152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:50]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanni fyrir fyrirspurnina. Jú, það er akkúrat núna. Við vitum að það er mikið álag á kerfinu varðandi sjúkraþjálfun og það er líka gífurlegt álag á kerfinu í sambandi við liðskiptaaðgerðir. Biðlistarnir hafa margfaldast og þetta er að verða ófremdarástand. Þegar maður talar við einstakling, sem er búinn að vera á biðlista og veit að hann getur farið til útlanda í aðgerð en kemst ekki að vegna þess að hann er með undirliggjandi sjúkdóm og út af Covid og öllu — hann gæti, liggur við, labbað yfir götuna því að hann býr rétt hjá Klíníkinni, en hann fær ekki að fara þangað, sem er þó þrisvar sinnum ódýrara en hitt — þá erum við á rangri leið. Þá erum við, eins og ég segi, að spara aurana og kasta krónunni, sem er arfavitlaust. Þetta er eitt af því sem ég segi að við verðum að taka á. Við getum ekki verið að framleiða öryrkja, að neita fullfrískum manni um svona þjónustu og gera hann að öryrkja. Svo ætlum við með hinni hendinni að ná honum aftur, að koma í veg fyrir að hann verði öryrki. Byrjum bara á því að lækna hann.