152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[03:09]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannessyni fyrir lestur á þessu áliti og sömuleiðis nota þetta tækifæri og þakka höfundinum, hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur fyrir nefndarálitið og samvinnuna í fjárlaganefnd og vonast til þess að sjá hana í umræðunni á morgun. Það voru nokkur atriði sem mig langaði að ræða og í raun og veru heill hellingur sem hefði verið hægt að ræða og kemur ekkert á óvart í sjálfu sér miðað við umræðuna í nefndinni. En mig langaði aðeins að ræða og taka undir og þakka fyrir lið 9, sem heitir Almanna- og réttaröryggi, þar sem gerð er athugasemd um aðhaldskröfu lögreglunnar. Hún er 2% og er gerð tillaga að því eða mælst til þess að hún fari niður í 0,5% sem er sambærilegt við heilbrigðisþjónustuna vegna þess að laun lögreglumanna eru 80–85% eins og hjá heilbrigðisstarfsmönnum.