152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[12:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ég er ánægð með að heyra að þingmaðurinn telji ekki að það eigi að vera eins kerfi fyrir þessa hópa, enda eru þeir ólíkir um margt. Það kom fram í máli hv. þingmanns, eða mögulega andsvari hér fyrr í umræðunni, að ríkisstjórnin hafi farið í öfuga átt vegna lífeyrisþega. Ég verð að mótmæla því því að auðvitað voru gerðar hér á árinu 2016, ef ég man rétt, breytingar á á ellilífeyriskerfinu sem urðu til þess að bæta kjör allra ellilífeyrisþega þar sem bótaflokkar voru felldir saman. Þar með hvarf algerlega hin sérstaka framfærsluuppbót út úr kerfi ellilífeyrisþega. Svo á síðasta kjörtímabili var gerð sú breyting að tryggja þeim sem engin réttindi eiga í ellilífeyriskerfinu greiðslur, fólki sem var í rauninni upp á framfærslu sveitarfélaganna komið þar á undan. Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram hérna í umræðunni. Svo er auðvitað gott og blessað að vilja halda áfram og gera frekari breytingar. En mér finnst mikilvægt að það komi fram hvaða breytingar hafi verið gerðar og taka það fram að þær hafi einmitt verið gerðar til þess að bæta kjör hinna verst settu (Forseti hringir.) en svo þurfi vissulega að halda áfram. Þannig að ég tel að þær breytingar sem eru lagðar til við þennan bandorm séu passandi á þessu stigi máls.