152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[00:12]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í umræðu um fundarstjórn forseta fyrr í kvöld upplýsti 2. varaforseti að annar forseti væri að störfum, sem er reyndar í einangrun vegna Covid, og tæki ákvörðun um framhald funda. Við höfum óskað eftir því að þessum fundi ljúki nú um miðnætti, að gert verði hlé á honum, enda er ótækt að nefndarfólk í hv. fjárlaganefnd sé hér að mæla fyrir nefndarálitum. Ekki er um að ræða framhald umræðu eða umræðu almennra þingmanna sem ekki hafa komið að þessu starfi heldur mæla nefndarmenn hér fyrir stórum málum við 2. umr. Við höfum óskað eftir því að umræddir nefndarmenn fái að mæla fyrir þessum nefndarálitum í dagsljósi, fyrir augum almennings sem á rétt á því að fá að vita á vökutíma hvað er að gerast með peninga sem hann á. Ekkert hefur verið brugðist við þeirri ósk okkar að hlé verði gert á fundi. Svo virðist sem húsið sé stjórnlaust, að sú sem er 2. varaforseti, sem á að vera hér með völdin, sé ekki með völdin heldur einhver sem ekki er í húsi, maður sem er forseti Alþingis en getur ekki sinnt störfum sínum vegna þess að hann er í einangrun. Ég verð því að óska eftir því að hingað komi einhver sem hefur raunveruleg völd og getur tekið stjórn á dagskrá fundarins. Þetta er ekki í boði. Við verðum að óska eftir því að borin sé virðing fyrir Alþingi Íslendinga með fullnægjandi hætti og að einhver taki stjórn á þessari dagskrá.