152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

Barna- og fjölskyldustofa og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.

188. mál
[17:35]
Horfa

félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Barna- og fjölskyldustofu og lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Frumvarpinu er ætlað að tryggja réttarstöðu ríkisstarfsmanna sem flytjast til þessara nýju stofnana nú um áramót.

Í tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands er gert ráð fyrir að nýtt mennta- og barnamálaráðuneytið fari með málefni Barna- og fjölskyldustofu og er frumvarpið lagt fram í samráði við mennta- og barnamálaráðherra. Nýju stofnanirnar tvær taka til starfa þann 1. janúar 2022 í samræmi við lög nr. 87/2021 og nr. 88/2021, sem samþykkt voru í þessum sal 11. júní sl.

Innan Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála verða eftirlitsverkefni á málefnasviði félagsmálaráðuneytisins sameinuð og samræmd. Grunnur stofnunarinnar er Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar sem í dag er ráðuneytisstofnun sem starfar undir félagsmálaráðuneytinu. Ný stofnun tekur jafnframt við eftirlitsverkefnum frá öðrum stjórnvöldum, þar á meðal frá Barnaverndarstofu. Þá mun stofnunin hafa eftirlit með samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Barna- og fjölskyldustofa tekur við stærstum hluta þeirra verkefna sem nú er sinnt af Barnaverndarstofu. Stofnuninni er ætlað víðtækt ráðgjafar- og stuðningshlutverk, einkum þegar kemur að barnavernd og samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Hæstv. forseti. Um næstu áramót verða Barnaverndarstofa og ráðuneytisstofnunin Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar því lagðar niður og hinar nýju stofnanir taka við verkefnum þeirra. Mikill mannauður og fagþekking er til staðar hjá starfsmönnum þessara stofnana og mikilvægt að engir hnökrar verði á flutningi þeirra til hinna nýju stofnana. Með frumvarpinu er því lagt til að bætt verði við nýjum ákvæðum til bráðabirgða við lög um Barna- og fjölskyldustofu og lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála sem fjalla um réttarstöðu starfsmanna Barnaverndarstofu og Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar þegar nýju stofnanirnar taka til starfa. Frumvarpið mælir þannig fyrir um að störf hjá Barnaverndarstofu og Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar verði flutt til hinna nýju stofnana með yfirtöku gildandi ráðningarsamninga við þá starfsmenn sem eru í starfi við gildistöku laga nr. 87/2021 og laga nr. 88/2021, sem mun gerast hinn 1. janúar 2022. Þar sem frumvarpið snýr að því að skýra og tryggja réttarstöðu ríkisstarfsmanna í tengslum við breytingar á stofnanafyrirkomulagi sem taka gildi nú um áramót treysti ég á góða samvinnu við hv. þingmenn um afgreiðslu málsins fyrir áramót.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til velferðarnefndar.