152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[10:35]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir spurningarnar og hugleiðingarnar. Já, það er dálítið merkilegt hvernig þessum málum er öllum háttað og hversu erfiðlega gengur að fá stjórnvöld til að beita aðferðum sem alþjóðastofnanir mæla með, aðferðum sem geta í senn hvatt fyrirtæki og fólk til að haga sér á þann máta sem er umhverfinu hollt og gert þeim sem menga lífið leiðara. Þetta er gömul aðferð, svipan og gulrótin. Stundum þarf að fara blandaða leið en ríkisstjórnin hefur átt erfitt með þetta. Það er auðvitað mjög merkilegt sem hv. þingmaður rifjaði upp varðandi kolefnisgjöldin sem voru sett, eins og hann nefndi réttilega, í stuttri ríkisstjórnartíð Viðreisnar og fyrir frumkvæði Viðreisnar. Það var fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar þá, sem hafði um borð fulltrúa sem tala mikið um umhverfismál og hafa mikinn áhuga á þeim, að lækka þessi gjöld. Það er auðvitað mjög sorglegt, ég veit það ekki, ég held að ég hafi orðað það þannig í ræðunni, að mér finnst þessi ríkisstjórn vera kyrrstöðustjórn. Það er eitthvert jafnvægi sem snýst um að gera helst ekki neitt og hrófla ekki við neinu sem gæti hugsanlega komið við einhvern.