögnuð fæðingarorlofskerfi en einnig mun betra barnabótakerfi en við.

Hér er staðan sú að þegar lægst launaða fólkið vinnur meira til að reyna að bæta hag barna sinna þá hverfa barnabæturnar hratt á móti því að þær byrja að skerðast við lægstu laun. Er hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra ekki sammála því að betri barnabætur fyrir fleiri gætu greitt fyrir kjarasamningum sem standa yfir eða eru fram undan? Eða er hæstv. ráðherra sammála því sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra segir, að barnabætur hér á landi séu ásættanlegar?