152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

staðan í heilbrigðiskerfinu.

[14:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Um leið og ég þakka fyrir þessa umræðu verð ég að segja að málflutningur flestra stjórnarliða um þetta mikilvæga mál finnst mér með öllu óboðlegur. Hæstv. ráðherra og hv. þingmenn stjórnarflokkanna, sem eru nú á fimmta ári í stjórnarsamstarfi, láta eins og ríkisstjórnin fyrr og nú hafi bara gert nóg. Það gera þau jafnvel þótt neyðarkall heyrist frá fólkinu sem starfar á Landspítalanum og í heilbrigðiskerfinu með reglulegu millibili. Nú um stundir ætti engum að dyljast að stjórnvöld verða að bregðast við með öðru en upptalningu á meintum eigin afrekum. Enginn þeirra nefndi viðbrögð við því að uppsagnir hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku Landspítalans taka gildi í mars ef ekkert verður að gert. Of margt heilbrigðisstarfsfólk leitar í önnur störf og jafnvel til annarra landa þar sem starfsaðstæður, vinnutími og launakjör eru betri en hér. Það er auðvelt fyrir fagfólkið okkar að fá störf í útlöndum.

Við fögnum því öll að verið sé að byggja nýjan Landspítala. Það er sannarlega löngu tímabært að ráðast í þá mikilvægu fjárfestingu. En þeir sem tína til kostnað við nýbygginguna og láta sem þeir fjármunir gagnist þeim sem glíma við sjúkdóma og þarfnast lækninga og aðhlynningar í dag stunda blekkingaleik.

Herra forseti. Það verður að stöðva keyrslu ríkisstjórnarinnar eftir sveltistefnu í heilbrigðiskerfinu. Íslenskur almenningur á betra skilið og íslenskt velferðarsamfélag á betra skilið.