152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

raforka til garðyrkjubænda.

[15:46]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Eins og kom fram í fyrirspurninni þá var starfshópurinn skipaður af ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og vinnan fór fram af hálfu þess hluta atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Þó má nefna varðandi greiðslur til bænda vegna raforkumála, sem ég tek undir með hv. þingmanni að eru afar mikilvægur hluti af starfsskilyrðum þessa mikilvæga vaxtarsprota íslensks landbúnaðar, að það er ljóst að fyrirkomulagið um greiðslur til framleiðenda fer eftir búvörusamningum, þ.e. samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða. Samkomulag um breytingar á þeim samningi var undirritað 14. maí 2020 en með samkomulaginu var í fyrsta lagi bætt við framlag til garðyrkjunnar, það eru 200 milljónir á ári, frá og með árinu 2020 og út gildistíma samningsins og þar af var 70 milljónum bætt við árlega til greiðslu sérstaklega vegna raforku. Samkvæmt samningnum renna því um 385 millj. kr., uppfært árlega, til greiðslu vegna raforku og ylræktendum voru tryggðar beingreiðslur vegna lýsingar í stað niðurgreiðslu kostnaðar, samanber þetta samkomulag. Framlög samkvæmt fjárlögum greiðast til framleiðenda miðað við notkun á raforku til gróðurhúsalýsingar. Með vísun til þess þá eru þessum framleiðendum í raun og veru tryggðar beingreiðslur til niðurgreiðslu í því skyni að stuðla að betra starfsumhverfi greinarinnar. En í grunninn er ég sammála hv. þingmanni um að þarna þurfum við að gera enn betur. Við þurfum að setja okkur háleit markmið í þá veru að grænmetisframleiðsla á Íslandi fái betri starfsskilyrði. Þau eru ótalin sóknarfærin sem eru fyrir hendi í þeim hluta greinarinnar.