152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[01:56]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég stend hér fyrir hönd hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur, í 3. minni hluta fjárlaganefndar, og ætla að flytja nefndarálit hennar. Áður en ég vík að efnisatriðum nefndarálitsins finn ég mig knúinn til að segja nokkur orð með hliðsjón af samhengi hlutanna og með tilliti til þess við hvaða aðstæður við erum að ræða þessi fjárlög. Ég held að það geti hver maður séð, af þeim nefndarálitum sem hafa komið frá minni hlutanum og þeim breytingartillögum sem minni hlutinn gat sameinast um, að þeir þingmenn hafa verið að gera sitt allra besta í þessari nefnd. Þess vegna eru það ofboðslega kaldar kveðjur frá hæstv. fjármálaráðherra þegar látið er eins og það sé ægileg frekja að biðja um að þingmenn, fulltrúar í þessari nefnd, fái að flytja nefndarálit sín í dagsljósi. Tekin var pólitísk ákvörðun um að kjósa að hausti. Meirihlutaflokkarnir, stjórnarmeirihlutinn, tóku sér átta vikur í stjórnarmyndunarviðræður og afleiðingin er sú að ekkert hefur mátt út af bregða í fjárlagavinnunni. Málið hefur allt verið unnið undir mikilli tímapressu og lítill tími gefist til að taka á móti umsagnaraðilum og óska eftir upplýsingum frá einstökum ráðuneytum. Undirbúningstími fyrir fundi fjárlaganefndar hefur verið mjög takmarkaður og nefndarmenn þurftu að losa sig undan nær öllum öðrum skyldum í þinginu til þess eins að sinna nefndinni. Með hliðsjón af því er ofboðslega lágkúrulegt að láta eins og það sé frekja að fara fram á að það verði pólitísk umræða um fjárlögin, pólitísk umræða fyrir opnum tjöldum í dagsbirtu, sem almenningur á fullan rétt á að geta fylgst með sem og fjölmiðlar.

Að því sögðu ætla ég að lesa upp nefndarálit 3. minni hluta. Það er kannski rétt að hlaupa yfir þau atriði sem lúta að tímapressunni sem ég fór yfir núna og víkja beint að efnisatriðum frumvarpsins og nefndarálitsins.

Í greinargerð fjárlagafrumvarpsins má finna eftirfarandi klausu þar sem áhersla er lögð á litlar breytingar frá fjármálaáætlun síðasta vors:

„Við undirbúning frumvarpsins hefur hins vegar verið gengið út frá því meginviðmiði að ekki verði efnt til annarra teljandi nýrra eða aukinna útgjalda en þeirra sem tengjast aðstæðum af völdum kórónuveirufaraldursins. Ekki er heldur um að ræða miklar hreyfingar á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins í tengslum við áform um breytingar á skattkerfinu, fyrir utan tímabundnar ráðstafanir vegna faraldursins sem ganga til baka.“

Þetta er athyglisvert í ljósi þess að frá því að fjármálaáætlun kom út í vor hefur efnahagsstaðan breyst umtalsvert. Skuldir ríkissjóðs á næsta ári voru þá áætlaðar um 42% af landsframleiðslu. Nú er talið að þær verði 35%. Í millitíðinni var ný ríkisstjórn mynduð þar sem átta vikur voru nýttar í að smíða stjórnarsáttmála þar sem svo miklar breytingar voru boðaðar á stefnu ríkisstjórnarinnar á komandi kjörtímabili að stokka þyrfti upp alla stjórnsýsluna til að ráða við umfangið.

Fjármálaráð vekur athygli á þessu misræmi í orðræðu stjórnarliða, texta stjórnarsáttmála og svo þeim tölum sem birtast í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar út kjörtímabilið. Haft er á orði að samhljóm skorti milli stjórnarsáttmála og fjármálastefnu. Þetta er í samræmi við þá mynd sem birtist í framlögðu fjárlagafrumvarpi.

Fjárlög nýrrar ríkisstjórnar eru fyrsti prófsteinninn á það hvort mark sé takandi á loforðum hennar. Nú hefur ríkisstjórnin sýnt á spilin varðandi fyrsta fjórðung kjörtímabilsins og virðist ekki mikið að marka þau loforð. Umfang aðgerða ríkissjóðs á síðustu tveimur árum endurspegla nauðsynleg viðbrögð við heimsfaraldri. Þau endurspegla ekki stefnu eða sókn. Nú tekur við þriðja árið þar sem viðbragðsstjórnmál ráða för og lítið svigrúm er til nauðsynlegra úrbóta á grunnkerfum hins opinbera til varnar velferð eða til sóknar á nýjum tímum.

Þetta endurspeglar grundvallaráherslur stjórnvalda síðustu ár. Landinu er og hefur verið stýrt af ríkisstjórn sem telur að ríkið eigi aðeins að sinna hlutverki öryggisnets. Ríkissjóður sé nokkurs konar áhorfandi en ekki gerandi í efnahagslífinu og eigi einvörðungu að stíga inn í neyð í viðbragði. Hagstjórnarhlutverk snúist fyrst og fremst um að stíga inn þegar allt fellur saman en til baka þegar verðbólga kraumar og spenna skapast. Lítið fer fyrir umræðu um mikilvægi þess að móta markaði og rammann utan um þá til að breyta undirliggjandi ójafnvægi í kerfinu.

Þetta viðhorf ber með sér þá söguskýringu að velferðarkerfin okkar hafi fallið af himnum ofan. Staðreyndin er auðvitað sú að velferðarkerfin voru byggð sérstaklega upp til að marka stefnu ríkisins í samfélaginu og þau þarfnast stöðugrar endurskoðunar. Velferðarsamfélagið er afleiðing mótunar ríkisins á samfélaginu. Það byggir á stefnu og sýn um hlutverk hins opinbera, skilningi á því að hið opinbera verður að vera með yfirsýn og getu til samhæfingar í samfélaginu til að koma í veg fyrir að það myndist gloppur, að fólk falli á milli kerfa og verði af tækifærum. Það þarf að tryggja virkni allra og möguleika til þátttöku í samfélaginu. Þetta er bráðnauðsynleg undirstaða fyrir atvinnulífið og alla anga samfélagsins. Um þessa hugsun, það sem ég var að lýsa hérna, snýst samfélagssáttmáli velferðarríkisins, velferðarþjóðfélagsins, að við samtryggjum okkur fyrir áföllum með því að greiða inn í kerfin okkar og fá út úr þeim eftir aðstæðum og þörf.

Nú kveður við svolítið annan tón. Sú rökvilla hefur einhvern veginn orðið ofan á í umræðu um velferðarsamfélagið, og jafnvel í orðræðu stjórnmálaflokka sem telja sig vera málsvara jafnaðarstefnu og velferðar, að hægt sé að viðhalda þessum mikilvægu kerfum okkar með miklu minni greiðslum inn í samtryggingu og án virkrar þátttöku ríkisins í samfélaginu. Birtingarmynd þessara stjórnmála er að finna víða í því fjárlagafrumvarpi sem hér er til afgreiðslu. Fjármálaáætlunin sem þetta fjárlagafrumvarp byggir á gerir ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verði þær lægstu á öldinni undir lok kjörtímabilsins. Hið sama á við þegar við skoðum hið opinbera í heild.

Þetta bendir til þess að ríkisstjórnin ætli að firra sig ábyrgð á stóru verkefnunum okkar tíma. Það sem meira er, þetta er í hrópandi mótsögn við grundvallarprinsippin í rekstri velferðarsamfélags. Það byggist nefnilega á inngreiðslum í kerfið. Hvernig munu velferðarkerfin okkar geta staðist þær stóru áskoranir sem fram undan eru, sem nú þegar eru farnar að valda vandræðum, ef staða ríkissjóðs undir lok þessa kjörtímabils á að vera verri á tekjuhliðinni en hún var fyrir núverandi áfall, kórónuveiruna?

Velferðarsamfélag sem byggist á virku ríki, virkri beitingu ríkisvalds, kallar auðvitað á ríkisstjórn sem tekur ábyrgð á efnahagsástandinu og ójafnvæginu sem getur skapast. Þrátt fyrir viðsnúning í efnahagslífinu liggur fyrir að slíkt ójafnvægi hefur skapast, sér í lagi á eignamörkuðum, sem hefur lekið út í verðlagið í landinu. Þetta er m.a. afleiðingin af því hvernig aðgerðum ríkisstjórnarinnar var háttað í Covid.

Nær alla viðbótarverðbólgu í dag umfram verðbólgumarkmið má rekja til verðhækkana á íbúðamarkaði. Hvers konar samfélag er það eiginlega? Hvers konar velferðarþjóðfélag er það sem lítur fram hjá slíkri þróun? Ríki getur ekki talist alvöruvelferðarríki ef það telur sig engin vopn hafa á hendi til að bregðast við krísu á markaði hvað varðar húsaskjól fyrir venjulegt fólk, markaði sem er skapaður með lögum og reglum í landinu, skapaður af okkur, löggjafanum.

Þessi mistúlkun á mikilvægi ríkisaðgerða í velferðarsamfélagi hefur líka lekið út í samskipti launafólks og atvinnurekenda í landinu. Fyrirtæki, sérstaklega lítil og meðalstór fyrirtæki þar sem launakostnaður er meiri hluti rekstrarkostnaðar, eiga allt sitt undir virku velferðarkerfi og aðgerðum hins opinbera sem draga m.a. úr þörf á launahækkunum. Norræn velferðarsamfélög sem byggjast á öflugu velferðarríki í samvinnu við einkaframtakið miða einmitt að jákvæðu viðmóti fyrirtækja til ríkisaðgerða, þá sér í lagi í kjarabótum sem tryggja jafnvægi á vinnumarkaði.

Sú ríkisstjórn sem nú situr og þeir flokkar sem hér hafa ráðið ríkjum undanfarin ár virðast einhvern veginn hafa rofið þessa undirstöðu velferðarríkisins með stefnuleysi og afstöðuleysi í kjara- og vinnumarkaðsmálum. Fáar ef nokkrar tillögur hafa komið frá ríkisstjórninni á síðustu árum hvað varðar kjaramál nema þegar það stefnir í verkföll. Þetta er alltaf svona viðbragð. Svo er kvartað undan ójafnvægi á vinnumarkaði og þá er stéttarfélögunum auðvitað alltaf kennt um.

Ríkisstjórnin virðist vera að „lenda í verðbólgu“ sem bindur hendur hennar til aðgerða í nauðsynlegum velferðarúrbótum og sóknarfjárfestingu fyrir framtíðarkynslóðir. Það er látið eins og það sé almenningi að kenna og annarra að leysa úr því í staðinn fyrir að horfa bara á hlutverk sitt sem geranda, sem mótandi í samfélaginu og endurskoða undirstöður efnahagslífsins sem valda þessari verðbólgu. Í staðinn fyrir þetta er verðbólgan notuð sem afsökun fyrir aðgerðaleysi.

Alvarlegasta merkið er auðvitað staða viðkvæmra hópa í samfélaginu. Umtalsvert hefur farið fyrir umræðu um tekjujöfnuð í landinu en í þeim tölum er sjaldan litið til þeirra hópa sem hljóta einmitt ekki tekjur á almennum markaði og hafa engan verkfalls- og samningsrétt. Þá ber að líta til þess að grunngreiðslur til öryrkja hafa dregist langt aftur úr launaþróun í landinu. Fjárlög eftir fjárlög, kjörtímabil eftir kjörtímabil eykst kjaragliðnun milli launa og lífeyris, milli öryrkja og fólks á almennum markaði, milli ellilífeyrisþega, sérstaklega þeirra lægst launuðu, og fólks á almennum markaði og nú er svo komið að það munar 90.000 kr. á grunnlífeyri öryrkja og lægstu launum í landinu. Við þetta bætist að ríkisstjórnir síðasta áratugar hafa haldið aftur af hækkun frítekjumarks öryrkja sem þýðir á mannamáli að öryrkjar fá ekki einu sinni tækifæri til að afla sér almennilegra tekna, atvinnutekna, til að bæta upp fyrir samningsleysi sitt við ríkið. Við sjáum að í stjórnarsáttmálanum er talað um þetta, þar er talað um að auka þurfi virkni öryrkja o.s.frv. En þegar við í stjórnarandstöðunni leggjum til lausnir, eins og að hækka frítekjumark atvinnutekna hjá öryrkjum, sem hefur verið ein helsta krafa Öryrkjabandalagsins, eitthvað sem það bendir á í hverjum einustu fjárlögum, er ekkert hlustað. Þá er það hunsað. Þannig að þetta er allt í orði. Höfum í huga að frítekjumark atvinnutekna hjá öryrkjum væri tvöfalt miðað við núverandi upphæð ef það hefði fylgt verðlagsþróun í landinu. Það hefur ekki hreyfst síðan árið 2010.

Ef litið er til stöðu eldra fólks í landinu sem reiðir sig á greiðslur frá Tryggingastofnun þá finnur það náttúrlega fyrir því að vegna úrelts skerðingarkerfis hverfa greiðslurnar frá Tryggingastofnun um leið og fólk tekur eitthvað út úr lífeyrissjóði umfram 25.000 kr. Þá byrja grunngreiðslurnar frá TR að skerðast. Öryrkjum er enn eitt árið haldið í spennitreyju fátæktar á þeim forsendum að það sé verið að endurskoða kerfið. Það er alltaf talað um heildarendurskoðun, að mikilvægt sé að auka virkni fólks og draga úr nýgengi örorku, um það snúist stefna stjórnvalda í velferðarríki okkar. En stenst þetta?

Höfum í huga að hæsta nýgengi örorku er meðal kvenna á aldrinum 55 ára og eldri. Það má m.a. rekja til vinnu og fjölskylduálags. Hins vegar er mjög hátt nýgengi örorku meðal ungs fólks, m.a. vegna andlegra veikinda. Stór hluti kvennanna vinnur í umönnunar- og heilbrigðisþjónustu þar sem ríkið er risastórt hreyfiafl þegar kemur að vinnuaðstæðum. Hjúkrunarheimilin í landinu eru, þrátt fyrir neyðarviðbót við 2. umr. þessa fjárlagafrumvarps, undirmönnuð og vanfjármögnuð og verða það áfram. Alvarleg vanræksla birtist í fjármögnun á þjóðarsjúkrahúsi okkar landsmanna þar sem meiri hluti fjárlaganefndar virðist ætla að hunsa skýr skilaboð Landspítalans sem og Sjúkrahússins á Akureyri um nauðsynlegt viðbótarfjármagn til að viðhalda óbreyttum rekstri upp á 2 milljarða kr.

Þau rök eru færð fyrir þessu 2 milljarða kr. gati að hefðbundnar greiðslur fyrir reiknaðan raunvöxt sem til þessara heilbrigðisstofnana hafa borist til að bregðast við fólksfjölgun og öldrun þjóðar, lýðfræðilegum þáttum, megi finna inni í greiðslu fyrir betri vaktavinnutíma heilbrigðisstarfsfólks. Til frekari útskýringar er röksemdafærslan þessi: Ríkið er sem sagt að bregðast við auknu álagi meðal heilbrigðisstarfsfólks með því að draga úr vinnutíma eins og á Norðurlöndunum í kringum okkur. Til að ráða við breyttan vinnutíma þarf að fjölga stöðugildum og fyrir það þarf að borga. Markmiðið með betri vaktavinnutíma er skýrt; að draga úr álagi. En fyrir þetta minna álag er sem sagt greitt með peningum sem myndu annars nýtast til að bregðast við auknu álagi sem fylgir fólksfjölgun og öldrun þjóðarinnar, sem kallast reiknaður raunvöxtur. Hér á sem sagt að núlla út þessi áhrif betri vaktavinnutíma á fyrsta árinu. Og á hverjum bitnar þetta skilningsleysi? Jú, það bitnar á konunum sem ég nefndi áðan, sem starfa í heilbrigðiskerfinu og velferðarþjónustu víða um land og eru undir miklu álagi. Þarna er mest nýgengi örorku. Þetta eru sömu konurnar og átti að minnka nýgengi örorku hjá.

Frumvarpið um að fella sálfræðiþjónustu undir sjúkratryggingakerfið er enn þá ófjármagnað í þessum fjárlögum. Og miðað við það hvernig fjármálaráðherra talaði áðan má hann ekki til þess hugsa að skipta um skoðun á því. Settar eru 400 millj. kr. í geðheilbrigðismál sem er auðvitað ekki há upphæð í samhengi við umfang vandans og langvarandi vanfjármögnun geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi. Við þetta bætist að það er enginn skilningur á mikilvægi þess að hækka frítekjumark öryrkja til að auka virkni í þessum hópi. Hér er ekki verið að styrkja fólk, virkja það, þrátt fyrir yfirlýsingar um að aukin áhersla á minna nýgengi örorku sé ástæðan fyrir því að það fólk sem er nú þegar á örorku þurfi áfram að líða skort. Þetta birtist skýrt í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í fjárlögunum sem sérstaklega er farið yfir í umfjöllun hér síðar þar sem lægra nýgengi örorku er notað sem ástæða til að flytja 600 millj. kr. úr málaflokknum í nafni aðhalds í stað þess að nýta það fjármagn sem losnar vegna lægra nýgengis til að styrkja grunngreiðslur úr kerfinu.

Sú brotalöm sem birtist hvað flestum í dag er staðan á húsnæðismarkaði. Þrátt fyrir gífurlega hækkun íbúðaverðs á síðustu árum og augljósa markaðsbresti á þeim markaði er engin ný úrræði að finna í fjárlagafrumvarpinu. Þessar húsnæðisverðshækkanir koma illa við almenning, fyrirtæki og hið opinbera, enda eru launa- og verðlagshækkanir, sem rekja má til fasteignaverðshækkana, ein stærsta útgjaldabreytan hjá ríkissjóði. Illa lendir þessi hagstjórn á sveitarfélögunum sem reka mannaflsþunga þjónustu þar sem launakostnaður er yfir helmingur útgjalda. Afstöðuleysi þessarar ríkisstjórnar á íbúðamarkaði hefur þannig ýtt undir vítahring verðhækkana sem enn stendur órofinn eftir vinnslu þessara fjárlaga.

Dæmi um áhrif aðgerðaleysis í húsnæðismálum á Íslandi í þessu fjárlagafrumvarpi er að þar kemur fram að endurskoða þurfti áætluð útgjöld ríkissjóðs vegna verðbólgu í fyrra. Verðbólgan var 1,7% hærri í fyrra en við var búist. Viðbótarverðbólgunni fylgir kostnaður upp á 3,6 milljarða kr. Það er jafn há upphæð og ríkið leggur í fjárfestingu í almenna íbúðakerfinu hér á landi, í fjárfestingu í húsnæði, hagkvæmt húsnæði. Kerfi sem gæti haldið aftur af umræddum hækkunum í framtíðinni, til að komast fram fyrir þessar hækkanir.

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við 1. umr. um fjárlagafrumvarpið voru á þann veg að ýmislegt myndi breytast í meðförum fjárlaganefndar. Eftir tveggja vikna vinnu er staðan þó lítið breytt. Það bættust 13 milljarðar við frumvarpið eftir tillögu frá ríkisstjórninni. 60% þess fjármagns eru vegna Covid-aðgerða, 25% vegna neyðaraðstoðar inn á hjúkrunarheimilin og samningsbundinnar upphæðar fyrir NPA sem hefði átt að koma strax fram í frumvarpinu. 6%, eða rúmar 700 millj. kr., eru vegna málefna úr stjórnarsáttmála. Svipuð upphæð, eða 500 milljónir, er lögð til vegna breytinga á Stjórnarráðinu. Stjórnarsáttmálinn birtist okkur í þessu frumvarpi sem sambærileg upphæð inn í stjórnsýslu nýrra ráðuneyta og til málefna í heild sinni.

Á Íslandi ríkir almenn samstaða um öflugt velferðarríki en upplifunin af lestri fjárlagafrumvarpsins er sú að hér sé komin ríkisstjórn sem hafi erft velferðarkerfi sem hún skilur ekki. Velferðarkerfi sem skapa grunn velferðarsamfélagsins þurfa að taka sífelldum breytingum. Annars lendum við með óyfirstíganleg göt sem þarf að brúa. Þessar brotalamir þarf að laga þegar þær birtast því hættan er sú að grunnurinn veikist sem dregur úr getu fólks til að vera virkt í samfélaginu, dregur úr samstöðu milli þjóðfélagshópa og fækkar þeim einstaklingum sem geta sótt fram. Við skuldum hvert öðru sem samfélag að styrkja betur grunninn sem við vöxum öll á. Við skuldum hvert öðru að uppfæra samfélagssáttmálann um velferðarríki með reglulegu millibili.

Víkjum við þá að umfjöllun um einstök málefnasvið. Fyrst að nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum. Aukinni áherslu stjórnvalda á nýsköpun og þekkingargreinar á undanförnum árum ber að fagna. Þó liggur fyrir að strax árið 2023 falla aftur framlög í málaflokkinn, lækka þá um þriðjung miðað við tölur í frumvarpinu. Í þessum málaflokki má einnig sjá afleiðingarnar af flatri aðhaldskröfu ríkisstjórnarinnar. Málaflokkurinn hljóðar upp á 30 milljarða og er að uppistöðu sjóðir sem fjármagn er veitt úr til nýsköpunar- og þekkingargreina. Sjálfur reksturinn í málaflokknum sem rúmast innan stjórnsýslunnar er bara brot af þessari upphæð. Aðhaldskrafan sem lögð er á málaflokkinn veldur því fyrst og fremst að framlag í sjóðinn minnkar, í stað þess að ýta undir aukna hagræðingu í stjórnsýslunni. Þetta er dæmi um mjög ómarkvissa leið til að hagræða í ríkisrekstri, enda ekki um annað að ræða en hreinan niðurskurð.

Það kostar að leita leiða til að hagræða. Stundum þarf t.d. að fjárfesta í lausnum sem draga úr rekstrarkostnaði til langs tíma. Þetta kallar á kostnað til að byrja með. Ef stjórnvöldum er alvara þegar talað er um að gæta aðhalds í ríkisrekstri þarf að sinna því aðhaldi á skipulagðan hátt, fara yfir hvaða verkefni það eru sem eru til þess fallin að mæta hagræðingunni í stað þess að setja flata aðhaldskröfu á öll svið. Það virkar ekki til langs tíma, skapar bara kostnað einhvers staðar annars staðar.

Þá að sveitarfélögum og byggðamálum: Nú hefur komið fram að 9 milljarða kr. vanti upp á í málflokki fatlaðs fólks hjá sveitarfélögunum, bara til þess að sveitarfélögin geti sinnt lögbundnum skyldum á því sviði. Rekja má vandann til yfirfærslu málaflokksins á sínum tíma frá ríki til sveitarfélaga þar sem kostnaðurinn við innleiðingu á þjónustu við fatlað fólk var vanmetinn alveg gríðarlega. Það vekur athygli að þrátt fyrir að þetta mat liggi fyrir, sem og umsagnir sem bárust frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Öryrkjabandalaginu, er engra leiða leitað í frumvarpinu til að draga úr vanfjármögnun málaflokksins. Stóran hluta af halla margra sveitarfélaga í dag má rekja til aukaframlaga vegna málaflokks fatlaðra. Í því samhengi má benda á að samkvæmt fjármálastefnu stjórnvalda hafa afkomu- og skuldahorfur sveitarfélaganna versnað út kjörtímabil fjármálastefnunnar frá því að fjármálaáætlunin var kynnt síðasta vor, á meðan staða ríkissjóðs hefur batnað. Það er stórt hagsmunamál fyrir sveitarfélögin að þessi skekkja sem rekja má til vanfjármögnunar málaflokks fatlaðs fólks verði leiðrétt enda bitnar vanfjármögnunin á málaflokknum sjálfum, rekstri annarra eininga sveitarfélaganna og rekstrarstöðu þeirra almennt.

Ríkissjóður mun veita 1,1 milljarði kr. til sveitarfélaganna í gegnum jöfnunarsjóð til að fylgja eftir farsældarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar. 3. minni hluti vill vekja athygli á mikilvægi þess að endurskoðun á kostnaði vegna úrræðisins eigi sér stað til að tryggja að hér fari ekki aftur af stað sama atburðarás og í málaflokki fatlaðs fólks. Á sínum tíma, þegar málaflokkur fatlaðs fólks var fluttur yfir til sveitarfélaga, átti að endurmeta kostnaðinn með reglulegu millibili. Því endurmati hefur þó ekki fylgt nægjanlegt fjármagn, eins og við sjáum í viðvarandi hallarekstri þegar kemur að málefnum fatlaðs fólks hjá sveitarfélögum.

Nú að almanna- og réttaröryggi: Vakin er athygli á því að flöt aðhaldskrafa upp á 2% er lögð á löggæsluna í landinu til samanburðar við 0,5% aðhaldskröfu á heilbrigðisþjónustu. Hér má aftur merkja skaðleg áhrif af flatri aðhaldskröfu án þess að samhengi hlutanna sé skoðað. Langstærsti kostnaðarliður löggæslu er launakostnaður og lítið svigrúm er til almenns aðhalds án þess að skerða þjónustu og þessa starfsemi alla. Eðlilegra væri að miðað væri við sömu aðhaldskröfu og í heilbrigðisþjónustu ef gripið er til flatrar aðhaldskröfu yfir höfuð. Meiri hluti nefndarinnar fór þá leið að leiðrétta aðhaldskröfu á málaflokkinn með viðbótarfjármagni en í framtíðinni væri réttast að breyta aðhaldskröfunni á málaflokkinn og taka bara aðhaldskröfur og fyrirkomulag þeirra almennt til gagngerrar endurskoðunar.

Þá að menningu, listum, íþrótta- og æskulýðsmálum. Nú liggur fyrir að sóttvarnaráðstafanir hafa bitnað með mjög misjöfnum hætti á atvinnugreinum. Fjöldi Covid-úrræða rennur út um áramótin og í því samhengi vekur athygli að framlag í menningarsjóði fer minnkandi milli ára á þeim forsendum að Covid sé að renna sitt skeið, þegar það liggur algerlega í augum uppi að umtalsverðar sóttvarnaráðstafanir, það var verið að herða þær síðast í dag eða í gær, bitna hart á menningarlífinu. Frá árinu 2020, þegar bætt var í sjóðina, stefnir í 1 milljarðs kr. samdrátt. Milli áranna 2021 og 2022 er samdrátturinn 400 millj. kr. Þetta er í algerri andstöðu við veruleika menningargeirans sem stendur enn og mun áfram standa frammi fyrir verulegum skakkaföllum vegna opinberra sóttvarnaaðgerða.

Meiri hlutinn hefur samþykkt að veita 1 milljarð kr. til veitingageirans vegna Covid- ráðstafana, sem er skiljanlegt og 3. minni hluti styður heils hugar. En í því samhengi sætir það furðu að ekki sé gripið til samsvarandi ráðstafana fyrir menningargeirann heldur skorið niður það fjármagn sem til hans rennur milli ára. Í breytingartillögu minni hluta er lagt til að fjármögnun til samninga og styrkja á sviði lista og menningar verði viðhaldið milli ára.

Þá að fjölmiðlun. Merkja má samdrátt í styrkjum til einkarekinna fjölmiðla á milli ára í fjárlagafrumvarpinu á sama tíma og fjármagn til Ríkisútvarpsins eykst um 8% milli ára. Aukin innheimta tekna skýrir aukna fjárveitingu til Ríkisútvarpsins sem er skiljanleg. Aftur á móti er mikilvægt að tryggja jafnvægi á fjölmiðlamarkaði og ljóst að staða einkarekinna fjölmiðla er ekki góð. Það er lýðræðismál að tryggja fjölbreytta umfjöllun og standa vörð um fjölbreytni fjölmiðla.

Þá að sjúkrahúsþjónustu. Ljóst er af framlögðu frumvarpi að um 2 milljarða kr. gat verður að ræða í fjárframlagi til sjúkrahúsþjónustu á næsta ári. Nýtt fjármagn sem rennur til Landspítalans kemur til vegna reksturs hágæslurýma og endurhæfingarrýma á Landakoti til að samræma viðbúnað heilbrigðiskerfisins við heimsfaraldrinum. Þessari fjárveitingu fylgja aukin verkefni og hún er þannig ekki til þess fallin að bæta undirliggjandi rekstrarstöðu Landspítalans þótt hér sé vissulega stigið jákvætt skref til að styrkja heilbrigðisþjónustuna í landinu. Fram hefur komið á fundum fjárlaganefndar og í umsögnum til fjárlaganefndar að fjárveitingin sem hingað til hefur fallið undir reiknaðan raunvöxt á Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri nýtist nú til að greiða fyrir kostnað vegna betri vaktavinnutíma.

Ráðist var í þetta úrræði eða verkefni, betri vaktavinnutíma, til að draga úr álagi á heilbrigðisstofnunum en það var alveg ljóst að útfærslan myndi leiða af sér aukinn fjölda stöðugilda og kostnað. Á sama tíma hafa umræddar heilbrigðisstofnanir fengið árlega greiðslu til að mæta aukinni þjónustuþyngd sem fylgir fjölgun og öldrun þjóðarinnar, því sem er kallaður reiknaður raunvöxtur. Í ár er hins vegar farin sú leið að nýta fjármagn sem annars yrði veitt til að mæta umræddum raunvexti, þ.e. auknu álagi vegna fjölgunar, til að mæta kostnaði vegna betri vaktavinnutíma. Með öðrum orðum er verið að greiða fyrir úrræði sem á að draga úr álagi á heilbrigðisstofnunum með því að nota fjármagn sem átti að mæta auknu álagi vegna fjölgunar og öldrunar þjóðarinnar. Þetta getur ekki talist skynsamleg ráðstöfun. Hún er beinlínis til þess fallin að vinna á móti tilgangi betri vaktavinnutíma. Álagið er einfaldlega flutt á milli staða. Það liggur alveg fyrir að þessi kostnaður mun fylgja rekstri Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri á komandi ári. Hjá öldrun og fjölgun verður ekki komist og því sætir furðu að unnið sé markvisst á móti úrræðum sem eiga að draga úr álagi á þessum sjúkrastofnunum með því að vanfjármagna getu þeirra til að mæta lýðfræðilegum breytingum og þjónustuálagi sem því fylgir.

Þá er ekki slegið af kröfum um aðhald á sjúkrahúsum upp á um 0,5 milljarða kr. þrátt fyrir augljósa fjárþörf. Breytingartillaga minni hluta gengur m.a. út frá því að raunvöxtur í sjúkrahúsþjónustu verði bættur og hagræðingarkrafan felld niður fyrir Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri. Tökum eftir þessu, þetta er ekki róttækara en svo. Þetta eru fjárlög meiri hlutans, það er alveg á hreinu, og það eina sem minni hlutinn er að kalla eftir þarna, sameinuð stjórnarandstaða, er að fallið verði frá algerlega gölnum aðhaldskröfum á sjúkrahúsin í landinu og tekið verði tillit til þess í fjárlögum næsta árs að okkur fjölgar og meðalaldur hækkar. Er það til of mikils mælst?

Þá að heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa: Þrátt fyrir áherslu stjórnvalda á geðheilbrigðismál, alla vega í orði, og þá sér í lagi mikilvægi þess að auka virkni ungs fólks og draga úr nýgengi örorku, vantar enn verulega upp á að aðgengi að sálfræðiþjónustu og annarri þjónustu á sviði geðheilbrigðismála sé tryggt. Fjármögnun á lögum um sálfræðiþjónustu hefur ekki verið tryggð og í málaflokki heilbrigðismála kemur í raun ekkert nýtt fjármagn inn á milli ára þrátt fyrir áherslur í nýjum stjórnarsáttmála.

540 millj. kr. framlag sem féll undir Geðheilbrigðismál: Heilsuefling vegna Covid, fellur niður. Á móti eru lagðar til 100 millj. kr. í flokkinn Geðheilbrigðisstefna, aukin þjónusta í samræmi við áætlun, og svo 400 millj. kr. í geðheilbrigðismál. Þannig eru 500 millj. kr. settar í fastar fjárheimildir til móts við tímabundna 540 millj. kr. framlagið sem kom til vegna Covid. Í viðbótartillögum stjórnarmeirihlutans við 2. umr. bætast svo 80 millj. kr. við vegna stjórnarsáttmála um geðheilbrigði í skóla. Nettó bætast því aðeins við 40 millj. kr. milli ára í málaflokki heilbrigðismála, þrátt fyrir augljósan fjárskort.

Þá er ljóst að endurskoðunar er þörf á samningi heilbrigðisráðuneytisins við SÁÁ sem glímir við fjárskort vegna aukins innlagnarálags og meðferðarúrræða, m.a. vegna ópíóíðafíknar. Þegar þetta nefndarálit er skrifað bíða u.þ.b. 600 manns eftir að komast á Vog. Fjárlaganefnd fundaði með SÁÁ. Í umsögn samtakanna er skýrt neyðarkall um aukna fjárveitingu til þess eins að geta sinnt nauðsynlegri þjónustu. Þar kemur m.a. fram:

„Heilbrigðisyfirvöld nýta eingöngu 70% af afkastagetu eina sjúkrahússins á Íslandi sem sérhæfir sig í meðferð fólks með fíknisjúkdóm. Framlag ríkisins fjármagnar 1.530 innlagnir á Vog á ári, hin 30% hafa samtökin neyðst til að fjármagna með sjálfsaflafé.“

Áhrifin af því að treysta á sjálfsaflafé fyrir starfsemi sjúkrahússins eru þau að SÁÁ gat sinnt 455 færri innlögnum árið 2020 og því fóru hundruð einstaklinga sem á mis við lögbundna heilbrigðisþjónustu sem þeir eiga rétt á.

Meiri hluti fjárlaganefndar kemur aðeins til móts við þriðjung af neyðarkalli SÁÁ án frekari rökstuðnings. Þetta er í ósamræmi við áherslur stjórnvalda á að auka virkni og framleiðni í samfélaginu til viðbótar við þá augljósu stöðu að hér er brotið á mannréttindum fólks sem þarf á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu að halda. Í umsögn SÁÁ kemur m.a. fram:

„Einstaklingar í þörf fyrir innlögn á Vog eru ungt fólk sem á ung börn og ætti að vera með fulla virkni og þátttöku í samfélaginu, en glíma þess í stað við félagslegan vanda. Meiri hluti (62%) er ekki með fasta atvinnu og margir með opin barnaverndarmál eða í dómskerfi.“

Auk þess sem „einstaklingar í neyslu eru stórnotendur bráðaþjónustu og koma marktækt oftar á bráðamóttöku en aðrir“.

Vanfjármögnun á þjónustu SÁÁ skapar þannig kostnað annars staðar í kerfinu sem bitnar á ríkissjóði síðar meir.

Breytingartillaga minni hluta miðar við að auka fjármagn til sálfræðiþjónustu og til almenns reksturs heilbrigðisstofnana og að auka við fjárheimildir í forvarna- og meðferðarstarfi.

Að hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu. Bráðnauðsynlegar breytingar eru gerðar á fjárframlagi til hjúkrunarheimila núna við 2. umr. þar sem viðbótarfjármagn upp á 1 milljarð fyrir rekstrargrunn hjúkrunarheimila er tryggt áfram og 1,2 milljarðar eru lagðir í betri vaktavinnutíma. Þessu ber að fagna en að sama skapi er það umhugsunarvert að slíkar fjárhæðir hafi ekki verið að finna í upphaflega fjárlagafrumvarpinu. Ljóst er að rekstrarvandi hjúkrunarheimila verður ekki leystur með þessum framlögum enda augljóst af kynningu Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu að fjárskortur undanfarin ár hefur bitnað verulega á umönnunarklukkustundum. Aftur á móti virðist sem neyðarástandi hafi verið afstýrt að sinni með fjárveitingunni nú við 2. umr.

Þá að örorku og málefnum fatlaðs fólks og málefnum aldraðra. Samkvæmt forsendum frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2022 munu greiðslur almannatrygginga hækka um 4,6% fyrir ellilífeyrisþega og 5,6% fyrir örorkulífeyrisþega. Þetta er ekki í takt við fyrirséðar meðaltaxtahækkanir á almennum vinnumarkaði á næsta ári og munu fjárlögin því fela í sér áframhaldandi kjaragliðnun milli launa og lífeyris. Það er pólitísk ákvörðun að láta fólk sem reiðir sig á lífeyri sitja eftir. Þetta er ámælisvert í ljósi þess að stór hluti lífeyrisþega glímir við lágtekjuvanda, fátækt. Samkvæmt mælaborði Tryggingastofnunar þurfa um 14.000 lífeyrisþegar að draga fram lífið á minna en 300.000 kr. á mánuði fyrir skatt. 80% öryrkja eiga erfitt með að ná endum saman samkvæmt nýlegri skýrslu sem Varða, rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, vann fyrir Öryrkjabandalag Íslands. Þá er ójöfnuður meðal eldri borgara meiri á Íslandi en meðal almennings almennt, ólíkt því sem tíðkast í nágrannalöndum eins og Noregi, Danmörku og Finnlandi, þar er því öfugt farið.

Nærtækasta leiðin til að sporna við þessum lágtekjuvanda eldra fólks og öryrkja er að hækka óskertan lífeyri Tryggingastofnunar en auk þess er brýnt að draga úr skerðingum í almannatryggingakerfinu og lækka þannig óbeina jaðarskatta þessara hópa. Eins og Stefán Ólafsson og Stefán Andri Stefánsson benda á í skýrslu sinni Kjör lífeyrisþega: Samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða í mótun tekna eru skerðingar með tekjutengingu meiri og brattari og byrja fyrr í íslenska almannatryggingakerfinu en í öðrum OECD-ríkjum. Þetta er umhugsunarvert, eitthvað sem við þurfum að taka á.

Breytingartillaga minni hluta fjárlaganefndar miðar að því að stöðva kjaragliðnunina. Framlagið sem lagt er til aukalega í málaflokkinn miðar við að hækkunin milli ára nái 7,5% í takt við lífskjarasamninga nú um áramótin. Þessi tillaga, ólíkt kannski ýmsu öðru, felur náttúrlega í sér mjög mikla pólitík. Hún snýst ekki bara um að laga, í rauninni koma í veg fyrir, skaða sem stjórnarmeirihlutinn er að leggja til að verði unninn á okkar sameiginlegu stofnunum með niðurskurði. Þetta snýst um þá pólitík að lífeyrir eigi að fylgja launaþróun í landinu eins og hann á að gera samkvæmt lögum um almannatryggingar, 69. gr., ef ég man rétt. Þannig að þarna er pólitík sem minni hlutinn er að setja fram en við vitum auðvitað að meiri hluti Alþingis stendur fyrir allt annars konar pólitík. Ég er ekki bjartsýnn á að þessi tillaga verði samþykkt.

Það er hins vegar nauðsynlegt að stöðva kjaragliðnunina sem hefur ágerst undanfarinn áratug sem fyrst. Það þarf að leggja fram áætlun um hvernig verður unnið að því að minnka þann fleyg sem hefur skapast á milli almannatryggingakerfisins og almennrar launaþróunar síðustu ár. Annars stækkar gatið bara á ári hverju og verður meira og meira óyfirstíganlegt. Það er ábyrgt að varða leiðina fram á við hvað þetta varðar. Það tækifæri var ekki nýtt enn eitt árið í röð í núverandi fjárlagafrumvarpi.

Í fjárlagabandorminum er lögð til sú eina breyting á skerðingarkerfi almannatrygginga hjá eldra fólki að frítekjumark atvinnutekna hjá eldri borgurum tvöfaldist, það er hækkað úr 100.000 kr. á mánuði í 200.000 kr. á mánuði. 3. minni hluti telur þetta jákvætt skref í sjálfu sér en bendir á að aðgerðin, sem kostar 560 millj. kr., snertir aðeins brot af eldra fólki. Við meðferð málsins innan þeirrar nefndar sem ég tilheyri, efnahags- og viðskiptanefndar, var óskað eftir upplýsingum um það hvernig ábatinn af þessari aðgerð dreifist eftir tekjutíundum og eftir kyni. Þótt niðurstaðan komi ekki sérstaklega á óvart var svolítið sláandi að sjá hana svona skýrt. Þarna kemur fram að þetta rennur eiginlega allt til efstu tekjutíundarinnar og 67% renna til karla en 33% til kvenna. Þetta segir okkur auðvitað ýmislegt um þá forgangsröðun, þá pólitísku forgangsröðun, sem á að ráða ríkjum næstu fjögur árin með Vinstrihreyfinguna – grænt framboð í forsætisráðuneytinu.

Með þeirri breytingu sem tekur gildi eftir áramót verður komin upp sú staða að frítekjumark atvinnutekna hjá eldra fólki verður orðið átta sinnum hærra en almenna frítekjumarkið sem tekur til lífeyristekna. Það verður áfram bara 25.000 kr. á mánuði. 3. minni hluti vekur athygli á því að lífeyristekjur eru ekkert annað en frestaðar atvinnutekjur fólks sem hefur greitt í lífeyrissjóði af laununum sínum. Samkvæmt minnisblaði félagsmálaráðuneytisins sem efnahags- og viðskiptanefnd fékk er ljóst að hækkun hins almenna frítekjumarks myndi dreifast miklu jafnar eftir tekjutíundum og miklu jafnar eftir kyni. Tvöföldun þess myndi kosta 5 milljarða sem er miklu meira en það sem hækkun frítekjumarks atvinnutekna kostar en öll skref, hvert minnsta skref sem yrði stigið með því að hækka almenna frítekjumarkið, myndu dreifast jafnar eftir tekjutíundum og kyni en sú aðgerð sem er í forgangi hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að málefni örorkulífeyrisþega verði tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði fólks með skerta starfsorku. Þetta höfum heyrt oft áður. Í sáttmálanum segir:

„Sérstaklega verður horft til þess að bæta afkomu og möguleika til virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á eigin forsendum“.

Nú liggja fyrir niðurstöður könnunar sem Öryrkjabandalagið lét gera. Það komu mjög skýr svör frá öryrkjum sem rætt var við, örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum sem rætt var við, að ein helsta hindrunin í vegi aukinnar atvinnuþátttöku öryrkja eru skerðingarnar. Þess vegna skýtur auðvitað skökku við að í frumvarpinu sem við erum að fjalla um hér í dag er gert ráð fyrir að frítekjumark atvinnutekna hjá öryrkjum haldist óbreytt og verði þannig hátt í helmingi lægra en frítekjumark atvinnutekna hjá eldra fólki eftir áramót. Þannig munu t.d. öryrkjar í hlutastarfi á vinnumarkaði áfram þurfa að þola meira en 70% jaðarskattlagningu vegna samanlagðra áhrifa tekjutengdra skerðinga og skatta. Til samanburðar er jaðarskattur okkar í þessum sal, hátekjufólksins, sem við greiðum af hverri viðbótarkrónu 46,25%.

Frítekjumark atvinnutekna hjá öryrkjum hefur staðið í stað síðan 2009. Það væri meira en 200.000 kr. á mánuði ef það hefði fylgt verðlagsvísitölu. 3. minni hluti telur þessa stefnu gagnvart hópi sem reiðir sig á almannatryggingakerfið algjörlega óboðlega og hvetur til þess að undið verði ofan af henni með stórum skrefum strax. Þá er það lágmarkskrafa að frítekjumark atvinnutekna hjá öryrkjum fylgi frítekjumarki atvinnutekna hjá eldra fólki og hækki upp í 200.000 kr. strax eftir áramót. Það er óréttlætanlegt að skilja þennan hóp lágtekjufólks enn einu sinni eftir við afgreiðslu fjárlaga og fjárlagabandorms og það er ábyrgðarhlutur að gera það. Það verður horft á það í atkvæðagreiðslunni hverjir greiða atkvæði með þeim hætti.

Þá almennt að hagræðingarkröfu á sviði almannatrygginga. Það sætir furðu að merkja megi hagræðingarkröfu upp á allt að 1 milljarð á málefnasviðum 27, 28 og 30 sem snúa að bótakerfum almannatrygginga og eiga að vera undanþegin aðhaldi. Ekki hafa borist nægjanlega skýr svör við fyrirspurnum minni hluta um hvað skýrir þessa hagræðingarkröfu á sviðunum. Hluti af óljósri skýringu er auðvitað skortur á tíma en undir eðlilegri kringumstæðum hefði nefndarmönnum gefist betri tími til að sækja ítarlegri svör frá ráðuneytinu. Eftirfarandi upplýsingar bárust frá félagsmálaráðuneytinu um 1 milljarðs kr. aðhaldið:

„Tillögur þessar varða ráðstafanir til að bæta afkomu ríkissjóðs og aðrar breytingar sem komu inn í fjármálaáætlun 2020 til 2024 og hafa því væntanlega verið ræddar í ríkisstjórn sumarið 2019.

Á málefnasviðum félagsmálaráðuneytisins komu aðgerðir sem snúa áttu að því að draga úr útgjaldavexti. Hjá félagsmálaráðuneyti voru þessar ráðstafanir settar á tilfærslukerfi almannatrygginga og í samspili við endurhæfingu og starfsendurhæfingu og fengu heitið endurmat útgjalda – tilfærsluliðir. Fjárhæðirnar dreifðust á málefnasvið 27, 28 og 30. Þannig ætti þetta endurmat að endurspegla árangur af áherslu á endurhæfingu og því ekki að fela í sér beinan niðurskurð. Þetta hefur ekki áhrif á greiddar bætur og hefur ekki neina lækkun í för með sér, en á að nást fram með lækkun á nýgengi örorku.

Samtals var um að ræða 2.000 m.kr. upphaflega sem dreifðist á árin 2021–2024 og svo á tilfærsluliði milli málefnasviða, upphæðirnar breyttust við vinnslu áætlunarinnar.“

Þetta eru upplýsingarnar sem berast frá félagsmálaráðuneytinu um þetta.

Vissulega er ánægjulegt að nýgengi örorku fari minnkandi. Þetta má sjá á upplýsingum frá Tryggingastofnun. Það vekur þó athygli að aukið svigrúm vegna minnkandi nýgengis örorku leiðir ekki af sér að fjármagnið sé nýtt annars staðar á sviði örorku, svo sem í endurhæfingu og í hækkun grunnlífeyris. Í staðinn er stefnt að því að minnka fjármagnið sem rennur til málaflokksins um 2 milljarða kr. miðað við framangreindar upplýsingar.

Þá að fjölskyldumálum. Engar breytingar eru gerðar á barnabótakerfinu í fjárlagafrumvarpinu nema til þess að tryggja að skerðingarmörk fylgi fyrri launaþróun og kaupmáttur barnabótanna haldist óbreyttur. Það er engin innspýting inn í barnabótakerfið og framlögin standa í stað. Athyglisvert er, í ljósi umræðu um verðbólgu og launaþrýsting, að ríkisstjórnin hugi ekki að kjarabótum sem tryggja afmarkaðri stuðning við barnafólk, en tilfærslur geta dregið verulega úr launaskriði.

Þá að húsnæðisstuðningi. Íbúðaverðshækkanir eru nú að baki allri verðbólgu umfram verðbólgumarkmið í landinu. Þessar eignaverðshækkanir leka út í verðlag og launakröfur. Þrátt fyrir augljósa markaðsbresti á íbúðamarkaði eru engar viðbætur í úrræði á húsnæðismarkaði í fjárlagafrumvarpinu. Þessar húsnæðisverðshækkanir koma illa við almenning, fyrirtæki og hið opinbera sjálft, enda eru launa- og verðlagshækkanir sem rekja má til fasteignaverðshækkana ein stærsta útgjaldabreytan hjá ríkissjóði.

Beinn aukakostnaður ríkissjóðs á þessu ári vegna meiri verðbólgu en við var búist þegar síðustu fjárlög voru samþykkt er rúmlega 13 milljarðar kr. Tæplega 10 milljarðar kr. eru vegna hærri fjármagnskostnaðar vegna meiri verðbólgu en við var búist og tæpir 4 milljarðar kr. bætast við rekstrarkostnað vegna verðlagshækkana sem færast yfir á það frumvarp til fjárlaga sem hér er fjallað um.

Fjármagnskostnaður ríkissjóðs var 3,5 milljörðum kr. lægri í fyrra en ef af allri lántökunni sem stefnt var að hefði orðið, því að afkoma ríkissjóðs var betri en vonir stóðu til. En á móti þessu vega tæpir 10 milljarðar kr. vegna verðbólgukostnaðar því efnahagsviðsnúningur hefur verið ójafn og ber með sér mikinn verðþrýsting, sérstaklega á eignamörkum. Þetta er verðþrýstingur sem má rekja til afstöðuleysis ríkisstjórnarinnar á íbúðamarkaði.

Breytingartillaga sem minni hlutinn leggur til felur í sér að framlög í almenna íbúðakerfið verði tvöfölduð miðað við núverandi framlag. Þannig má styðja við aukið framboð húsnæðis á viðráðanlegu verði og tryggja að ríkið stígi myndarlega inn á framboðshliðinni og veiti fjármagn í uppbyggingu húsnæðis. Sú uppbygging myndar ákveðið akkeri á markaði sem dregur úr þrýstingi á leigumarkaði og kemur þannig í veg fyrir að verðhækkanir fari upp allan stigann, líka á kaupmarkaði.

Að almennum varasjóði og sértækum fjárráðstöfunum hjá Stjórnarráðinu. Breytingar á Stjórnarráðinu eru metnar á um 0,5 milljarða kr. samkvæmt tillögum sem koma inn við 2. umr. fjárlaganna. Stærsti hlutinn, eða 450 millj. kr., fellur undir sértækar fjárráðstafanir þaðan sem fjármagnið mun síðan deilast niður á ráðuneytin. Þessi kostnaður er ekki einskiptis í eðli sínu heldur mat á reglulegum tilkostnaði vegna starfsmanna, ráðherra, aðstoðarmanna sem og verkefna.

Athygli vekur að þessari ráðstöfun hefur ekki fylgt frekari greining á því hvernig þetta fjármagn nýtist og í hvaða verkefni og hefur 3. minni hluti því engar forsendur til að meta eðli þessara útgjalda. Í samhengi við umræðu um forgangsröðun í ríkisfjármálum og þá miklu áherslu sem ríkisstjórnin leggur á gagnsæi og aðhald kemur þetta á óvart, enda er um umtalsverða fjármuni að ræða.

Þá að loftslagsmálum. Breytingartillaga minni hlutans sem snýr að loftslagsmálum er færð undir liðinn Sértækar fjárráðstafanir, þar sem loftslagsmálin snerta mörg svið. Helmingur fjármagnsins fellur undir rekstur þar sem lagðar eru til ýmsar ívilnanir og styrkir vegna vísinda og verkefna í átt að sjálfbærni eins og rannsóknarsjóði, tækniþróunarsjóði, loftslagssjóði og álíka verkefni. Hvað varðar fjárfestingu er litið til verkefna sem tengjast orkuskiptum, rafvæðingu hafna, brothættum byggðum og skolpmálum í sveitarfélögum.

Eins og sakir standa fara um 13 milljarðar kr. í loftslagsmál eða undir 0,5% af landsframleiðslu. Langtímaáætlun stjórnvalda, eins og hún birtist í fjármálaáætlun, sýnir minnkandi framlög. Mikilvægt er að leggja fram trúverðuga aðgerðaáætlun í málaflokknum sem er fullfjármögnuð og hér þarf mun meira að koma til en breytingartillaga minni hluta leggur til, en þetta er samt skref í rétta átt.

Þá að tekjuhliðinni og fjármögnun á breytingartillögum minni hluta. Athygli er vakin á því að við mat meiri hlutans á heildaráhrifum breytingartillagna sem koma inn við 2. umr. fjárlagafrumvarps kom fram að þótt afkoma ríkissjóðs versnaði um 10 milljarða kr. vegna þeirra yrði hún enn innan marka fjármálastefnu sem lögð var fram á þinginu í byrjun desember. Fjárlaganefnd á enn eftir að taka fyrir fjármálastefnu en ekki hefur gefist tími til þess. Hallinn samkvæmt tillögu meiri hluta við 2. umr. verður 5% af landsframleiðslu á næsta ári. Núverandi fjármálastefna gerir hins vegar ráð fyrir 5,5% halla fyrir ríkissjóð með viðbótarsvigrúmi upp á 1,5% fyrir hið opinbera í heild sinni.

Þess má geta að þær breytingartillögur sem minni hlutinn leggur til bæta 0,4% við hallann ef þær væru ekki fjármagnaðar og væru því undir svigrúmi ríkissjóðs og vel undir óvissusvigrúminu.

Þátt fyrir þetta fylgja breytingartillögum tillögur á tekjuhliðinni sem snúa að rekstrarútgjöldunum sem munu falla til árlega vegna þessara breytinga en það eru 10 millj. kr. af 15 milljarða kr. tillögum. 5 milljarðar kr. flokkast sem arðbær fjárfesting sem styrkir vaxtargetu hagkerfisins og dregur úr rekstrarkostnaði ríkissjóðs til lengri tíma. Það er eðlilegt að taka lán fyrir þessu, annars vegar í húsnæðismálum og hins vegar í loftslagsmálum.

Í skýrslu sérfræðingahóps um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa frá 2019 kemur fram að víðtækur misbrestur sé á því að reglur um reiknað endurgjald séu virtar og ætla megi að verulegur hluti atvinnutekna sé ranglega talinn fram sem fjármagnstekjur á Íslandi. Í núgildandi regluverki felist verulegur upplýsingavandi fyrir skattyfirvöld þegar kemur að því að ákvarða aðilum í eigin rekstri eðlileg laun. 3. minni hluti telur ámælisvert að ekki hafi verið brugðist við þessum ábendingum, svo sem með því að skilgreina fjármagnstekjur á grundvelli eigna atvinnurekstursins og viðbúinnar ávöxtunar líkt og gert er víða á Norðurlöndunum. Hagdeild Alþýðusambands Íslands bendir á í nýlegri skýrslu, Skattar og ójöfnuður: réttlátara og skilvirkara skattkerfi, að með aðgerðum sem takmarka möguleika til tekjutilflutnings megi auka tekjur ríkissjóðs um 3,6 milljarða kr. á ári og að sú skattbyrði myndi einvörðungu leggjast á tekjuhæstu 10% skattgreiðenda.

Loks er horft til veiðigjalds sem hefur rýrnað umtalsvert á síðustu árum. Hagdeild Alþýðusambandsins hefur metið auðlindarentuna sem 30–70 milljarða kr. á ári hverju. Þetta miðast reyndar bara við alþjóðlegt mat á auðlindarentunni. Til samanburðar við þessa 30–70 milljarða kr. er búist við að innheimta veiðigjalds verði um 6 milljarðar kr. á næsta ári. Gerð var breyting á stofni veiðigjalds á síðasta kjörtímabili sem jók svigrúmið til frádráttar frá veiðigjaldsstofninum. Það er hægt að auka hlut ríkisins og þar með samfélagsins í auðlindarentunni með því að endurskoða frádráttarheimildir og hækka til viðbótar prósentugjaldið.

Þá er lestri mínum á nefndaráliti 3. minni hluta lokið. Ég er hér í dag sem varamaður hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur sem er í sóttkví og gat því ekki flutt þetta nefndarálit sjálf.