152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál
[16:15]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, það eru fleiri geirar sem standa í ströngu, bæði vegna veirunnar og hegðunar fólks en líka vegna þeirra takmarkana sem gripið er til, oft með mjög stuttum fyrirvara. En það sem framhaldið snýr að eru þeir geirar sem hv. þingmaður nefnir, menningargeirinn og þar undir er þá viðburðageirinn líka. Það sem við erum að horfa til eru lokunarstyrkir og viðspyrnustyrkir í ákveðnu formi og svo sérstakur stuðningur við menningargreinar. Það er vissulega horft til þess hvort það séu forsendur fyrir framlengingu á hlutabótaleiðinni en það er ekki víst að svo sé. Hagræni hópur Stjórnarráðsins sem hefur verið á vaktinni í mjög langan tíma og unnið þetta alla jafna er að fara yfir það líka núna og við tökum það þá þegar það er allt frágengið. Það er í skoðun eins og það sem ég nefndi á undan og við eigum von á í þessari viku líkt og tilkynnt var fyrir helgi.