152. löggjafarþing — 18. fundur,  28. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[11:14]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka nefndarmönnum í hv. efnahags- og viðskiptanefnd kærlega fyrir mjög góða samvinnu og vel unnin störf. Mig langar sömuleiðis að fá að nefna hér átakið Allir vinna sem ég tel mjög brýnt að haldi áfram og er þakklát fyrir að svo verði. Ég vil í því sambandi minna á orð Skúla Eggerts Þórðarsonar ríkisendurskoðanda sem hefur talað um að átakið hafi skilað mjög miklu í baráttunni gegn svartri atvinnustarfsemi. Þegar talað er um að þetta kosti okkur yfir 7 milljarða vil ég minna á að þar erum við eingöngu að horfa á annan endann, útgjaldaliðinn, en ekki á það sem átakið skilar, sem það gerir auðvitað í formi þess að vara er seld og af henni er greiddur skattur og það kemur tekjuskattur í kassann sem og aðrar tekjur. (Forseti hringir.) Ég vil líka nefna að ég er ánægð með að sóknargjöld hafi verið hækkuð því að við vitum að trúfélög í landinu hafa verið í mikilli neyð.